Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 24
24 SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 6. ÁRG. 2006 nám og réð sig svo í Fjölbrautaskólann á Akranesi. Þá háttaði þannig til að elstu grunnskólanemendurnir voru við nám í sama húsnæði. Eftir að hafa kynnst nokkuð kennslu á unglingastigi flutti Hrönn sig yfir í Brekkubæjarskóla og kenndi þar í um áratug, lengst af unglingum. Þá söðlaði hún um og fór að kenna fyrstubekkingum. Það má því með sanni segja að Hrönn hafi farið í aðra átt en flestir, mun algengara er að fólk byrji með fyrstubekkingana og endi á stúdentunum ef það flytur sig á milli á annað borð. Ótrúlega flókin eining en samt heild „Mér fannst ofsalega skemmtilegt að kenna litlu krökkunum,” segir Hrönn sem nú hefur að mestu lagt það á hilluna sökum stjórnunarstarfa. „Kennarar skóla- byrjenda þurfa að skipuleggja hverja mínútu og þetta gaf mér nýjan skilning á skólastarfi. Ég skildi allt í einu til fulls að skóli er heild og verður að fúngera sem slíkur þrátt fyrir að vera ótrúlega flókin eining. Kennarar kenna tíu árgöngum með mismunandi þekkingu og færni þar sem allir eru einstakir, hver og einn. Þetta verður allt saman að ganga upp. Þegar ég kenndi unglingunum var ég ekki mikið að velta því fyrir mér hvað hinir voru að gera og hafði hvorki skilning né mikinn áhuga á því. En þegar ég hafði prófað kennslu á jafnólíkum aldursstigum sjálf sá ég hlutina í allt öðru ljósi. Ég lauk svo réttindanáminu sem grunnskólakennari árið 1989. Ég kenndi í Brekkubæ til ársins 1995 en þá flutti ég mig um set í Grundaskóla vegna búsetu og barna. Haustið 1998 varð ég aðstoðarskólastjóri við skólann og þremur árum síðar leysti ég Guðbjart skólastjóra í Grundaskóla af í námsleyfi hans. Þessi afleysingarreynsla var kveikjan að ritgerðinni. Ég komst að því að þótt við Gutti ynnum afar vel saman sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri þá gerðum við hlutina að ýmsu leyti mjög ólíkt. Sumir voru bara ánægðir með það sem ég var að bardúsa en aðrir gátu ekki beðið eftir að fá Gutta aftur! Kjarninn í rannsókninni er einmitt hvað kennurum finnst skipta máli í fari stjórnenda.“ Hægt að læra að vera góður stjórnandi Hrönn segir að skólastjóri sem er framsæk- inn fái fólk með sér. „Hann fær fólk til að taka þátt í og gera meira en það hafði kannski hugsað sér. Hann nýtur trausts og virðingar og kennarar upplifa líka að þeir njóti trausts og virðingar. Varðandi þessi hugtök, framsækinn og hefðbundinn, er mikilvægt að fólk átti sig á að þau eru notuð í þessu tiltekna verkefni um þessa rannsókn en ekki er verið að dæma hefðbundna stjórnun eða forystu sem slíka. Það kostaði miklar vangaveltur að þýða hugtökin af því að það er ekki borðleggjandi hvað átt er við með „transactional“ og „transformational“ en þetta varð niðurstaðan. Bass og Avolio hrifust mjög af hugmyndum Burns, enda les maður ekki neina bók um stjórnun án þess að vitnað sé í bók hans sem heitir Leadership og kom út 1978. Þeir bjuggu svo til sitt líkan eftir að hafa farið í gegnum Fortuna 500 fyrirtæki og spurt starfsmenn þar hvað einkenndi góðan stjórnanda að þeirra mati.“ Hrönn segir að allir stjórnendur geti tileinkað sér góða og framsækna forystu, burtséð frá meðfæddum persónuleika. „Það geta allir stjórnendur sýnt starfsfólki sínu virðingu og hlustað á starfsmenn sem hafa góðar hugmyndir. Allir geta tileinkað sér stjórnunarhætti sem geta af sér framsækið skólastarf. Líkanið gerir ráð fyrir að þetta sé lærð hegðun og það er eitt af því sem heillaði mig við það. Þeir sem eru framsæknir hafa líka vald á hefðbundinni forystu þegar hennar er þörf en þeir hefðbundnu hafa takmarkaðri stjórnunaraðferðir. Skólastjórinn verður að geta sett sig í allra spor og þess vegna verður hann að velta því fyrir sér hvernig á að stjórna. Og þá er mikilvægt að vita hvað kennurunum finnst í raun og veru um skólastjórann. Þar sem stjórnun er framsækin er árang- ur yfirleitt betri og starfsandi sömuleiðis. Þannig að þótt niðurstöður séu í heildina jákvæðar fyrir skólastjóra er ástæða til að hvetja þá til að kynna sér hugmyndir um framsækna forystu. Því meira sem við lesum og lærum, því meðvitaðri verðum við um það sem við getum lært og tileinkað okkur í starfi. Skólastjórar þurfa að setja sér markmið um hvað felist í góðri skólastjórnun. Kenneth Leithwood sem er mikill gúrú í kanadískum skólamálum hefur lagt áherslu á þetta en hann fullyrðir að innleiðing hugmynda Burns og spurningalisti Bass og Avolio séu það sem kanadískt skólakerfi þurfi á að halda.“ Goðsögn að kennarar hafi allt á hornum sér Hrönn er ánægð með svarhlutfall í rann- sókninni og hvetur skólamenn til að halda áfram að vera jákvæðir í garð spyrjenda. „Auðvitað finnst fólki þetta oft truflun og hefur lítinn sem engan tíma í svona nokkuð. En ef við eigum að geta byggt upp skilning á skólakerfinu og okkar aðstæðum er mjög mikilvægt að styðja við bakið á menntarannsóknum með því að taka þátt. Þessar upplýsingar hafa bein eða óbein áhrif á kjör okkar og menntalíf í landinu í heild. Kennarar eru almennt jákvæðir í sínu mati og ég vil nota tækifærið og benda á að það er algjör goðsögn að kennarar hafi allt á hornum sér. Þvert á móti leita þeir eftir hinu jákvæða. Þegar þeir voru búnir að meta skólastjórana sína mátu þeir hvað þeim finnst mikilvægt í fari stjórnenda almennt og þetta tvennt fór saman. Það er að segja, það var það sama og skólastjórnendurnir stóðu sig best í.“ keg RANNSÓKN Árni Heimir Jónsson Fæddur 24. apríl 1950 - Látinn 16. júlí 2006 Fallinn er frá Árni Heimir Jónsson, kennari og líffræðingur. Árni Heimir hafði ríkan félagsþroska og sterka réttlætiskennd. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þágu kennarastéttarinnar á starfsævi sinni. Hann kom að gerð kjarasamninga, félagsstarfi í kjaradeilum og nefndastarfi á vegum menntamálaráðuneytisins og Félags framhaldsskólakennara ásamt því að vera gjaldkeri stjórnar HÍK í tvö kjörtímabil. Árni Heimir var formaður vinnudeilusjóðs KÍ frá stofnun sjóðsins og allt til dauðadags. Árni Heimir Jónsson var kennari af lífi og sál. Hann kenndi líffræði við Menntaskólann í Reykjavík frá hausti 1978 og uns hann varð frá að hverfa vegna veikinda haustið 2005. Árni Heimir var ástsæll maður og þeim sem þekktu hann ber saman um að þar hafi farið fjölhæfur maður og mikill öðlingur. Hann hafði mörg áhugamál og lét sér fátt óviðkomandi. Kennarar sjá á bak gegnheilum og ötulum liðsmanni í baráttunni fyrir bættum kjörum stéttarinnar og framgangi menntamála í landinu. – hinsta kveðja

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.