Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 6. ÁRG. 2006 Þegar nýir herrar taka við völdum verða gjarnan breytingar. Þetta á til dæmis við þegar nýir forstjórar taka við fyrirtækjum, nýir skólastjórar taka við skólum og þegar nýir meirihlutar komast til valda í sveitarstjórnum. Sumar breytingar eru af hinu góða og vekja ánægju starfsmanna og þeirra sem í hlut eiga, aðrar síður skynsamlegar og þar af leiðandi umdeilanlegar. Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnakosninga voru leikskólamál töluvert í brennidepli. Rætt var um skólagjöld, einstaklingsmiðað nám, samstarf og tengsl skólastiga. Þetta, ásamt fleiru, var til umræðu á opnum fundi sem Reykjavíkurdeild Félags leikskólakennara boðaði til með fulltrúum stjórnmálaflokka í Reykjavík skömmu fyrir kosningar. Hvorki þar né annars staðar komu fram hugmyndir um að kljúfa leikskólann frá skólakerfinu með þeim hætti sem nú er verið að gera í Reykjavík. Skipta á menntasviði upp í tvö aðskilin svið og endurvekja með því leikskólaráð, en fyrir rúmu ári voru fræðsluráð og leikskólaráð sameinuð í menntaráð og Leikskólar Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur sameinuð í Menntasvið Reykjavíkur. Það var talið framfaraskref og liður í því að líta á menntun barna allt frá leikskóla sem heildstætt ferli. Eitt svið og eitt ráð með aðkomu foreldra, kennara og skólastjóra á báðum skólastigum átti að skapa umgjörð um málaflokkinn og tryggja öflugt samstarf skólastiganna og faglega umræðu um menntun barna og kennsluaðferðir á mótum skólastiga. LEIKSKÓLINN Í STJÓRNKERFINU - afturför í Reykjavík Björg Bjarnadóttir Síðastliðin ár hafa æ fleiri sveitarfélög sameinað málaflokka leik- og grunnskóla til að undirstrika þessa sýn og tengja með því leik- og grunnskóla betur. Menntamálaráðherra hefur undanfarin misseri unnið að því með markvissum hætti að setja leikskólann við hlið grunnskólans og horfa á menntaferli barnsins og skólaumhverfið sem heild. Þessi breyting kemur því eins og þruma úr heiðskíru lofti og málsmeðferðin og sá flýtir sem viðhafður er, eru með öllu óskiljanleg. Það er ótrúlegt ef það er einlægur vilji meirihlutans í Reykjavík að aðskilja leikskólann frá öðrum hlutum menntakerfisins og einangra hann með því. Einu rökin sem fram hafa komið eru að málaflokkurinn sé of umfangsmikill. Varla eru það nægjanleg rök, fagleg eða rekstrarleg, til að réttlæta þessa breytingu. Það læðist því óneitanlega að manni sá grunur að verið sé að fjölga formannsstólum enda bítast menn um slíka stóla. Ef sú er raunin er það miður og sýnir í raun lítilsvirðingu í garð leikskólans þar sem faglegum hagsmunum og framtíðarsýn er fórnað í pólitískum slag. Það er skoðun mín að þetta sé skref afturábak og endurspegli gamaldags hugsunarhátt sem er sem betur fer víðast á undanhaldi. Ég tel að meirihluti leikskólakennara og leikskólastjóra í Reykjavík hafi ekki átt von á því að búið væri að gera þessa róttæku breytingu í skjóli sumarleyfa þegar fólk kom úr fríi og án þess að fá tækifæri til að láta álit sitt í ljós. Hvar er faglegur metnaður, lýðræðið og samstarf við þá fagaðila sem málið varðar? Spyr sá sem ekki veit. Björg Bjarnadóttir Það er ótrúlegt ef það er einlægur vilji meirihlutans í Reykjavík að aðskilja leikskólann frá öðrum hlutum menntakerfisins og einangra hann með því.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.