Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 23
Megininntak meistaraprófsverkefnis
Hrannar Ríkharðsdóttur, aðstoðarskóla-
stjóra Grundaskóla á Akranesi, var
rannsókn á störfum og stjórnunarháttum
skólastjóra í grunnskólum frá sjónarhóli
kennara. Í henni kemur fram að
kennarar eru almennt jákvæðir í garð
skólastjóra og hafa mjög ákveðnar
skoðanir á því hvað skiptir mestu máli
í fari góðs stjórnanda. Ásamt því að
veita mikilvægar upplýsingar sem ekki
hafa komið fram áður hérlendis gefa
niðurstöður rannsóknarinnar tilefni til
margs konar framhaldsathugana og
rannsókna.
„Fólki fannst ég mjög hugrökk að hætta
mér í þetta verkefni!“ segir Hrönn og
hlær, „en ég hafði engar áhyggjur og held
að skólastjórar megi mjög vel við una og
íslenskir skólar sem slíkir.“
Annars vegar voru þátttakendur beðnir
að svara spurningum um hvaða þætt-
ir væru að þeirra mati mikilvægastir í
stjórnunarháttum skólastjóra. Hins vegar
svöruðu þeir spurningum um hvaða
mikilvægu eiginleikum þeir teldu eigin
skólastjóra vera búna. Jafnframt voru
svör kennara borin saman við kyn, aldur,
starfsaldur, menntun og starfsheiti þeirra
til að kanna hvort og þá hver þessara atriða
hefðu áhrif á matið. Rannsóknarspurningar
voru þessar: A. Hvað einkennir störf
og stjórnunarhætti skólastjóra að mati
kennara? B. Hvaða þættir eru mikilvægastir
í starfi og stjórnunarháttum skólastjóra að
mati kennara?
Rannsóknin var megindleg og
niðurstöður byggjast á svörum 427
grunnskólakennara í 25 skólum við spurn-
ingalistanum MLQ 5x eftir Bernard Bass
og Bruce Avolio. Eftir að hafa kynnst
hugmyndum James MacGregor Burns um
stjórnunarhætti hönnuðu þeir Bass og
Avolio spurningalista sem nota má til að
greina og lýsa stjórnunarháttum. Listinn
hefur hlotið fjölþjóðlega viðurkenningu
og verið notaður jafnt í skólum sem öðrum
stofnunum og fyrirtækjum. Burns leggur
áherslu á að forysta sé félagslegt ferli
og eðli hennar taki mið af samskiptum
stjórnenda og samstarfsmanna. Burns lýsti
tveimur víddum forystu ef svo má segja og
kallaði aðra hefðbundna (transactional)
en hina framsækna (transformational).
Þetta eru jafnframt lykilhugtök í hönnun
spurningalistans og í rannsókn Hrannar.
Kvenskólastjórar á aldrinum
36-50 ára framsæknastir
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að
skólastjórar eru framsæknir stjórnendur að
mati kennara. Meðaltal skólastjóra er hátt á
þeim yrðingum sem lýsa framsækinni forystu.
Að mati kennaranna eru karlskólastjórar
þegar á heildina er litið framsæknari en
kvenskólastjórar en kvenskólastjórar á
aldrinum 36–50 ára eru framsæknastar allra
skólastjóra. Skólastjórar á aldrinum 36–50
ára eru framsæknari en þeir sem eru orðnir
fimmtugir. Allir skólastjórar í rannsókninni
voru á aldrinum 36 – 65 ára. Karlar meta
karlstjórnendur betur en kvenstjórnendur
en konur meta stjórnendur ekki eftir kyni.
Bekkjarkennarar meta skólastjóra almennt
hærra en sérgreinakennarar. Niðurstöður
benda til þess að framsæknir stjórnendur
notfæri sér hefðbundnar stjórnunaraðferð-
ir við ákveðnar aðstæður. Af niðurstöðum
má einnig draga þá ályktun að stjórnendur
sem eru að mati kennara aðallega
hefðbundnir virðast ekki nýta framsækna
forystuhætti þegar það á við.
Hrönn segir ánægjulegt að íslenskir
grunnskólastjórar séu almennt framsæknir
samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.
„Þeir skora hærra en stjórnendur í öðrum
löndum og eru framsæknari en meðaltalið
þar sem þessi spurningalisti hefur verið
lagður fyrir gefur til kynna, sem er mjög
víða og jafnt í skólum sem annars staðar.
Þegar rannsóknin var lögð fyrir voru
kjarasamningar í uppnámi. Mikið var rætt
um launaflokka og potta og ómögulega
skólastjóra. Kannski hefur þetta haft einhver
áhrif á stemninguna og endurspeglast í
rannsókninni. En hafi umræðan skekkt
myndina er það á þann veg að skólastjórar
eru í raun betri en niðurstöðurnar gefa til
kynna.“
Meistaraprófsverkefni Hrannar var
unnið við Kennaraháskólann en hún fór
ekki hefðbundna leið að grunnskólakenna
rastarfinu. „Ég lærði sögu, stjórnmálafræði
og spænsku, bæði hér heima og í Lundi.
Þetta var dásamlegur tími og ég segi alltaf
að árin í útlöndum gerðu mig að þeim
manni sem ég er. Ég lærði mjög mikið á
sjálfa mig í útlöndum,“ segir Hrönn og
hlær. Eftir heimkomuna fór hún í réttinda-
SKÓLASTJÓRI SKIPTIR MÁLI
DÆMI UM YRÐINGAR SEM KENNARAR
VORU BEÐNIR AÐ META ÚT FRÁ SÍNUM
SKÓLASTJÓRA.
Alls voru yrðingarnar 45 talsins. Alveg
samsvarandi yrðingar voru í hinum
hluta spurningalistans þar sem kennarar
voru beðnir að meta hvað þeim fyndist
mikilvægt í fari skólastjóra almennt.
• Gerir mig stoltan af að vinna með
honum
• Gengur lengra en honum ber til
hagsbóta fyrir starfsmenn
• Talar af bjartsýni um framtíðina
• Skilgreinir nákvæmlega nauðsynlega
framtíðarsýn
• Fær mig til að skoða vandamál frá
mörgum ólíkum sjónarhornum
• Bendir á nýjar leiðir til að ljúka
verkefnum
• Ver tíma í leiðsögn og þjálfun
starfsmanna
• Kemur fram við mig sem
einstakling en ekki bara hluta af
starfsmannahópi
• Ræðir skilmerkilega hver ber ábyrgð
á að ná frammistöðumarkmiðum
• Gerir ljóst hvers starfsmenn geta
vænst þegar markmið nást
• Beinir athygli sinni að því að glíma
við vandamál, kvartanir og mistök
• Fylgist vel með ef starfsmenn gera
mistök
• Tekur ekki á málum fyrr en í óefni er
komið
• Bíður eftir að hlutir fari úrskeiðis
áður en hann grípur inn í
• Forðast að blanda sér í mikilvæg
málefni þegar þau koma upp
• Er fjarverandi þegar hans er þörf
• Forðast ákvarðanatöku / tekur ekki
af skarið
• Leiðir skilvirkan hóp starfsmanna
• Fær mig til að gera meira en ég
hafði ætlað mér
• Eykur löngun mína til að ná árangri í
starfi
Hrönn Ríkharðsdóttir
RANNSÓKN
23
Skólastjórinn verður að geta sett sig í allra spor og þess
vegna verður hann að velta því fyrir sér hvernig á að stjórna.
Og þá er mikilvægt að vita hvað kennurunum finnst í raun
og veru um skólastjórann.