Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 13

Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 13
13 SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 6. ÁRG. 2006 eða línu. Ég er afskaplega lítið hrifin af þessum vinnubrögðum. Ég vil miklu frekar útbúa margnota hlutbundin verkefni, til dæmis tengja mynd við mynd eða hlut við spjald. Með „Ég get lesið“ er ég að benda fólki á að það getur gert ýmislegt annað. Börn læra ekki að bera virðingu fyrir námsgögnum ef þeim er hent fljótlega eftir að þau unnu þau. Engin venjuleg heimili geta geymt til lengdar möppur fullar af ljósritum sem börnin koma með heim úr skólanum. Margnota verkefni eru því umhverfisvænn og góður kostur.“ Kristín hefur kennt í Öskjuhlíðarskóla mestan hluta starfsferils síns. „Hér eru börn að fást við lestur frá 1. bekk og upp í 10. bekk,“ segir hún. „Fáir fljúga áfram og verða vel læsir, þeir nálgast þetta hægt og bítandi. Flestir nemendur fara að einhverju leyti með lestrargetu út úr skólanum sem nægir til að þeir geta bjargað sér í daglegu lífi. Við teljum það mikinn ávinning að þeir verði færir um að lesa á skilti, til dæmis „Lokað“ í búðarglugga eða „Er í kaffi“, og tekið á móti smáskilaboðum, sent afmæliskort og tölvupósta og eitthvað slíkt. Þau verða kannski ekki bókmenntalesendur í stórum stíl en sum ná því að lesa sér til ánægju.“ Stafabangsarnir Kristín segist hafa notað hlutbundnar aðferðir í lestrarkennslu að einhverju leyti frá fyrstu tíð. „Þetta þróast allt í höndunum á manni. Oft verður til hugmynd út frá þörfum einstaks barns sem gengur ekki vel. Þá verður maður einhvern veginn að reyna að ná í gegn. Til dæmis þetta hérna,“ heldur Kristín áfram og nær í plastaða pappabangsa, hvern með sinn staf á kviðnum og sín svipbrigði. Þeim fylgir rútubíll, sömuleiðis úr pappa og plastaður. „Þetta er mjög vinsælt kennslugagn, Stafabangsarnir. Ég var eitt sinn með nemanda sem gat lært eitt og eitt hljóð en gat ekki sett þau saman í ba eða bú. Svo ég bjó til þessa bangsa, raðaði þeim hverjum af öðrum upp í bíl og lét hann segja hljóðin um leið og þeir komu inn í bílinn. Þannig fattaði hann þessa tengingu. Svo var hægt að leika sér endalaust með bangsana og bílinn eftir því sem stafir bættust við. Við erum náttúrulega með fáa nem- endur í Öskjuhlíðarskóla og höfum því svigrúm til að mæta þeim. Það verður svo til þess að ýmsar hugmyndir kvikna sem geta nýst fleirum, ekki bara okkur hér og í kennslu okkar nemenda.“ Engin fræði – bara hagnýtt „Svo eru þetta líka svona flökkuhug- myndir,“ segir Kristín og hlær. „Ég labbaði mér einu sinni inn í næstu stofu og sá þá bangsana mína í allt annarri útfærslu og mjög skemmtilegri. Þá hafði kennarinn fundið bangsana mína einhvers staðar í drasli og þróaði öðruvísi bangsa út frá þeim og önnur vinnubrögð. Svo að þetta ferðast á milli enda einmitt þannig verkefni sem auðveldlega verða kveikjan að öðrum. Það er ekki stafkrókur í þessu efni sem er ekki byggður á minni reynslu og svo verkefnum mínum og samkennara minna. Það er ekki það að ég hafi ekki lesið hugmyndafræðina en mér finnst aðrar bækur skila henni. „Ég get lesið“ er fyrst og fremst hagnýt verkefnabók. Hún er gormuð sem gerir hana enn auðveldari í notkun, öll uppsetningin miðar að því að hún sé aðgengileg. Hver blaðsíða er sjálfstæð eining og ekki þarf að lesa heila kafla áður en hafist er handa.“ Kristín segist enn fremur vera að hugsa um að gefa út stafabangsana og önnur námsgögn samhliða bókinni, sem fólk geti þá keypt í pakka, en leggur áherslu á að lítill vandi sé að búa til eða safna þeim hlutum sem stuðst er við í lestrarkennslunni. Í formála bókarinnar segir meðal annars: „Á fyrstu þrepum skólagöngu verður stundum til hópur nemenda sem ekki nær tökum á lestri við hina hefðbundnu yfirferð. Skólabyrjendur eru misjafnlega staddir varðandi almennan þroska og sumir þeirra búa við skertan þroska á einu eða fleiri sviðum. Veikindi eða áföll á fyrstu námsárum geta orðið til þess að nemandi missir af hinum mikilvæga grunni og fyllist vanlíðan yfir vangetu sinni. Mikilvægt er að þessum hópi sé sinnt og að hann fái þann tíma sem þarf til að tileinka sér undirstöðuþætti lestrarnáms. Oft er hægt að komast framhjá andlegum hindrunum með því að nálgast viðfangsefnið í gegnum hlutbundnar æfingar og leik. Þegar kjarkurinn vex er síðan hægt að auka áhersluna á hefðbundnari verkefni.“ Lítið má út af bera Kristín og samkennarar hennar hafa farið í námsferðir til nokkurra landa; Ítalíu, Þýskalands, Austurríkis og Bretlands, og heimsótt marga skóla. „Við höfum alltaf komist að þeirri niðurstöðu að við stöndum ansi vel og þó margt sé vel gert erlendis er einnig víða pottur brotinn. Varðandi námsgögn þá eru það helst Bretar sem standa framarlega. Þeir nota kennslugögn á lifandi, skemmtilegan og óhefðbundinn hátt. Ég sá til að mynda mikið í þessum dúr á námsstefnunni Education Show en þá reyndar mun meira í stærðfræði en lestri. Ég hef líka séð að lestrarkennslu þar sem unnið er með hið sjónræna er verulega áfátt hérlendis, aðallega vegna þess að námsgögnin skortir. Þar sem ég þekki til í leikskólum, sem er nú reyndar ekki víða, er mest unnið með fjölrituð verkefni í skólahópum og gamaldags lestrarkennslu. Í grunnskólum fá börn tækifæri til að læra að lesa í sex mánuði, lestrarinnlögn er oft jafnvel lokið fyrir jól í fyrsta bekk. Ef barn fær flensu og er frá skóla í tvær eða þrjár vikur heltist það úr lestinni. Þá var kannski verið að leggja inn Þ, G, Y og K eða einhverja aðra stafi og barnið er búið að missa af því. Í Öskjuhlíðarskóla erum við að gera börn læs á sex árum en í almennum skólum á sex mánuðum.“ Kristín segir það eitt af markmiðum með útgáfu þessa námsefnis að færa þekkinguna í Öskjuhlíðarskóla út og sýna hvernig hægt er að kenna krökkum sem eru með skertan þroska að lesa í almennum grunnskólum. „Oft verður það þannig að annaðhvort er ofmat á getu barnsins eða vanmat. Barnið á að fylgja hinum nemendunum eftir eða það er haft einhvers staðar að lita og púsla með konu úti í horni. Oft er þessum nemendum ekki mætt þar sem þau geta – það eru náttúrulega miklir fordómar að segja svona en þetta gerist þegar þekkingin er ekki til staðar um hvað er hægt að kenna svona krökkum og aðstaðan jafnvel ekki heldur. Ef á annað borð er hægt að kenna börnum að lesa, til dæmis með þeim aðferðum sem við notum hér, þá er sorglegt að það sé gefist upp af því að þau náðu ekki innlögninni þegar þau voru sex ára.“ keg „Ég get lesið“ er væntanlegt í lok september. Oft er hægt að komast framhjá andlegum hindrunum með því að nálgast viðfangsefnið í gegnum hlutbundnar æfingar og leik. Þegar kjarkurinn vex er síðan hægt að auka áhersluna á hefðbundnari verkefni. ÉG GET LESIÐ

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.