Skólavarðan - 01.12.2007, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.12.2007, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 7. ÁRG. 2007 Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Aðalheiður Steingrímsdóttir Formaður FF Kennarar eru ekki ánægðir með nýja framhaldsskóla- frumvarpið. Það er í vissum skilningi afurð tíu punkta sam- komulagsins en ljóst að ekki hefur verið hlustað á kennara nema að litlu leyti við samningu þess. Í inngangi greinargerðar með frumvarpinu segir að leitast hafi verið við að taka ríkt tillit til tillagna nefnda sem störfuðu á grundvelli samkomulagsins. Þessi fullyrðing stenst ekki. Frum- varpið er ekki afrakstur lýðræðislegs samstarfs heldur fyrst og fremst verk embættismanna menntamálaráðherra. Á lokafundi höfnuðu fulltrúar kennara í nefnd um endurskoðun laga um framhaldsskóla að taka þátt í afgreiðslu frumvarpsins til menntamálaráðaherra því engin sátt ríkti um það í veigamiklum atriðum. Hér eru reifaðar helstu efnislegar ástæður þessa. • Frumvarpið gengur of skammt til að koma til móts við tillögur nefnda um nám og námskipan í framhaldsskólum, réttarstöðu nemenda og jafnrétti til náms. Mikilvægar tillögur eru mjög óskýrar, til dæmis um rétt nemenda til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt, ein- staklingsmiðað framhaldsskólapróf, að nemendur fái námstilboð við hæfi og um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs sem tryggi rétt 16-18 ára ungmenna til náms. Stjórnvöld axla ekki sjálf auknar lagaskyldur á námsvist og skólagöngu nemenda heldur er ætlast til að skólar og ráðuneyti semji um þessi mál. • Í frumvarpinu eru ekki tillögur um betri tengsl aðliggjandi skólastiga þrátt fyrir fullyrðingar um að frumvarpið miði að auknum sveigjanleika og meiri möguleikum nemenda til að fara á milli þeirra. • Náms- og starfsráðgjöf fær ekki það vægi sem lagt var til. Frumvarpshöfundar sniðganga helstu tillögur nefndar um fjar- og dreifnám svo sem um gæðamál, gjaldtöku og réttindi nemenda. Frumvarpið tryggir ólögráða nemendum ekki gjaldfrjálsa skólagöngu. Í raun boðar frumvarpið fáar umbætur á réttarstöðu nemenda og jafnrétti til náms miðað við ákvæði gildandi laga. • Markmið frumvarpshöfunda um að íslenskt stúdentspróf verði áfram almennt og víðfeðmt og veiti góðan undir- búning fyrir frekara nám eru góð út af fyrir sig. En ekki verður ráðið af efni frumvarpsins hvort enn lifa fyrri áform stjórnvalda um að stytta og skerða námið, vegna þess að einingafjöldi er ekki tilgreindur. • Embættismenn menntamálaráðaherra í nefndinni kynntu KÍ hugmyndir um að taka upp ECTS-einingakerfi um miðjan ágúst á þessu ári. KÍ átelur mjög þau vinnubrögð að leggja fram hugmyndir um að gerbreyta einingakerfi framhaldsskóla svona seint í endurskoðunarferlinu. Endur- skoðun einingakerfis er ekki einfalt verkefni. Það felst ekki í því að leggja eitt kerfi niður og taka annað upp í staðinn. Ef samstaða næst um endurskoðun þess verður að vinna að breytingum að eig sér stað á faglegum forsendum en ekki kerfislegum. • KÍ tekur undir minni miðstýringu í námi og námsframboði og aukna ábyrgð skóla á uppbyggingu þessa. En þessi atriði eru mjög óljós þegar kemur að skyldum stjórnvalda, réttindum nemenda, starfsaðstæðum þeirra og kennara. • Stefna frumvarpsins um hvaða námi nemandinn á rétt á þarf að vera mjög skýr. Svo er ekki. Einnig verður að vera alveg skýrt að framhaldsskólar hafi með nýjum lögum jafn góða aðstöðu til að bjóða nemendum upp á jafngilt og sambærilegt nám og nú. Það merkir að fjárhagsrammi framhaldsskóla sem nú miðast við fjögurra ára 140 eininga nám verði ekki þrengdur miðað við sama nemendafjölda. Jafnmiklu og helst meira fé verði varið til að koma nemendum til manns í framhaldsskólum, fleiri en áður nái skilgreindum námslokum og eðlileg kostnaðaraukning verði greidd með nýju fé og hækkuðum framlögum. • Verkefnið liggur ljóst fyrir: Alþingi verður að tryggja að ný lög um framhaldsskóla skili ekki nemendum lakara námi en þeir hafa stundað hingað til. Aðalheiður Steingrímsdóttir. Mikil óánægja með framhaldsskólafrumvarpið

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.