Skólavarðan - 01.12.2007, Blaðsíða 14

Skólavarðan - 01.12.2007, Blaðsíða 14
14 SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 7. ÁRG. 2007 færa mér heim sanninn um að við getum ekki nema í einhverjum upphrópunarstíl rætt um innihald könnunarinnar hér undir liðnum um störf þingsins. Ég legg því til að menntamálanefnd fái sérfræðinga á sinn fund eftir jól þegar sérfræðingarnir okkar eru búnir að fá tækifæri til að rýna í könnunina og þá fáum við að vita hvert innihald hennar er í raun og veru.“ Síðar sagði Kolbrún: „Það er mjög mikilvægt að allar rannsóknir sem fara fram í menntamálum fái umfjöllun í rannsókna- samfélaginu í skólasamfélaginu okkar og síðan þurfum við að finna aðferðir til að tengja þær við skólasamfélagið, við vettvanginn, þannig að þær rannsóknir sem gerðar eru skili sér og nýtist til þess að gera gott menntakerfi betra.“ Einar Már Sigurðarson Þá talaði Einar Már Sigurðarson og hann kom meðal annars inn á mál sem hlýtur að skipta sköpum í allri umræðu um menntun en ekki hafði verið minnst á áður, líðan nemenda: „Það liggur alveg ljóst fyrir og það vita allir sem komið hafa nálægt skólamálum að ein svona könnun, alveg nákvæmlega eins og eitt einstakt próf, er ekki mælistika á heilt skólakerfi. Því fer víðs fjarri. Könnun þessi mælir bara ákveðna þætti og við verðum að velta fyrir okkur hvernig stendur á því að við komum ekki betur út, en við verðum líka að hafa í huga að það er margt fleira í skólakerfinu sem skiptir máli. Við skulum ekki gleyma t.d. líðan barnanna sem er líklega úrslitaatriði um það hver árangurinn verður í heild sinni. Það er um það sem þetta snýst númer eitt, tvö og þrjú og aðstæður barn- anna í skólakerfinu.“ Einar Már hvatti folk til að fella ekki sleggjudóma en fara vel yfir mál og skoða þau í samhengi við menntafrumvörp menntamálaráðherra. Ragnheiður Elín Árnadóttir Í lokin kom Ragnheiður E. Árnadóttir í pontu og ásamt því að tala fyrir auknu valfrelsi og meiri samkeppni lét hún ekki hjá líða að ræða hversu fjárskortur væri ekki rótin að vandanum „vegna þess að þeir einu sem verja meira til þessa málaflokks en við, Norðmenn, koma meira að segja verr út en við.“ Umfjöllun alþingismanna, bæði stjórnar- liða og stjórnarandstöðu, er að mörgu leyti málefnaleg og kannski fannst fólki ekki tilefni til að æsa sig út af jafnléttvægu efni og einni könnun utan úr heimi. Hins vegar má greina mjög sterkar flokksbundnar áherslur eins og þegar er nefnt varðandi tengingu fjármagns og skólastarfs. Þessi tenging er mjög varhugaverð og hætt við að hún sé sett fram án þess að hlutirnir séu skoðaðir í samhengi, alveg eins og PISA könnunin er gagnrýnd fyrir, auk þess sem tengingin er pólitísk yfirlýsing annars af stjórnarflokkunum um áhuga á niðurskurði til menntamála: Við skulum setja minni peninga í skólakerfið svo það verði betra, er í raun það sem menn eru að ýja að. Er þetta trúverðugur málflutningur? Spyr sá sem ekki veit. keg NOKKUR HELSTU ATRIÐI SEM KÍ HEFUR BENT Á TIL UMHUGSUNAR UM PISA: • Röð landa er ekki jafn mikilvægur mælikvarði og af er látið. Mikilvægt að nota Pisa til að skoða það sem Pisa mælir en ekki eitthvað annað. • Á vettvangi samtaka kennara hérlendis og erlendis (KÍ, NLS, EI og ETUCE) er rætt um mislestur, mistúlkun og oftúlkun stjórnmálamanna og fjölmiðla á niðurstöðum. Þetta leiðir til rangra ályktana sem aftur geta leitt til rangra og vanhugsaðra framkvæmda. Niðurstöður Pisa gefa til dæmis ekki tilefni til að bera saman og segja kost og löst á menntakerfum landanna, gæðum og inntaki menntunar og skólastarfs eða fagmennsku í skólum. • Efling kennara- og símenntunar, bætt kjör og skilyrði nemenda og kennara í starfi, betri námsgögn, meiri virðing fyrir skólastarfi og aðgerðir til að leiðrétta strax laun og starfskjör er meðal þess sem almenn sátt virðist um að máli skipti til að bæta nám og námsárangur. • Pisa er ekki áfellisdómur yfir skólastarfi og framgöngu kennara í starfi – hvað þá yfir íslensku menntakerfi – en margt má bæta og sérstaklega þó hlúa betur að nemendum og kennurum í starfi. • Spyrja má með samanburði við lista yfir aðgerðir danskra yfirvalda í fram- haldi af Pisa 2003 (dlf.org) hvernig sambærilegur listi liti út ef mennta- málaráðuneytið væri krafið svara. Lítið íslenskt dæmi: Smánarleg framlög til símenntunar kennara og alls ónógt fjármagn til námsefnisgerðar. Ennfremur má benda á að frumvarp um lengda kennaramenntun hefði auðveldlega mátt samþykkja á Alþingi fyrir heilu ári síðan auk þess sem lengt kennaranám í KHÍ var tilbúið fyrir bráðum áratug en var slegið af. • Gagnrýnivert að slá fram fullyrðingum um mikinn kostnað af skólahaldi á Íslandi og bera saman við árangur Íslands í Pisa. Nauðsynlegt að sundurgreina kostnað og taka fram óhagkvæmni í rekstri skóla vegna dreifðrar byggðar og fámennis, lágan meðalaldur Íslendinga og slaka stöðu Íslands meðal OECD landa varðandi laun kennara sem hlutfall af þjóðarframleiðslu (umreiknað í kaupmáttardollara/ppp). Við eigum ekki að sætta okkur við neitt miðjumoð, hvorki á þessu sviði né öðrum. En við megum ekki gleyma því … að við eigum þrátt fyrir allt gott skólakerfi, við eigum góða kennara og krakkarnir okkar eru bráðefnilegir. Við skulum ekki gleyma t.d. líðan barnanna sem er líklega úrslitaatriði um það hver árangurinn verður í heild sinni. Það er um það sem þetta snýst númer eitt, tvö og þrjú og aðstæður barnanna í skólakerfinu. ÍSLENSK MENNTUN, MENNTASTEFNA OG -FRAMKVÆMD

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.