Skólavarðan - 01.03.2009, Blaðsíða 3
3
FORMANNSPISTILL
Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa
formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag
framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara
(FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT),
Skólastjórafélag Íslands (SÍ).
Ný lög um menntamál og erfiðar
aðstæður á Íslandi
SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 9. ÁRG. 2009
Enn hafa aðstæður í þjóðfélaginu breyst verulega frá því að ég
sendi Skólavörðunni nokkrar línur síðast. Nú hrærumst við í nýju
lagaumhverfi. Ekki eru allir sammála um ágæti nýju laganna,
kennarar hefðu vafalaust kosið að meira tillit væri tekið til umsagnar
Kennarasambandsins um lagafrumvarpið. Sumir segja þó að sjaldan
hafi jafn mikið fé verið ætlað í undirbúning að framkvæmd nýrra
laga og nú er því ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum
og nýta nýja möguleika menntun í landinu til framdráttar. Nokkrir
framhaldsskólar hafa þegar hafið vinnu að breytingum í sínum
ranni. Frá hendi ráðuneytis menntamála er mælst til að vinnan
geti nýst á milli skóla þannig að ekki sé unnið í öllum skólum að
sömu málunum, mismunandi uppbygging og námsframboð hlýtur
jú að kalla á mismunandi lausnir. Nokkur verkaskipting hlýtur þó
að nýtast vel og auðvelda nauðsynlega samræmingu á milli skóla.
Þessa dagana er svo námskeið í gangi sem hjálpar fólki að opna
augun fyrir möguleikum breyttrar hugsunar. Þeir þátttakendur sem
ég hef heyrt í bera lof á námskeiðið og vænta mikils af þeirri nýju
hugsun sem þar er kynnt og leiðbeint við að framkvæma. Aðstæður
í umhverfi okkar hafa væntanlega ekki áhrif á efnislegar breytingar
sem nýju lögin kalla á. Hugsanlega hafa þær þó einhver áhrif á
tímasetningar breytinga.
Í lok janúar síðastliðins sótti ég mjög áhugaverða ráðstefnu
hagsmunasamtaka í málm- og véltækniiðnaði um stöðu hans
og tækifæri í framtíðinni. Það fyrsta sem vakti athyglina var nafn
ráðstefnunnar: „Björt framtíð málm- og véltækniiðnaðar á Íslandi
ef ...“
Fyrst var litið til baka, á þróunina nokkuð aftur á síðustu öld.
Samkeppnishæfni var eitt hugtakið en íslenskir iðnaðarmenn
hafa gjarnan talist eftirsóttir starfskraftar. Á sumum sviðum hefur
íslenskum iðnfyrirtækjum í málm- og véltæknigeiranum líka tekist
að hasla sér völl erlendis, jafnvel í fjarlægum heimsálfum.
Staða okkar hefur þó á sumum sviðum átt mjög undir högg
að sækja og samkeppnishæfni okkar telst hafa hrakað. Þar er því
miður ekki aðeins um að kenna ódýrara vinnuafli annars staðar
frá. Alþjóðlegar menntunar- og gæðakröfur gera okkur erfitt fyrir
á sumum sviðum. Rifjum aðeins upp heiti ráðstefnunnar: „Björt
framtíð ... á Íslandi ef ...“. Framsögumenn töluðu um stöðuna og
voru allir sannfærðir um að framtíðin er björt. Talið snerist reyndar
talsvert um þetta „ef“ í enda ráðstefnuheitisins. „Tækifærin blasa
við,“ sögðu menn. Það þarf þó að vinna að því að eyða „ef“-inu.
Hvað þarf til? Ekkert iðnvætt þjóðfélag kemst af án vel menntaðra
iðnaðarmanna. Eitt það fyrsta sem nefnt var er það sem ótal
framámenn hafa einnig talað um á tyllidögum og jafnvel nefnt sem
eitt af brýnustu verkefnum í íslenskum skólum: Að stórefla iðn- og
tæknimenntun. Fyrirtækin sárvantar fleiri góða iðnaðarmenn. Iðn- og
starfsmenntun þarf að verða meira aðlaðandi fyrir konur. Menn sjá
sóknarfærin um allt, ný lög um menntamál opna ótal nýjar dyr. Auka
þarf fjölbreytni í námsframboði. Fyrirtækin þurfa að vera virkari í
samvinnu við skólana. Efla þarf kynningarstarf allra hagsmunaaðila
meðal ungmenna. Iðnaðarstörf eru ekki lengur sama eðlis og fyrir
fáeinum áratugum, tæki og aðbúnaður hafa stórbatnað. Mörg störf
sem áður voru óhreinleg eru nú unnin í hvítum sloppum í dag.
Möguleikar á framhaldsmenntun hafa farið sívaxandi. Þar opna ný
lög enn nýjar dyr. Já, það voru engar kvartanir eða barlóm að heyra
hjá málm- og véltæknimönnum. Ég játa að ég er sjálfur sprottinn úr
þeim geira og langar því að koma þessum málum á framfæri. Ég
ítreka að tækifærin eru handan við hornið. Það sem fyrst og fremst
þarf að gera er það sama og ætíð er talað um þegar þrengir að í
efnahag þjóðarinnar: Að efla og efla og efla menntun.
Ég óska þess að okkur Íslendingum auðnist að nýta okkur
möguleika nýrra laga fyrir menntastofnanir við að vinna okkur í
gegnum erfiðleikana sem að okkur steðja.
Guðmundur Guðlaugsson
formaður FS.
Guðmundur Guðlaugsson
formaður FS.
Lj
ós
m
yn
d
f
rá
h
öf
un
d
i