Skólavarðan - 01.03.2009, Blaðsíða 15
15
ÁRSFUNdIR
SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 9. ÁRG. 2009
HæTTAN: AÐ VIÐ FESTUMST Í DOÐA!
Ef við tökum strax á vandanum og ef okkur tekst að skapa traust
á íslensku efnahagslífi þá getum við farið að sjá til lands um eða
upp úr 2011. Annars er hætt við að hagkerfið festist í doða. Þetta
sagði Ólafur Darri Andrason í erindi sem umsvifalaust feykti
öllum fundarmönnum upp úr doða hafi þeir á annað borð verið í
honum. „Þetta er gríðarlegt samdráttarskeið,“ sagði Ólafur Darri.
„Samdrátturinn var mikill 1968-69 og við þurfum að fara þangað til
að finna eitthvað viðlíka og nú. En samdráttarskeiðið sem við erum
rétt að byrja að sigla inn í verður meira en frá stofnun lýðveldis.“ Að
sögn Ólafs Darra gæti orðið verðhjöðnun 2010 sem væri vissulega
gott fyrir skuldara en endurspeglaði jafnframt mjög erfitt hagkerfi.
Líklega færum við að að verja álíka miklu fé í atvinnuleysistryggingar
og í allt framhaldsskólakerfið, eða um átján milljörðum. „Við verðum
að minnka hallann um 50 milljarða árið 2010 og um 30 milljarða
2011, annars verða vaxtagreiðslur ríkisins óviðráðanlegar,“ sagði
Ólafur Darri. Að hans sögn er óumflýjanlegt að stóru kerfin þrjú,
sem Ágúst nefndi útgjaldaturnana í erindi sínu, verði fyrir barðinu á
kreppunni. „Það verður lægra þjónustustig í öllum þessum kerfum
og skattar hækka, en við verðum líka að dreifa byrðum réttlátlega.
Þeir sem hafa vinnu verða að taka meira á sig, það er að segja
taka frekar á sig kaupmáttarskerðingu en að auka atvinnuleysi.
Við eigum ekki að sleppa því að taka á vandamálunum því þótt
hörmungarnar séu ekki okkur að kenna þá skaðar slík afstaða okkur
og börnin okkar.“
„Við verðum að tryggja að allir hafi aðgang að menntun,“ sagði
Ólafur Darri jafnframt. „Það er varnarbarátta framundan og við getum
búist við minni stoðþjónustu í skólum, stærri námshópum og fleiru.
Það verður að auka sveigjanleika í skólastarfi en vera um leið vakandi
fyrir því að ef girðingar eru teknar úr kjarasamningum auðveldar
það ríkinu að gera ýmislegt óásættanlegt. Kennarasambandið á að
láta sig efnahags- og atvinnumál varða og það er skynsamlegt af KÍ
að taka þátt í samflotinu.“
Ólafur Darri nefndi jafnframt mikilvægi þess að rannsaka banka-
hrunið. „Þetta þarf að vera lærdómur og uppgjör. Við eigum að krefjast
skýlausrar,viðamikillar og vandaðrar rannsóknar á bankahruninu.
Við eigum að krefjast þess að þeir sem bera siðferðilega, pólitíska
og lagalega ábyrgð axli hana. Ekki bara horfa á lagalega þáttinn.
Já, árið 2007 var indælt ár. En viljum við fá það aftur? Nei. Því
ef við gerum það þá lendum við bara aftur í sömu vitleysunni. Því
miður er ekki hægt að fara í gegnum þessar þrengingar án þess að
almenningur finni verulega fyrir því. En munum þetta: Við eigum
þrjár gífurlegar auðlindir: Orkuna í fallvötnum og í jörðinni, fiskinn í
sjónum og mannauðinn.“
Ólafur Darri Andrason
Já, árið 2007 var indælt ár.
En viljum við fá það aftur? Nei.
Elna Katrín Jónsdóttir varaformaður KÍ og formaður skólamálaráðs
setti saman innihaldsríka dagskrá eftir hádegi 13. mars (á ársfundi
skólamálaráðs) og einbeiting fundargesta leynir sér ekki.