Skólavarðan


Skólavarðan - 01.03.2001, Síða 4

Skólavarðan - 01.03.2001, Síða 4
Umræðan 5 Auður Torfadóttir: Svar mitt við þessari spurningu er jákvætt. Ég byggi þessa skoðun m.a. á því sem ég hef kynnt mér af því sem hefur verið rann- sakað og ritað um það hvenær heppilegast er talið að börn hefji nám í erlendum tungumálum og hvernig sé æskilegast að haga kennslunni. Þó er sá fyrirvari á skoðun minni að rétt sé að málum staðið. Taka verður tillit til aldurs og þroska barna þegar kennslan er skipulögð og sjá til þess að aðferðir séu við hæfi. Börn þurfa að fá að læra tungumál á sínum eigin forsendum, gegnum leiki, athafnir, söngva, myndefni, hlustunar- efni og skapandi starf af ýmsum toga. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um gildi þess að hefja tungumálanám á unga aldri og engar rannsóknir hafa sýnt fram á afgerandi niðurstöður til eða frá eftir því sem ég best veit. Þeir sem aðhyllast að byrjað sé snemma, og þeir virðast vera fleiri, færa rök fyrir því að börn séu sérstaklega móttækileg og næm fyrir því að tileinka sér ný tungu- mál; þau séu áhugasöm, ófeimin, forvitin og opin fyrir því að taka þátt í alls kyns at- höfnum. Þeir benda á að hjá börnum verði málanám ómeðvitaðra en hjá þeim sem eldri eru og þar með eðlilegra. Þeir hinir sömu benda á að þegar komið sé fram á unglingsár hafi margir þessir eiginleikar glatast og í staðinn hafi sjálfsvitund aukist og einstaklingar séu viðkvæmir fyrir því að gera mistök, feimnir og upplifi ýmsar hömlur. Efasemdamenn benda hins vegar á að unglingar og fullorðnir hafi margt til að bera umfram börn þegar að tungumálanámi kemur. Þeir nefna meiri vitsmunaþroska, betri skilning á því hvernig við lærum, betri tök á námi og telja að allt þetta flýti fyrir og geri það að verkum að tungumálanám gangi hraðar og markvissar fyrir sig. Hér á landi og víðar hafa menn haft af því nokkrar áhyggjur að tungumálanám á unga aldri hafi truflandi áhrif á móðurmál. Sjálfsagt eru til einstaklingar sem þetta á við um. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á að nám í erlendu máli styrki al- menna málvitund barna, þannig að bæði móðurmál og erlent mál njóti góðs af. Alls staðar í nágrannalöndum okkar er tungumálakennsla hafin fyrr og sums staðar er hún komin niður í sex ára bekk. Ég hef ekki fengið viðhlítandi svör við því hvers vegna sú ákvörðun var tekin að hefja ensku- kennslu hér á landi við tíu ára aldur. Ég hefði talið skynsamlegra að byrja við átta ára aldur og þar með hefði fengist rúm til að hefja kennslu í öðrum tungumálum fyrr en nú er gert. Ef rétt er að verki staðið er tungumál mjög þroskandi fyrir einstakling. Æskilegt er að gefa börnum sem fyrst tækifæri til að læra erlent mál sér til gagns og ánægju. Það auðgar nám þeirra, víkkar sjóndeildarhring- inn, gefur innsýn í menningu annarra landa og getur lagt grunn að auknum skilningi og umburðarlyndi gagnvart öðrum þjóðum. Valgerður Eiríksdóttir: Við upphaf síðasta skólaárs kom til fram- kvæmda sú breyting menntamálayfirvalda að gera ensku að fyrsta erlenda tungumáli sem nemendur í íslenskum grunnskólum læra, í stað dönsku áður. Um leið var sú ákvörðun tekin að láta námið hefjast fyrr. Samkvæmt því hefst enskukennsla í fimmta bekk en dönskukennsla í sjöunda bekk í stað sjötta bekkjar áður. Í kjölfar breyting- arinnar fór af stað mikil umræða um rétt- mæti hennar og sýndist sitt hverjum. Mörgum fannst vegið að dönskunni, sum- um að verið væri að gera enskunni of hátt undir höfði og enn öðrum fannst ekki tíma- bært að hefja nám í erlendu tungumáli svona snemma, þar sem nemendur væru enn að glíma við að ná tökum á sínu eigin móðurmáli. Ég tel þessa breytingu af hinu góða og hún sýnir mér að hér er brugðist við vissu ástandi í málumhverfi okkar. Allir vita að áhrif enskrar tungu eru sterk á Íslandi og ná til ólíkra hópa manna. Börn eru þar ekki undanskilin. Þau eru virkir neytendur í gegnum sjónvarp og efni tengt tölvum, svo sem leiki og internet. Um það hefur heldur aldrei verið deilt að þörf Íslendinga til að læra erlend tungumál er mikil og hefur aldrei verið meiri en nú þegar þjóðin er komin mitt í hringiðu upp- lýsingaþjóðfélagsins. Öðru hverju heyrast raddir um að færa eigi tungumálakennslu enn neðar, jafnvel að upphafi skólagöngu. Af hverju ekki? Margar kenningar eru á lofti um að því yngri sem nemendur eru, því móttækilegri séu þeir fyrir námi, m.a. málanámi. Ég tel það ótvíræðan kost að nýta þessa hæfileika barna séu þeir fyrir hendi og hvet skólayfir- völd til að kynna sér málið. Til að gera svo róttæka breytingu þarf að huga að fram- kvæmd hennar í tíma. Líta þarf til mennt- unar þeirra kennara sem tækju að sér þessa kennslu og gera til þess strangar kröfur að þeir hafi nægjanlega góð tök á tungumálinu og ferskar hugmyndir um uppbyggingu námsins. Kennarar þurfa að eiga greiðan aðgang að námskeiðum þar sem fjallað er sérstaklega um byrjendakennslu, en víða um hinn enskumælandi heim er boðið upp á slík námskeið. Þar er áhersla lögð á óhefðbundnar leiðir í gegnum tal, leiki og söngva, enda engin leið að reikna með lestri og ritun fyrstu árin. Þá þarf einnig að skapa sveigjanleika í stundaskrá nemenda, en ég sé fyrir mér að 15-20 mínútur á dag sé hæfilegur skammtur fyrir unga byrjendur. Ég er ekki í minnsta vafa um að auðvelt er að vekja áhuga barna á efninu ef rétt er á málum haldið. Reynsla mín af kennslu í fimmta bekk lofar góðu og það er sérlega gaman að sjá hve nemendur taka virkan þátt og koma oft skemmtilega á óvart með eigin frumkvæði. Ég tel það skyldu grunnskólans að leggja góðan grunn að tungumálanámi Íslendinga og metnað í að gera sem flesta færa um að tjá sig á erlendum málum. Margir eru þeirrar skoðunar að tungumálakennsla hefjist of seint á skólaferlinum. Á evrópsku tungu- málaári er við hæfi að leita svara við þessari spurningu og Skólavarðan fékk til liðs við sig þær Auði Torfa- dóttur, dósent í ensku við Kennara- háskóla Íslands og Valgerði Eiríks- dóttur, kennara við Fellaskóla í þessu skyni. Á að byrja fyrr að kenna börnum erlend tungumál?

x

Skólavarðan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.