Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 38
38
Breytum steinum í brauð. Það var ellefta boðorðið. Og svo mjög ærðust hinir
óstöðugu að ekki heyrðust orðaskil úr Guðs munni um samúð og kærleika og
umburðarlyndi. Hvað þá að maður ætti að elska náunga sinn.
Í árþúsundir hafa trúarbrögðin, heimspekin og siðfræðin reynt að beisla hið illa með
okkur og virkja hið góða. Þetta er eilífðarverk mannsins. Andvaraleysið er slæmt og
ekki hjálpar þegar komið hefur bein hvatning um að virkja þær tilfinningar og hvatir
sem við almennt teljum slæmar, ágirndina og eigingirnina.
Best vegnar samfélögum sem eru í góðu jafnvægi, þar sem mannréttindi eru í
hávegum höfð, gagnkvæm virðing manna á milli, stofnanir þykja traustsins verðar,
réttarkerfið nýtur virðingar og síðast en ekki síst siðleg gildi eru í hávegum höfð.
Sagan kennir að mikilvæg gildi fá þrifist án stofnanalegrar umgjarðar. Kristur barðist
við stofnanaveldi sinnar samtíðar. Hann skilgreindi sig aldrei í ljósi eigna eða
veraldlegra gæða. Þau gildi sem hann boðaði eru grundvöllur siðferðis kristinna
manna í fjölbreyttum söfnuðum víða um heim.
Stofnanir samfélagsins eiga allt sitt undir sátt í samfélaginu. Styrkur þeirra byggist á
samkennd og sameiginlegri siðferðisvitund. Það gildir um Alþingi, um dómstóla um
viðskipti hvers konar og það gildir líka um kirkjuna. Og þegar sáttin týnist og
siðferðið glatast, riða allar stofnanir til falls. Þegar köllin glymja: Breytið steinum í
brauð, svo allir ærast af hávaða, þá bresta hin þykkustu tré. Fáir heyra í þeim sem
segir: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman.
En nú eru nýir tímar að ganga í garð. Átrúnaðurinn á græðgina og gullgerðaræðið er í
rénun. Nú geta þær stofnanir samfélagsins sem standa á góðu siðferði og gildum,
byggt sig upp að nýju og orðið hver annarri styrkur.
Einhver sagðist vera algerlega á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Það væri meira en
nóg að hafa eina stofnun sem reyndi að hafa vit fyrir manni. En þær eru ólíkar þessar
stofnanir, ríkið og kirkjan. Þjóðkirkjan er þó betur sett að því leyti að enginn kemur
þangað nauðbeygður. Ekki er hægt að segja sig undan ríkinu. Ekki er hægt að segja
sig úr þjóðfélaginu.
Allar stofnanir þjóðfélagsins eiga undir högg að sækja. Allar stoðir okkar litla
samfélags eru í vanda. Verkefni okkar sem störfum í framvarðarsveit stofnana
samfélagsins er að endurvinna traust. En það er ekki sama hvernig það er gert.
Verkefni okkar er ekki að endurbyggja gömlu húsin eftir gömlu teikningunum.
Verkefnið er að finna gallana, endurhugsa alla hluti, efast um allt og vanda til
uppbyggingar. Við viljum koma sterkari út úr kreppunni en við fórum inn í hana.
Því kreppan var siðferðiskreppa. Og kreppan er enn siðferðiskreppa. Og því er horft
til kirkjunnar. En þar starfa líka menn en ekki dýrlingar. Menn sem eru fullir af efa en
líka trú. Og þar er líka að finna von og þar er líka að finna kærleika. Og kannski
verðum við öll, hvar sem við störfum, að endurbyggja samfélagið með kærleika.
Þegar allt um þrýtur og hvorki finnast steinar né brauð, er kærleikurinn það eina sem
eftir er. Samúð, samhugurinn, samfélagið.