Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 54
54
4. gr.
Þagnarskylda samkvæmt 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna
ríkisins, sbr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvílir á nefndarmönnum
um þær upplýsingar sem nefndinni berast og leynt eiga að fara.
5. gr.
Rannsóknarnefndin tekur ákvörðun um hvernig haga skuli rannsókninni, þar á meðal
um nánari afmörkun rannsóknarefnisins. Formaður stýrir fundum nefndarinnar sem
skulu vera lokaðir. Halda skal fundargerð um það sem fram fer á fundunum. Nefndin
getur ákveðið að hluti nefndarmanna komi fram fyrir hönd nefndarinnar á fundum eða
við skýrslutökur af þeim sem nefndin ræðir við. Þá getur nefndin leitað sér aðstoðar
við rannsóknina. Við ákvarðanir nefndarinnar um framkvæmd rannsóknarinnar ræður
afl atkvæða úrslitum mála. Verði ágreiningur um einstök atriði í niðurstöðum nefndar-
innar geta einstakir nefndarmenn gert sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni í bókun.
Þurfi rannsóknarnefndin atbeina kirkjustjórnar eða úrlausnar við um tiltekin efni er
tengjast störfum hennar og rannsóknarefninu leysir forsætisnefnd kirkjuþings úr því
eftir því sem frekast er kostur.
Kostnaður við starf rannsóknarnefndarinnar greiðist úr kirkjumálasjóði.
6. gr.
Að gagnaöflun lokinni gerir rannsóknarnefndin þeim sem ætla má að orðið hafi á
mistök eða hafi orðið uppvís að vanrækslu í starfi eða vísvitandi þöggun eða tilraun til
þöggunar vegna ásakana um kynferðisbrot af hálfu Ólafs Skúlasonar biskups skriflega
grein fyrir afstöðu sinni um þau atriði sem varða þátt hans í málinu og nefndin íhugar
að fjalla um í skýrslu til kirkjuþings. Nefndin veitir viðkomandi hæfilegan frest til að
gera skriflega athugasemd við þessi atriði.
Í skýrslu nefndarinnar skal gera efnislega grein fyrir andmælum samkvæmt 1. mgr.
7. gr.
Rannsóknarnefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila rökstuddum
niðurstöðum sínum til kirkjuþings eigi síðar en 1. júní 2011. Telji nefndin þörf á
frekari fresti til að skila niðurstöðum sínum skal beiðni þess efnis borin undir
forsætisnefnd kirkjuþings.
Rannsóknarnefndin skal afhenda forsætisnefnd niðurstöður sínar sem við þeim tekur í
umboði kirkjuþings. Þá skal rannsóknarnefndin jafnframt kynna niðurstöður sínar
opinberlega.
8. gr.
Starfsreglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 78/1997 um
stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
Að tillögu forsætisnefndar voru eftirtalin kjörin í rannsóknarnefndina:
Róbert R. Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, formaður,
dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur,
Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness.