Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 97
97
Inngangur
Tilgangur
Með heildarskipan þjónustu þjóðkirkjunnar er verið að setja fram í einu skjali hvernig
þjóðkirkjan hyggst ná því meginmarkmiði sem kirkjan er kölluð til, sem er að boða
fagnaðarerindið í orði og verki. Þar er að finna þá grunnþætti þjónustunnar sem eiga
að vera til staðar í hverri sókn og sóknarbarn og aðrir sem vilja sækja til kirkjunnar
geta vænst. Þjónustuþættirnir eru skilgreindir og greint frá því skipulagi er ríkir innan
kirkjunnar til að halda utan um þjónustuna. Gerð er grein fyrir þeim guðfræðilegu
forsendum er liggja til grundvallar hverjum þætti, svo og lagalegum forsendum ef þær
eiga við. Hér má lesa hver þessi meginverkefni kirkjunnar eru, helstu starfseiningar
hennar, hvernig og hvar ákvarðanir eru teknar.
Heildarskipanin hefur jafnframt þann tilgang að styrkja einingu kirkjunnar og
samfélag þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni, milli sókna, prestakalla, prófastsdæma og
kirkjunnar allrar, svo og einingu kirkjunnar um allan heim. Þjónusta íslensku
þjóðkirkjunnar byggir á sameiginlegum játningum lúterskra kirkna, um leið og hún
tekur mið af íslenskum aðstæðum og hefðbundnu starfi þjóðkirkjunnar hér á landi.
Heildarskipanina verður að endurmeta reglubundið til að hún geti sem best sinnt
meginhlutverki sínu í ljósi aðstæðna og breytinga í samfélaginu.
Takmörk
Heildarskipanin á sín takmörk og getur ekki dregið upp heildstæða mynd af öllu lífi
og starfi kirkjunnar. Engu að síður er hér reynt að ná utan um meginþættina í starfi og
köllun kirkjunnar. Skipanin nær fyrst og fremst til meginþáttanna, án þess að útfæra í
smáatriðum það sem starfseiningum og embættum kirkjunnar er falið að annast.
Þannig fæst nokkuð glöggt yfirlit yfir starfsemi þjóðkirkjunnar sem einnar af
stofnunum samfélagsins.
Í upphafi hvers kafla er guðfræðilegur inngangur að einstaka þáttum í starfseminni.
Upphafsorðin eru ekki tæmandi um trú, játningu og kenningu kirkjunnar. Önnur rit,
játningar og samþykktir kirkjunnar skýra þau atriði nánar. Þau játningarit eru
grundvöllur aðfaraorðanna og ber að leita þar ítarlegri skýringa og túlkunar ef svo ber
undir. Aðfaraorðin eiga að gefa tóninn um það sem á eftir fer og eru viðmið sem
mestu skiptir að hafa í huga þegar skipulag kirkjunnar er til umfjöllunar, og fundinn er
farvegur fyrir þau orð. Hið sama á við þegar rætt er um hvar ákvarðanir skuli teknar
og hvaða embætti, stofnanir eða störf þurfi að vera til staðar innan kirkjunnar til að
fylgja þeim ákvörðunum eftir.
Um land allt
Heildarskipanin tekur jafnframt mið af sérstöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags hér á
landi, sem er ekki hvað síst fólgin í því að vera til staðar um land allt og halda úti
sömu grundvallarþjónustu. Slíkt er kostnaðarsamt og kemur fram í rekstri kirkjunnar
allrar þar sem tekið er tillit til þessarar frumskyldu þjóðkirkjunnar.
Sóknin
Þjóðkirkjan er lýðræðislega uppbyggð með sóknum, prestaköllum, prófastsdæmum,
prestastefnu, leikmannastefnu, kirkjuþingi, nefndum, stjórnum og ráðum, þar sem