Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 98
98
sóknin er grunneiningin. Það er meginhlutverk sóknarinnar að annast grunnþjónustu
kirkjunnar og er gengið út frá því í þessu skjali.
Uppruni og uppbygging textans
Heildarskipan þjónustunnar er samsett af textum sem unnt er að finna víðsvegar í
samþykktum og stefnuskjölum. Meginuppstaða textans eru samþykktir kirkjuþings
um hin ýmsu stefnumál kirkjunnar. Veigamiklir textar eru sóttir í Stefnu og
starfsáherslur kirkjunnar 2004-2010, ekki hvað síst upphafskaflarnir þar sem fjallað er
um meginhlutverk kirkjunnar, áherslur hennar og játningar.
Samþykktir um innri málefni kirkjunnar, sem biskup Íslands lagði fram og kirkjuþing
2009 samþykkti, eru settar inn í þetta skjal um heildarskipan þjónustu kirkjunnar. Hér
er fylgt sömu uppbyggingu og þar er viðhöfð. Fyrst er greint frá grundvelli og
guðfræðilegum forsendum, og þar með hlutverki, því næst eru tilgreind ýmis almenn
ákvæði sem eru einnig mikilvæg og að lokum er talað um framkvæmdina.
Nýjungar
Helstu nýjungar í þessari heildarskipan eru þær að hér er reynt að setja fram í einu
skjali stefnur og samþykktir frá kirkjuþingi er fjalla um inntak þjónustu kirkjunnar,
svo og um umgjörð um þjónustuna og skipulag hennar.
Þjónustunni er skipt í fimm meginþætti, helgihald, boðun og fræðslu,
kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarf, menningu og listir, og staðbundna
þjónustu og nýjar leiðir. Hverjum þætti lýkur með því að allar sóknir skuli gera áætlun
um þessa grunnþjónustu.
Skipulagi kirkjunnar er ekki breytt frá því sem verið hefur en lögð er áhersla á að
sóknir starfi meira saman en nú er til að geta sinnt grunnþjónustunni. Hér er ekki lagt
til að sóknir verði lagðar niður heldur að þær starfi náið saman innan samstarfssvæða.
Alls eru þessi svæði yfir þrjátíu og er að mestu haldið innan hvers prófastsdæmis, en
prófastsdæmi eru áfram stærri einingar. Þetta hefur m.a. það í för með sér að prestar
og aðrir sem ráðnir eru til starfa hafa ekki lengur einungis sína sókn eða sitt prestakall
sem sinn starfsvettvang heldur eiga að sinna þjónustu og afleysingum á
samstarfssvæðinu. Þar með gefst líka tækifæri til að auka samvinnu milli presta og
sókna en einnig er höfðað til sérþekkingar eða færni sem nýtist þá á fleiri stöðum en
ekki bara í sókninni eða prestakallinu.