Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 99
99
I. HLUTI. GRUNDVÖLLUR OG GRUNNEINING
1. kafli. Trú, játning og kenning þjóðkirkjunnar
1.1 Grundvöllurinn
Starf og boðun hinnar evangelísk-lútersku þjóðkirkju á Íslandi ber vitni um trú,
játningu og kenningu hennar. Kenning þjóðkirkjunnar er tjáð í Heilagri ritningu,
játningum trúarinnar, hefð og arfi kirkjunnar, í Handbók og Sálmabók kirkjunnar og
samkirkjulegum samþykktum sem þjóðkirkjan hefur gerst aðili að. Þjóðkirkjan gengur
út frá því að þau sem koma fram fyrir hennar hönd játi kristna trú og leitist við að lifa
kristnu trúarlífi. Í samfélagi kirkjunnar leitast sérhver kristinn maður, jafnt karl sem
kona, við að lifa sig inn í leyndardóma trúarinnar og gera sér vitnisburð trúarinnar og
köllun sína ljósa. Með helgihaldi, kærleiksþjónustu, fræðslu og boðunarstarfi vill
þjóðkirkjan bjóða öllum að eignast samfélag í trúnni og hlutdeild í lífi hennar. Hún
vill efla fólk á öllum aldri til þátttöku í starfi kirkjunnar og til kristins vitnisburðar
með lífi og breytni á vettvangi dagsins. Kenning evangelísk-lúterskrar kirkju er sett
fram og túlkuð með íhugun guðfræðinnar um trú og játningu í lífi manns og heims.
1.2 Játningar
1. Þjóðkirkjan játar trú á heilaga þrenningu, einn Guð, föður, son og heilagan anda.
2. Þjóðkirkjan játar Guð föður, skaparann, sem elskar og verndar sköpun sína.
3. Þjóðkirkjan játar Jesú Krist sem Drottin og frelsara og fagnaðarerindi hans sem
kraft Guðs til hjálpræðis þeim sem trúa.
4. Þjóðkirkjan játar heilagan anda, lífgjafann og hjálparann, sem kallar hana,
upplýsir og helgar með gjöfum sínum.
5. Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð
Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.
6. Þjóðkirkjan játar postullegu trúarjátninguna, Níkeujátninguna og Aþanasíusar-
játninguna sem sanna skilgreiningu trúar heilagrar almennrar kirkju.
7. Evangelísk lútersk kirkja viðurkennir Ágsborgarjátninguna 1530 og Fræði
Lúthers minni sem sannan vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists og um það
hvernig trú hinnar almennu kirkju var túlkuð sem svar við spurningum
siðbótartímans.
1.3 Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Ákvæði 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um þjóðkirkjuna eru byggð á
Konungalögum 1665, Norsku lögum, 1687, II. bók, 1. kafla og Kirkjurítúalinu, 1685.
• Erindisbréf biskupa, 1746 , 43. gr.
• Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 1. gr.
• Handbók kirkjunnar, 1981.
• Stjórnarskrá Lúterska heimssambandsins, 1947.
• BEM- skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984.
• Porvoo- samkomulagið, 1995.