Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 100
100
2. kafli. Hlutverk þjóðkirkjunnar
2.1 Boðun fagnaðarerindisins í orði og verki 5
Íslenska þjóðkirkjan er evangelísk-lútersk kirkja, hluti hinnar heilögu almennu kirkju
er biður, boðar og þjónar í nafni Jesú Krists um heim allan.
Kristin kirkja er fólk sem kallað er til samfélags við Guð og við hvert annað í trú, von
og kærleika. Andi Guðs knýr kirkjuna til að boða og vitna um Jesú Krist í orði og
verki. Kirkjan byggir á Biblíunni og vitnisburði hinna fyrstu kristnu um hinn
krossfesta og upprisna Jesú Krist og þeim lífsviðhorfum sem felast í þeim boðskap.
Kristin kirkja og fólkið í landinu hafa átt samleið frá upphafi byggðar. Kristin trú og
siður eru samofin sögu þjóðarinnar og eru mótandi afl í samfélaginu. Þjóðkirkjan vill
miðla komandi kynslóðum hinum kristna arfi og vera vakandi fyrir nýjum tækifærum
og leiðum í starfi sínu sem helgast af bæn, boðun og þjónustu.
2.2 Þjóðkirkjan og einstaklingurinn
Hlutverk þjóðkirkjunnar er að boða og iðka kristna trú á þann veg að sérhver
einstaklingur er tekur á móti boðskapnum um Jesú Krist:
Játi trú á Guð, höfund alls lífs, og leiti leiðsagnar hans í lífinu,
o finni þörf sína fyrir nærveru og gæsku Guðs,
o beri virðingu fyrir sköpun Guðs,
o virði helgi og gildi hverrar manneskju,
o haldi í heiðri boðorð Guðs.
Trúi á Jesú Krist sem frelsara og fyrirmynd og sýni þá trú í orði og verki,
o setji traust sitt á Jesú Krist og orð hans,
o beri umhyggju fyrir öðrum sem andsvar við elsku Guðs,
o iðrist og fyrirgefi eins og Guð fyrirgefur,
o sýni umburðarlyndi og stuðli að réttlæti og friði í samskiptum við annað
fólk.
Styrkist í trú, von og kærleika með hjálp heilags anda,
o eigi samfélag við Guð í bæn, orði Guðs, skírn og altarisgöngu,
o kynnist krafti og gleði trúarinnar í samfélagi safnaðarins,
o sýni örlæti og hjálpsemi sem svar við góðum gjöfum Guðs,
o eflist í von um eilíft líf með Guði.
2.3 Þjóðkirkjan og þjóðin
Þjóðkirkjan rækir hlutverk sitt meðal þjóðarinnar með því að:
o boða, biðja og þjóna í helgihaldi,
o fræða um kristna trú og siðferðisgildi,
o sinna kærleiksþjónustu, hjálparstarfi og kristniboði innanlands og utan,
o starfa um land allt í söfnuðum þar sem fjölskyldur og einstaklingar eiga
athvarf á stundum gleði og sorgar,
o liðsinna hverjum þeim sem þarfnast stuðnings,
o standa vörð um kristna trúar- og menningararfleifð á Íslandi,
o miðla af reynslu systurkirkna um heim allan.
5 Sjá Stefnu og starfsáherslur Þjóðkirkjunnar, samþykkt á kirkjuþingi 2003.