Gerðir kirkjuþings - 2010, Blaðsíða 102
102
fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa
samkvæmt boði Krists. Söfnuðurinn er kirkjan. Þegar söfnuðurinn safnast saman um
orð Guðs og sakramenti, þá birtist þar kirkja Krists öll, líkami Krists á jörðu, samfélag
heilagra. „Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á
meðal þeirra,“ segir Kristur (Matt.18.20). Og í 7. grein Ágsborgarjátningarinnar segir:
„Enn fremur kenna þeir: Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður
heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt
þjónusta.“ Söfnuðurinn boðar návist Guðs í lífi fólks og að náð Guðs stendur öllum til
boða. Söfnuðurinn veitir skilyrði til vaxtar og þroska í trú, von og kærleika í daglegu
lífi og störfum. Skipulag þjóðkirkjunnar birtir að hún er líkami Krists og farvegur
návistar hans meðal mannanna. Hún er send til að biðja, boða og þjóna. Það er
sameiginleg ábyrgð allra skírðra sem kirkjunni tilheyra. Kristur, upprisinn, sendir
lærisveina sína að gera allar þjóðir að lærisveinum og heitir að vera með þeim alla
daga, ávallt. Prestar og forystufólk sóknanna bera sameiginlega ábyrgð á samfélagi
trúarinnar í söfnuðinum.
Sóknaskipan þjóðkirkjunnar felur í sér að kirkjan á erindi við þjóðina alla og enginn
er þar undan skilinn.
Með sérþjónustu kirkjunnar, svo sem á sjúkrastofnunum og í fangelsum, leitast
kirkjan við að sinna þeirri kirkjulegu þjónustu sem vart er unnt að veita á vettvangi
sóknanna.
4.2 Þjónustan
1. Frumskylda sóknar er guðsþjónusta, kærleiksþjónusta, fræðsla og sálgæsla sem
nærir og eflir trú sem starfar í kærleika.
2. Sérhvert sóknarbarn á að eiga kost á guðsþjónustu hvern helgan dag.
3. Sóknin skal leitast við að hafa reglubundið helgihald og fjölbreytt guðsþjónustulíf
til að ná til fólks á ýmsum aldursskeiðum, og nýta þau tækifæri sem athafnir á
krossgötum ævinnar veita til boðunar og sálgæslu.
4. Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundnu helgihaldi, svo sem vegna
fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama þjónustusvæði, sameinast um
helgihald og aðra meginþætti safnaðarstarfs.
5. Heimilisguðrækni og bænalíf einstaklinga og fjölskyldna er óaðskiljanlegur þáttur
í guðsþjónustu og trúarlífi og ber söfnuðinum að hlúa að því eftir megni.
6. Sóknin hlynni að samfélagi umhyggju og kærleika, láti sér annt um að vernda
mannslífið á ólíkum skeiðum þess, og bera þannig vitni um hina kristnu von og
kærleika með líknarþjónustu, svo og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði
kirkjunnar.
7. Sóknin sjái til þess að sóknarbörn njóti sálgæslu, umhyggju og stuðnings á
lífsgöngunni og eigi aðgang að sálgæslu í samtali, prédikun, sakramenti og
fyrirbæn.
8. Sókninni ber að veita fræðslu í kristinni trú og sið og styðja þannig heimilin í
trúaruppeldi þeirra með barnastarfi, fermingarundirbúningi og æskulýðsstarfi.
Með því skal séð til þess að þau sem skírð eru fái kristið uppeldi og fræðslu, læri
að biðja og verða handgengin Heilagri ritningu og hljóti leiðsögn, uppörvun og
stuðning til að lifa trú sína í daglegu lífi og starfi.