Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 104
104
II. HLUTI. BIÐJANDI – BOÐANDI - ÞJÓNANDI
Sóknin er grunneining í starfsskipulagi kirkjunnar. Hún hefur ákveðnar skyldur
varðandi grunnþjónustu, einkum í helgihaldi, fræðslu og kærleiksþjónustu sem
sóknarbörnin eiga rétt á að njóta (sjá 4. kafla).
Sóknarbörn njóta þjónustu kirkjunnar alla jafnan í sinni sókn. Í hverri sókn er
sóknarprestur starfandi sem getur þjónað fleiri sóknum og getur ásamt öðrum prestum
haft skyldur á samstarfssvæðum sókna. Þá eru starfandi djáknar í sumum fjölmennari
sóknunum er sinna einkum kærleiksþjónustu og fræðslu. Organistar eru í öllum
sóknum landsins. Þá eru víða starfandi leiðtogar í barna- og æskulýðsstarfi.
Kirkjuverðir og meðhjálparar eru einnig starfsmenn sókna, sumir ólaunaðir, til að
aðstoða við þjónustuna. Í stærri sóknum hafa verið ráðnir framkvæmdastjórar til að
annast tiltekin störf fyrir sóknarnefndina. Margir sjálfboðaliðar leggja sitt af mörkum
til þjónustu kirkjunnar.
Sum sóknarbörn dvelja á stofnunum fjarri heimili sínu um lengri eða skemmri tíma
eða þarfnast sértækrar þjónustu. Til að sinna þeim og fjölskyldum þeirra starfa innan
þjóðkirkjunnar sérmenntaðir prestar og djáknar. Sú þjónusta kirkjunnar kallast
sérþjónusta. Sérþjónustan nær einnig til þjónustu kirkjunnar á erlendri grundu.
Grunnþjónusta sóknar nær til fimm meginþátta hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi
kirkju. Þeir eru:
• Helgihald (5. kafli).
Kaflar 10-24 er fjalla einnig um helgihald kirkjunnar, um skírn, fermingu,
hjónavígslu, útför, vígslur og blessanir. Þar er einnig er fjallað um ýmsa aðra
þætti er tengjast helgihaldi kirkjunnar, svo sem sálmabók, handbók, kirkjuárið
og fleira. Þeir eru ekki birtir í áfangaskýrslunni enda er þá að finna í
Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar.
• Boðun og fræðsla (6. kafli).
• Kærleiksþjónusta, sálgæsla og hjálparstarf (7. kafli).
• Menning og listir (8. kafli).
• Staðbundin þjónusta (9. kafli).
Gerð er nánari grein fyrir hverjum þjónustuþáttanna hér á eftir
5. kafli. Helgihald7
5.1 Guðsþjónusta
Fyrsti dagur vikunnar, sunnudagurinn, er Drottins dagur, helgaður Kristi sem reis upp
frá dauðum. Það er Kristur sem kallar lýð sinn saman til helgrar þjónustu. Messan er
hjartsláttur trúarlífsins þar sem söfnuðurinn mætir Drottni í orði og sakramentum.
Í messunni fær trúin næringu til vaxtar og þroska fyrir boðun fagnaðarerindisins,
samneyti heilagrar kvöldmáltíðar altarisins og samfélagið í bæn og beiðni og
þakkargjörð. Frá messunni er söfnuður Krists sendur út með blessun hans.
7 Kaflinn er orðrétt tekinn úr Samþykktum um innri málefni Þjóðkirkjunnar.