Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 111
111
Með kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarfi er átt við það hlutverk kristinna
einstaklinga og kirkjunnar allrar að bera umhyggju fyrir allri sköpun Guðs,
einstaklingum og umhverfi og stuðla að réttlæti í samskiptum fólks og á opinberum
vettvangi.
Umhyggjan fyrir náunganum er fólgin í því að sinna sjúkum og særðum, en nær og til
þess að hafa bein áhrif á umræðu og ákvarðanir um málefni samfélagsins. Það kann
að vera virk þátttaka í friðarumræðu, umhverfismálum, réttlætismálum á alþjóðavísu.
Þátttaka kristinna einstaklinga innan samtaka, hreyfinga og pólitískra flokka er líka af
sama meiði, að hafa áhrif á málefni er snerta líðan og velferð allra, ekki síst þeirra er
minna mega sín.
Sálgæsla er stuðningur á lífsgöngunni og tengist ekki eingöngu sorg eða veikindum.
Sóknarbarnið á aðgang að sálgæslu í sókninni; í trúnaðarsamtali, fyrirbæn og
skriftum, en líka í boðun orðsins og sakramentum sem og á sérstökum stundum sorgar
og gleði.
Kirkjan sinnir öflugu hjálparstarfi einkum með Hjálparstarfi kirkjunnar sem tengist
öllum sóknum landsins og þjónar þeim. Kirkjan starfar einnig með öðrum samtökum
og félögum sem sinna hjálparstarfi og neyðaraðstoð bæði innanlands og utan.
Prestar og djáknar taka þátt í þverfaglegu samstarfi á sviði sálgæslu, áfallahjálpar og
aðhlynningar sjúkra.22
Í helgihaldi kirkjunnar er kirkjan sýnileg sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja. Úr
helgidóminum er söfnuðurinn sendur á vettvang dagsins þar sem trúin verkar í
kærleika. Það er guðsþjónusta hins daglega lífs.
7.2 Um kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarf
Kærleiksþjónustu kirkjunnar má flokka í eftirfarandi fimm starfsáherslur:
(1) Að veita sálgæslu og viðtöl.
Hér er meðal annars átt við viðtöl við einstaklinga og fjölskyldur, stuðning og
ráðgjöf við fólk í margvíslegum aðstæðum. Sérþjónustuprestar, djáknar, svo
og fjölskylduráðgjafar hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, eru sóknum til
aðstoðar.
(2) Að mæta þörf fólks til að tilheyra samfélagi, mynda tengsl og njóta návistar
annarra.
Hér má nefna húsvitjanir og heimsóknir og samverur, til dæmis fyrir aldraða,
unga foreldra eða aðra hópa.
(3) Að sýna umhyggju fólki með líkamlega og/eða sálræna kvilla.
Hér er bæði átt við þjónustu í sóknum sem og sérþjónustu, m.a. á sjúkrahúsum
og öðrum stofnunum.
(4) Að aðstoða fólk í fjárhagserfiðleikum og vinna að félagslegu réttlæti.
Hér er meðal annars átt við hjálparstarf sókna sem oft er unnið í samvinnu við
Hjálparstarf kirkjunnar, bæði hér á landi og erlendis. Einnig að vera talsmaður
þeirra sem enga rödd hafa.
22 Þjóðkirkjan, stefna og starfsáherslur 2004–2010, bls. 9.