Gerðir kirkjuþings - 2010, Qupperneq 112
112
(5) Að stuðla að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun í safnaðarstarfinu og í
samfélaginu.
Hér má nefna að söfnuðir og stofnanir kirkjunnar leggi sitt að mörkum í mótun
samfélags og lífshátta sem stuðla að hófsamari og að réttlátari skiptingu
jarðargæða og vinni gegn fátækt og neyð.
7.3 Framkvæmd og ábyrgð
Sérhver sókn sinnir kærleiksþjónustu og hjálparstarfi og hvetur til þess að sóknarbörn
taki þátt í því, gefi af tíma sínum og fjármunum, svo sem með sjálfboðavinnu og með
samskotum í messu.
Starfið á sviði sálgæslu, umönnunar og hjálpar getur verið mismunandi og tekur mið
af aðstæðum í hverri sókn. Það kann að vera með áherslu á heimsóknir til sjúkra og
einmana, starf á strætum og torgum, starf meðal vímuefnaneytenda og aðstandenda
þeirra, hópastarf með syrgjendum, aðstoð og stuðningur við innflytjendur, starf meðal
fatlaðra, atvinnulausra, einnig viðtöl og ráðgjöf til handa einstaklingum, pörum,
hjónum og fjölskyldum sem þarfnast aðstoðar í samskiptum sínum og sambúð.
Oft skarast þetta starf sóknanna við annað sambærilegt starf opinberra félagsstofnana
eða félagasamtaka og annarra kirkna, einkum hvað varðar hjálparstarf og
neyðaraðstoð erlendis. Þjóðkirkjan hefur gert viðbragðaáætlun sem er tengd
almannavörnum ríkisins. Allar sóknir eru virkir aðilar að þeirri neyðaráætlun og er
aðstaða í safnaðarheimilum og kirkjum hluti af þeirri áætlun á landsvísu. Prestar og
djáknar hafa þar ákveðið sálgæsluhlutverk.
Auk kærleiksþjónustu og hjálparstarfs sem sóknir annast er starfandi innan
þjóðkirkjunnar Hjálparstarf kirkjunnar sem er mikilvægur samstarfsaðili sókna á sviði
hjálparstarfs innanlands og erlendis. Þá starfrækir þjóðkirkjan Fjölskylduþjónustu
kirkjunnar sem hefur sérmenntaða fjölskylduráðgjafa er sinna einkum viðtölum en
einnig handleiðslu presta og djákna.
Þá eru starfandi prestar og djáknar í sérþjónustu, meðal annars á eða í stofnunum,
fangelsum, sjúkrahúsum, skólum, dvalar- og hjúkrunarheimilum og félagasamtökum.
Starf þeirra er ekki síst á sviði sálgæslu við einstaklinga er líða og þjást í margs konar
erfiðum aðstæðum og aðstandendur þeirra. Þeir sem starfa á stofnunum lúta skipulagi
og starfsfyrirkomulagi þeirra. Prestar sem starfa á vegum íslensku kirkjunnar erlendis
sinna einnig sjúklingum og þeim sem þarfnast ráðgjafar og stuðnings.
Skipulagðri kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarfi í sóknum sinna prestar,
djáknar og aðrir sem hlotið hafa viðeigandi menntun og þjálfun. Sóknir geta haft
samstarf um sálgæslu, til dæmis vegna eftirfylgdar við syrgjendur. Sálgæsla í sókn
getur farið fram í samvinnu við sérþjónustupresta og djákna þar sem henni verður
ekki sinnt með góðum hætti á vettvangi sóknarinnar. 23
23 Sjá nánar greinargerð með þingsályktun um stefnu Þjóðkirkjunnar í kærleiksþjónustu og
hjálparstarfi.
Þar er að finna yfirlit yfir starfsemi kirkjunnar á þessu sviði og verkefni því tengt.