Gerðir kirkjuþings - 2010, Blaðsíða 113
113
Sóknarprestar ásamt sóknarnefndum bera ábyrgð á framkvæmd kærleiksþjónustu
sóknarinnar, sálgæslu og hjálparstarfs út frá aðstæðum í sókninni. Þeim ber að skila
áætlun og yfirliti um þessa starfsþætti í viðkomandi sókn til prófasts og biskups. Þar
komi meðal annars fram hvar upplýsingar eru aðgengilegar sóknarbörnum um
kærleiksþjónustu, sálgæslu og hjálparstarf sóknarinnar og sérþjónustunnar, svo sem
upplýsingar um viðtalstíma presta og djákna.
8. kafli. Menning og listir
Sóknir sinna margvíslegum menningar- og listviðburðum sem og varðveislu og
viðhaldi menningarverðmæta.24 Þjóðkirkjan vill nýta menningu og listir til að koma á
framfæri boðskap sínum og virkja og hvetja listamenn til samstarfs.25
Kirkjan er hluti af menningu þjóðarinnar. Hún hefur átt þátt í varðveislu íslenskrar
tungu með þýðingu á Biblíunni og reglulegum flutningi trúarlegra texta. Hún sinnir
öflugu tónlistarstarfi og nýsköpun á því sviði, í ríkri sönghefð og innlendum og
erlendum sálmaarfi og kirkjutónverkum. Með varðveislu og viðhaldi gamalla kirkna,
kirkjustaða og kirkjumuna og með nýbyggingum kirkna og nýsköpun í kirkjulist
leggur hún skerf til menningarsögunnar.
Það er hlutverk sókna að styðja og efla menningar- og listastarf á kristnum grunni í
sókninni og taka virkan þátt í hátíðar- og menningarviðburðum í samstarfi við
bæjarfélög, skóla og aðra.26 Sóknir taka þátt í varðveislu íslensks menningar- og
trúararfs, meðal annars með viðhaldi á kirkjum, bænhúsum og minningarmörkum.
Sóknir taka þátt í menningartengdri ferðaþjónustu þar sem það á við og veita
upplýsingar sem varða kirkjuna og kirkjugarða, þar með talið upplýsingar um
starfsemi.
Sóknarprestur, organisti, sóknarnefndir og kirkjugarðsstjórnir gegna hér
ábyrgðarhlutverki. Sóknarprestum ásamt sóknarnefndum ber að skila áætlun og yfirliti
um þessa starfsþætti í viðkomandi sókn til prófasts og biskups.
9. kafli. Staðbundin þjónusta og nýjar leiðir
Sóknir þurfa stöðugt að huga að samfélagsgerð og þjóðfélagsbreytingum í sókn og
héraði. Sérhver sókn þarf að vera vakandi fyrir stöðu sinni og tækifærum til boðunar
og þjónustu eftir því sem við á.
Meðal þess sem hafa þarf í huga er:
a. Nýjar leiðir í þjónustu til að ná til þeirra sem ekki sækja reglubundnar
guðsþjónustur og safnaðarstarf.
24 Sjá Stefnu og starfsáherslur Þjóðkirkjunnar, bls. 11.
25 Sjá Stefnu og starfsáherslur Þjóðkirkjunnar, bls. 11.
26 Framkvæmd á þessu fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Víða á fámennari svæðum er kirkjan
sjálfsagður þátttakandi og mikilvægur í flestum viðburðum og þar hefur prestur mörgum félagslegum
skyldum að gegna. Á stærri þéttbýlisstöðum þarf kirkjan að vera vakandi fyrir því að minna á sig.