Gerðir kirkjuþings - 2010, Side 116
116
IV. HLUTI. STARFSFÓLK OG STARFSEININGAR
24. kafli. Starfsfólk, menntun og hlutverk
Á vettvangi kirkjunnar starfar fólk með fjölbreytta menntun og reynslu, vígðir og
leikmenn, launaðir og sjálfboðaliðar. Um störf biskups, vígslubiskupa, prófasta,
presta, djákna og organista og um störf sóknarnefnda gilda lög og/eða starfsreglur.
Við þær reglur, sem og venjur, er stuðst við skilgreiningu þessara starfa þó að
verkefnin geti verið ólík vegna ólíkra aðstæðna. Við skilgreiningu annarra starfa á
vettvangi kirkjunnar, einkum hjá sóknum, þarf að taka tillit til þess að starfslýsingar
geta verið mjög ólíkar og fara eftir aðstæðum.
Kirkjuþing hefur samþykkt starfsmannastefnu sem tekur til alls starfsfólks kirkjunnar,
bæði launaðs og ólaunaðs. Um allt starfsfólk kirkjunnar gilda siðareglur er settar voru
af kirkjuþingi árið 2009.
Hér eru skilgreind störf biskups, vígslubiskupa, presta, prófasta, djákna, organista,
fræðslufulltrúa og sóknarnefnda.
24.1 Biskup Íslands
Meginhlutverk
Biskup Íslands er æðsti embættismaður kirkjunnar. Biskup fer með yfirstjórn
þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt
fyrir um í lögum.
Menntun og þjálfun
Kjörgengur til biskupsembættis er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til
þess að gegna prestsembætti í þjóðkirkjunni.
Helstu verkefni
Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í
landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur,
samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur
ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld
þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar nr.
78/1997.
Biskup vígir kirkjur. Biskup vígir presta og djákna og setur þeim vígslubréf.
Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beitir sér
fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi.
Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir.
Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í
hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til
kirkjuþings.
Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. Biskup Íslands
boðar til almennrar leikmannastefnu.