Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 122
122
24.9 Djákni
Meginhlutverk
Þjónandi djákni þjóðkirkjunnar er hver sá sem á grundvelli köllunar og vígslu gegnir
fastri djáknaþjónustu í þjóðkirkjunni.
Hlutverk djákna er fyrst og fremst að sinna kærleiksþjónustu og fræðslu innan
safnaðar eða annarra starfseininga kirkjunnar, svo og á vegum stofnana eða á vegum
félagasamtaka. Djáknar sinna einnig helgihaldi.
Til að hljóta ráðningu og vígslu sem djákni þarf hlutaðeigandi að hafa lokið
viðeigandi prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og hlotið tilskilda starfsþjálfun á
vegum þjóðkirkjunnar. Hafi umsækjandi um djáknastarf lokið prófi erlendis skal
biskup Íslands leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands.
Helstu verkefni
a) Þjónusta djákna innan safnaða, samstarfssvæða og prófastsdæma getur meðal
annars falist í eftirfarandi:
Helgihald
Djákni leiðir í umboði og á ábyrgð sóknarprests almenna guðsþjónustu, barna- og
fjölskylduguðsþjónustu, tíðagjörð, fyrirbænaguðsþjónustu, kyrrðarstund, helgistund,
kistulagningu, húskveðju og húsblessun. Sjá nánar í kaflanum um helgihald.
Boðun og fræðsla
Djákni sinnir eða hefur umsjón með foreldrastarfi, barnastarfi, fermingarstarfi,
unglingastarfi, fullorðinsfræðslu og samstarfi við leikskóla/skóla, stofnanir og
félagasamtök um heimsóknir og fræðslu. Sjá nánar í kaflanum um boðun og fræðslu.
Kærleiksþjónusta, sálgæsla og hjálparstarf
Djákni sinnir sálgæslu, húsvitjunum og samverum í söfnuðinum. Djákni hefur umsjón
með og skipuleggur stuðning við fólk í erfiðum aðstæðum.
Djákni hefur samskipti við sérþjónustupresta, svo og við Hjálparstarf kirkjunnar, og
tekur þátt í þverfaglegu samstarfi á sviði sálgæslu, áfallahjálpar og aðhlynningar
sjúkra þar sem það á við.
Djákni hefur umsjón með sjálfboðavinnu.
Menning og listir
Djákni tekur þátt í og hvetur til fjölbreyttrar menningarstarfsemi innan sóknarinnar
eða stofnunar.
Staðbundin þjónusta og nýjar leiðir
Djákni tekur þátt í að leita nýrra leiða í þjónustunni, ekki hvað síst gagnvart þeim sem
ekki sækja reglubundnar guðsþjónustur og safnaðarstarf.
Djákni eflir samstarf við aðrar stofnanir og félög vegna sérstakra aðstæðna í söfnuði.
Sjá nánar í kaflanum um staðbundna þjónustu.
b) Þjónusta djákna á stofnunum getur meðal annars falist í eftirfarandi:
– sinnir sérþjónustu, m.a. á sjúkrahúsum, elliheimilum og í skólum,
– leiðir helgistundir, fyrirbænaguðsþjónustur, kyrrðarstundir og annast kistulagningu,
– sinnir og hefur umsjón með fræðslustarfi,
– sinnir sálgæslu,
– sinnir og hefur umsjón með samverum á stofnunum.