Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 129
129
prófastsdæmin og félög er vinna að æskulýðsmálum, svo sem ÆSKR og ÆSKÞ,
KFUM og K og fleiri.
Helgihalds- og kirkjutónlistarsvið. Hlutverk þess er að annast málefni
guðsþjónustunnar, helgihaldsins og kirkjutónlistarinnar innan þjóðkirkjunnar í umboði
biskups Íslands. Starfsmenn sviðsins eru ráðgjafar biskups í helgisiða- og
kirkjutónlistarmálum, veita prestum, organistum, kórstjórum og öðru starfsfólki
kirkjunnar ráðgjöf og leiða starf til endurskoðunar og nýsköpunar helgisiða og
kirkjusöngs. Meðal helstu verkefna er endurskoðun á handbók og sálmabók
kirkjunnar. Unnið er á grundvelli tónlistarstefnu kirkjunnar sem samþykkt var af
kirkjuþingi 2004.
Kærleiksþjónustusvið. Verkefni þess eru á sviði kærleiksþjónustu (díakoníu),
kristniboðs og hjálparstarfs samkvæmt stefnumótun þjóðkirkjunnar í kærleiksþjónustu
sem samþykkt var af kirkjuþingi 2006. Undir sviðið heyrir starfsþjálfun djákna,
samstarf við sérþjónustupresta og djákna og samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar og
Samband íslenskra kristniboðsfélaga.
Guðfræði- og þjóðmálasvið. Sviðið sinnir stefnumálum kirkjunnar í samfélaginu og
fæst meðal annars við stefnumótun, rannsóknir á trúarlegum spurningum, gildum og
lífsskoðunum sem efst eru á baugi; skuldbindingar kirkjunnar um mannréttindi og um
þvertrúarlegt starf. Samstarfsaðilar eru meðal annars Mannréttindaskrifstofa Íslands
og Samráðsvettvangur trúfélaga.
Samskipta- og upplýsingasvið sinnir upplýsingamiðlun inn á við til kirkjunnar og
starfsfólks og út á við um málefni kirkjunnar til fjölmiðla og samfélags. Sviðið hefur
umsjón með efni vefja þjóðkirkjunnar og sér um útgáfu Víðförla og kynningarefnis.
Það veitir ráðgjöf til starfsmanna stofnana kirkjunnar og sókna um upplýsingamál.
Erlend samskipti og samkirkjumál. Sviðið sinnir erlendum samskiptum
þjóðkirkjunnar, þar með töldu samstarfi við systurkirkjur og við alþjóðleg
kirknasamtök, Alkirkjuráðið, Lúterska heimssambandið, Kirknaráð Evrópu og
Porvoo-kirknasamfélagið. Meðal hlutverka er upplýsingamiðlun og skipulagning
vegna heimsókna eða þátttöku í samkirkjulegum viðburðum. Sviðið sinnir einnig
innlendum samkirkjumálum í formlegu samstarfi innan Samstarfsnefndar kristinna
trúfélaga.
Fjármálasvið Biskupsstofu. Fjármálasvið hefur umsjón með öllum sjóðum kirkjunnar,
þar með talið kirkjumálasjóði og með fjárhagsáætlunum stofnana kirkjunnar sem ekki
eru sjálfseignarstofnanir (s.s. Hjálparstarf kirkjunnar, Skálholtsútgáfan). Sviðið sér um
fjármál kirkjunnar og fjárhagssamskipti ríkis og kirkju; um launaútreikninga,
reikninga, bókhald, launamál og stuðning við sóknir í fjárhagsskilum.
Skjalavarsla og bókasafn. Á sviðinu er sinnt skjalavörslu samkvæmt lögum og reglum
um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985. Auk almennrar skjalavörslu sinnir það
margvíslegri upplýsingaþjónustu er tengist varðveislu skjala og upplýsinga. Þar er
einnig umsjón með bókasafni biskupsembættisins.