Gerðir kirkjuþings - 2010, Qupperneq 130
130
b) Svið sem heyra undir kirkjuráð.
Upplýsingatæknisvið. Það veitir tæknilega aðstoð og ráðgjöf á sviði tölvumála,
nettenginga og tæknibúnaðar á Biskupsstofu, hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar,
Kirkjumiðstöð Akureyrar, Hjálparstarfi kirkjunnar, Tónskóla þjóðkirkjunnar og hjá
sérþjónustuprestum.
Fasteignasvið. Það sinnir daglegum rekstri verkefna fasteignanefndar þjóðkirkjunnar
og kirkjuráðs hvað varðar fasteignir kirkjunnar í samræmi við starfsreglur um
prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009. Sviðið hefur umsjón með
fasteignum og jörðum kirkjunnar og gætir réttinda eiganda. Það annast einnig kaup og
sölu, viðhald og nýbyggingar. Í dag eru um 80 prestssetur í umsjá fasteignasviðs.
c) Almenn skrifstofa. Þjónusta almennrar skrifstofu á Biskupsstofu nær til biskups
Íslands, kirkjuráðs, presta, prófasta, vígslubiskupa, kirkjuþings, starfsfólks í
starfshópum og nefndum, ýmissa stofnana kirkjunnar o.fl. Undir það falla
starfsmannamál, skjalavarsla, fjármál, útgáfumál og eftirfylgd laga og reglugerða.
Auk þess ritarastörf, símavarsla og móttaka, mötuneyti og þrif.
Sjá fylgiskjal um núverandi starfshlutfall sviða á Biskupsstofu (töfluskjal í excel)
Að auki eru þrjár stofnanir á vegum kirkjunnar: Tónskóli þjóðkirkjunnar,
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar og Skálholt.
Nánar um samstarfssvæði
Sóknunum er skipt í flokka A, B, C, D, E og F á grundvelli þess hversu messuskylda
er mikil.
Guðsþjónusta fer fram í öllum sóknarkirkjum á stórhátíðum kirkjunnar, jólum,
páskum og hvítasunnu (sjá þó F-lið hér að neðan).
A. Í sókn með 2500 sóknarbörn eða fleiri skal haldin almenn guðsþjónusta hvern
helgan dag, um 60 guðsþjónustur á ári.
B. Í sóknum með 750-2500 sóknarbörn að lágmarki annan hvern sunnudag auk
hátíða, um 28 guðsþjónustur á ári.
C. Í sóknum með 300-750 sóknarbörn að lágmarki einu sinni í mánuði auk
hátíða, um 18 guðsþjónustur á ári.
D. Í sóknum með 100-300 sóknarbörn að lágmarki einu sinni í mánuði auk
hátíða, um 11 guðþjónustur á ári.
E. Í sóknum með 50-100 sóknarbörn að lágmarki annan hvern mánuð auk hátíða,
um 6 guðsþjónustur á ári.
F. Í sóknum með færri en 50 sóknarbörn er messuskyldan 1-6 guðsþjónustur á
ári.
Heimilt er með leyfi biskups að taka tillit til annarra þátta en fjölda sóknarbarna,
svo sem staðhátta, hefðar og hlutverks kirkjunnar í sókninni eða á svæðinu.