Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 149
149
Börnin þurfa að verða læs á merkingu tákna og helgihald kirkjunnar og efla þarf leikni
þeirra til þátttöku í helgisiðum. Þannig verða börnin smám saman læs á mál og
boðskap kirkjunnar og þátttaka í helgihaldinu verður þeim aðgengilegri.
2. Heimilið
Skírnarfræðsla fer fram að einhverju marki á heimilunum og er sú fræðsla misjöfn og
breytileg eftir fjölskyldum. Heimilið er sá staður þar sem börnin læra mest og verða
fyrir mestu áhrifunum á fyrstu árum ævinnar. Hvetja má heimilin til að:
• Sækja guðsþjónustur.
• Leggja rækt við trúarlegar venjur eins og borðbænir, morgun- eða kvöldbænir.
• Skapa aðstæður í hinu daglega lífi þar sem rætt er við börnin um trúarleg og
siðferðileg efni.
• Tengja trúarhátíðir (jól, páska og hvítasunnu) helgihaldi.
• Sækja fræðslufundi og aðra starfsemi fyrir fjölskylduna sem kirkjan býður upp
á.
Söfnuðurinn og heimilin þurfa að eiga gott samstarf um skírnarfræðsluna. Foreldrar
og skírnarvottar bera ábyrgð á þeirri trúarlegu fræðslu sem skírð börn eiga að njóta.
Aðstoða ætti foreldra og hvetja þá til að tengja kristindóminn hversdagslífi
heimilisins. Barnastarf kirkjunnar gefur einstakt tækifæri til að ná til foreldra. Til að
tengja betur saman heimilin og kirkjuna mætti bjóða foreldrum upp á fjölbreytt starf í
kirkjunni, s.s. fræðslu og helgihald. Auk þess mætti bjóða upp á sérstakar
foreldrasamverur þar sem barnastarfið er kynnt og foreldrar fengnir til samstarfs og
samvinnu. Bjóða má foreldrum sérstaklega til guðsþjónustu, gjarnan í tengslum við
þátttöku barnsins í henni.
Börn alast upp við ólíkar aðstæður og í ólíkum fjölskyldugerðum. Taka skal tillit til
þessarra aðstæðna og mæta börnum og fullorðnum af fullri virðingu. Standa skal vörð
um rétt barnsins eins og hann er tryggður í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
(1992).
Börn þurfa að geta hreyft sig, fengið útrás fyrir tilfinningar og verið í samskiptum við
aðra. Þetta eru mikilvægar forsendur þroska. Hvað varðar trúarlegt og siðferðilegt
uppeldi er ljóst að reynsla barna er ólík. Kenningar um félagsmótun, m.a. hvað snertir
trúar- og siðferðisþroska, leggja mikla áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar.
Fjölskyldan síar þau áhrif sem barnið verður fyrir. Sum börn búa í fjölskyldum þar
sem hið trúarlega og siðferðilega fær rými og er sýnilegt. Önnur börn fara á mis við
þessa reynslu.
2.1 Foreldrastarf
Markmið
Þjóðkirkjan styðji foreldra í uppeldishlutverki sínu hvarvetna þar sem kirkjan og
foreldrar mætast.
Verkefni
• Skírnin undirbúin með viðtölum við foreldra og því fylgt eftir í kirkjulegu starfi.
• Fræðsla fyrir unga foreldra um uppeldi og trúariðkun, ásamt börnum, s.s. með
foreldramorgnum.
• Í tengslum við barna- og æskulýðsstarf skal bjóða foreldrum fræðslu um uppeldi
og trú og mikilvæg lífsgildi.
• Virkja foreldra í barna- og æskulýðsstarfi.
• Styðja við bænalíf og helgihald á heimilum, m.a. með útgáfu efnis.