Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 150
150
3. Leikskólinn
Leikskólinn fræðir ekki á sama hátt og grunnskólinn, því ekki er gengið út frá
hefðbundnum námsgreinum við fræðslu í leikskólanum. Í 2. grein laga um leikskóla
nr. 90/2008 segir: Starfshættir leikskólans skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika,
jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir
manngildi og kristinni arfleifð íslenskar menningar. Markmið uppeldisstarfs í
leikskólum skal m.a. taka mót sitt af kristinni arfleifð eins og grunnskólinn. Æskilegt
er því að auka samstarf kirkjunnar og leikskólans.
4. Grunnskólinn
Grunnskólinn á sér langa sögu í kristindómsfræðslu og er sú fræðsla í dag á
forsendum skólans. Í 2. grein laga um grunnskóla (nr. 91/2008) segir: Starfshættir
grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskar
menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu
fyrir manngildi. Hin kristna arfleifð skal hafa mótandi áhrif á starfið í skólunum. Auk
þess er trúarbragðafræðsla og þar með kristindómsfræðsla ein af námsgreinum
skólans (sbr. Aðalnámskrá grunnskóla) sem standa þarf vörð um og hlúa að. Auka
þarf samstarf skólans og kirkjunnar enda nær skólinn til flestra barna sem skírð eru.
Kirkjan hefur upp á margt að bjóða sem getur á margvíslegan hátt styrkt hið góða
starf sem unnið er í leik- og grunnskólum.
Þar sem bæði leikskólanum og grunnskólanum er ætlað að taka mið af kristnum
gildum í starfi sínu er æskilegt að koma á góðu og reglulegu samstarfi við þessa aðila.
Þetta samstarf þarf að byggja á forsendum skólanna. (sjá nánar í viðauka 1.)