Gerðir kirkjuþings - 2010, Qupperneq 157
157
Þetta er einnig mikilvægt svo að unglingurinn vaxi ævilangt í trú og kærleika og fái
dýpri skilning á mikilvægi trúarinnar.
Guðs orði er miðlað í gegnum tungumálið og það mætir unglingnum í lífsaðstæðum
hans eins og þegar Kristur mætti börnum og fullorðnum á sínum tíma. Til að þetta geti
gerst er mikilvægt að nota fjölbreyttar aðferðir til að tengja orðið lífi unglingsins.
Gegnum fræðsluna (virkja, vekja og fræða) getur unglingurinn betur skilið hvað trú
er, hver Guð er, sem er höfundur trúarinnar, og hvað trúin felur í sér í daglegu lífi.
Fræðslu um innihald trúarinnar á að tengja við guðsupplifun unglingsins og þau
lífsvandamál sem hann er að glíma við. Á þennan hátt fær innihald trúarinnar
merkingu í lífsaðstæðum hans.
2. Inntak
2.1 Upphaf fermingarfræðslunnar
Markmiðið er:
að fermingarbörnin kynnist hvert öðru og að þau upplifi sig sem hluta af hóp.
Mikilvægir áhersluþættir:
- Kynnast – hrista hópinn saman.
- Skapa góðan anda í hópnum.
- Rætt um væntingar (fermingarbarnsins og fræðarans).
- Kanna hvað fermingarbörnin kunna og taka mið af þekkingu þeirra við frekara
skipulag fræðslunnar.
- Samræður um fræðsluna framundan.
- Skírnin er forsenda fermingar.
2.2 Líf unglingsins
Markmiðið er:
að hjálpa fermingarbörnunum að leita svara við mikilvægum spurningum um líf sitt
og tilveru og styðja þau í að vaxa sem kristnar manneskjur í samfélagi við aðra.
Mikilvæg áhersluatriði:
- Sjálfstæði og samskipti við foreldra.
- Sjálfsmynd og samskipti við aðra unglinga.
- Mikilvæg gildi (ábyrgð, réttlæti, umburðarlyndi, fjölbreytileiki).
- Lífsstíll, fjölmiðlar, netheimar, fíkniefni.
- Merking lífs, tilvistarspurningar, guðshugmyndir.
- Gleði, von, kærleikur, frelsi.
- Mótlæti í lífinu, ótti, angist, þjáning, þor til að segja nei, dauði, sorg.
2.3 Trú kirkjunnar
2.3.1 Sköpunin.
Markmiðið er:
að fermingarbörnin læri að þekkja Guð sem föður og Skapara og að þau fái hjálp til
að sjá hversu sérstök þau eru sem manneskjur og sem hluti af sköpunarverkinu.
Mikilvæg áhersluatriði:
- Trú á Guð, skynsemi og samviska í ljósi Guðs.
- Guð skapari jarðar.
- Ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu, umhverfisvernd.
- Guðs vilji – boðorðin.