Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 191
191
38. mál kirkjuþings 2010
Flutt af kirkjuráði
Samþykkt þannig að lokinni umfjöllun í löggjafarnefnd:
Þingsályktun um frumvarp til laga um breytingu á
lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing 2010 beinir þeim tilmælum til dómsmála- og mannréttindaráðherra að
hann flytji eftirfarandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og
starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, sbr. 3. mgr. 23. gr. sömu laga.
1. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
Ef sóknarpresti eða presti er veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann for-
fallast af öðrum ástæðum getur biskup Íslands falið öðrum presti að gegna embættinu
til allt að eins árs í senn.
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2015.
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Athugasemdir við frumvarpið.
Kirkjuþing 2010 hefur fjallað um tillögu þess efnis að beina því til dómsmála- og
mannréttindaráðherra að hann flytji frumvarp til breytinga á lögum nr. 78/1997 um
stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sbr. 3. mgr. 23. gr. sömu laga. Ákvæðið
heimilar kirkjuþingi að hafa frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni
og beina þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi.
Í frumvarpi þessu er byggt á því sjónarmiði að eðlilegt geti talist, miðað við
hið ríka aðhald í fjármálum kirkjunnar, að fresta að auglýsa laust til umsóknar
embætti sóknarprests eða prests, sem losnar af ástæðum þeim sem greinir í ákvæðinu.
Í þessu sambandi er litið til þess að um sé að ræða prestakall sem kunni að verða
sameinað grannprestakalli á grundvelli stefnumörkunar kirkjuþings um framtíðar-
skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma frá árinu 2000. Í stefnumörkun þessari eru
sett fram almenn viðmið um stærð prestakalla. Um málsmeðferð samkvæmt starfs-
reglum kirkjuþings vegna tillagna um breytingar á prestakallaskipan fer samkvæmt
ákvæði 3. gr. starfsreglna um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1027/2007 en þar segir
að tillögur um breytingar á skipan sókna og prestakalla skuli fá umsögn á
aðalsafnaðarfundum viðkomandi sókna og þær því næst bornar upp á héraðsfundi,
sem sendir þær biskupafundi, sem býr málið til kirkjuþings. Málsmeðferð getur
samkvæmt þessu tekið allt að eitt ár, einkum ef tillaga að breytingum kemur fyrst
fram á kirkjuþingi. Í því tilviki verður slík tillaga ekki afgreidd á því þingi heldur
verður tillagan að fara fyrir aðalsafnaðarfundi og héraðsfund og að því búnu fyrir
næsta kirkjuþing á eftir.
Breytingunni er ætlað að skapa svigrúm í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá
kirkjunni vegna niðurskurðarkröfu ríkisins á hendur henni en óhjákvæmilegt er að
leita allra leiða til að spara kirkjunni útgjöld. Með ofangreindri lagabreytingu er
kirkjunni gert kleift að hagræða ef þær aðstæður skapast að embætti losnar vegna
starfsloka eða af öðrum ástæðum. Eins og fyrr segir á þetta eingöngu við þar sem
ástæða þykir til að endurskoða prestakallaskipan á grundvelli framangreindrar stefnu-
mótunar kirkjuþings.