Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 192
192
Öll laus embætti skal auglýsa samkvæmt lögum um réttindi og skyldur
starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Hinar sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í íslensku
þjóðfélagi kalla á undantekningar hvað þetta varðar. Ekki er að finna heimild, hvorki í
lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 né í lögum um stöðu,
stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, til þess að setja mann tímabundið í
embætti sem er laust í skilningi 7. gr. starfsmannalaga, né heldur að fela sóknarpresti
eða presti í einu embætti að gegna einnig öðru embætti. Í 24. gr. starfsmannalaga er
ákvæði sem mælir fyrir um setningu í embætti við tilteknar aðstæður. Þar er einungis
að finna heimild til setningar í embætti í stað embættismanns sem fellur frá, vegna
fjarveru hans um lengri tíma eða vegna veikinda.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Lagt er til að við lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 bætist
ákvæði til bráðabirgða sem heimili biskupi að setja tímabundið vígðan einstakling,
sem uppfyllir skilyrði til að gegna prestsembætti innan þjóðkirkjunnar, þegar slíkt
embætti losnar, af þeim ástæðum að viðkomandi lætur af embætti eða forfallast af
öðrum ástæðum. Miðað er við að setning í embætti geti aldrei varað lengur en til eins
árs í senn, m.a. með hliðsjón af 5 ára skipunartíma sóknarpresta og presta. Ef ekki er
að ári liðnu búið að sameina embættið öðru embætti er heimilt að setja aftur í
embættið. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að sett sé í embætti til skemmri tíma en
eins árs.
Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið gildi lengur en til 1. janúar 2015, en þá er
miðað við að jafnvægi hafi skapast í fjármálum þjóðkirkjunnar. Nauðsynlegt er að
kveða á um að ákvæðinu sé ætlaður ákveðinn gildistími þar sem því er ætlað að taka
tímabundið úr sambandi þá meginreglu 7. gr. starfsmannalaga að laus embætti skuli
auglýsa, en slíkt er lagt til vegna hinna sérstöku aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu.
Um 2. gr.
Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en afar brýnt er að framangreint ákvæði komi til
framkvæmda sem fyrst.