Morgunblaðið - 20.02.2016, Page 39
MINNINGAR 39
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. FEBRÚAR 2016
✝ Jóhanna MaríaMagnúsdóttir
fæddist á Syðra
Hóli 1. maí 1919.
Hún lést á hjúkr-
unarheimilinu Sæ-
borg á Skaga-
strönd 2. febrúar
2016.
Foreldrar henn-
ar voru Magnús
Björnsson frá
Syðra Hóli, f. 30.
júlí 1889, d. 12. júlí 1963, og Jó-
hanna Guðbjörg Albertsdóttir,
f. 11. mars 1897 á Vindheimum í
Skagafirði, d. 3. mars 1996.
Systkini Maríu; 1) Hólmfríður,
f. 1. apríl 1918, d. 6. júlí 2013, 2)
Björn, f. 26. júní 1921, d. 13.
nóvember 2010, 3) Sveinbjörn
Albert, f. 1. nóvember 1923, d.
13. nóvember 1987, 4) Guðrún
Ragnheiður, f. 17. maí 1925, d.
2. júní 1938, Guðlaug Ásdís, f. 7.
ágúst 1931.
María giftist 1947 Jóni Jóns-
syni frá Asparvík á Ströndum,
f. 21. maí 1921, d. 9. júlí 1991.
Foreldrar hans voru Jón Kjart-
ansson, f. 18. júlí 1873 á Skarði í
Bjarnarfirði, d. 28. nóvember
1957, og Guðrún Guðmunds-
ber 1956, kvæntur Maríu Alex-
andersdóttur, f. 23. desember
1958, þau eiga þrjú börn; a) Ró-
bert Frey, f. 10. nóvember 1973,
kvæntur Aðalheiði Árnadóttur,
þau eiga þrjá syni, b) María
Jóna, f. 25. mars 1977, gift Elv-
ari Frey Aðalsteinssyni, þau
eiga þrjú börn, c) Elva Ösp, f.
13. október 1985, í sambúð með
Björn Hansen, hún á eina dótt-
ur.
4) Ragnar Hlynur, f. 28. des-
ember 1963, kvæntur Brynju
Waage, f. 19. júní 1965, þau
eiga þrjá syni; a) Reyni Braga,
f. 11. janúar 1997, b) Jón
Bjarka, f. 28. nóvember 2000, c)
Kjartan Jóhann, f. 25. nóv-
ember 2002.
María ólst upp á Syðra Hóli í
Vindhælishreppi og tók gagn-
fræðapróf frá Menntaskólanum
á Akureyri. Hún starfaði sem
farandkennari í tvö ár í Hvít-
ársíðu í Borgarfirði og Bjarn-
arfirði á Ströndum. Eftir að
hún og Jón fluttu búferlum til
Skagastrandar 1948 vann hún
ýmis störf með barnauppeldi og
heimilisstörfum og var m.a.
kennari við Höfðaskóla í þrjú ár
en starfaði lengst af við verslun
Kaupfélags Húnvetninga og var
verslunarstjóri í útibúi kaup-
félagsins í mörg ár.
María verður jarðsungin frá
Hólaneskirkju á Skagaströnd í
dag, 20. febrúar 2016, klukkan
14.
dóttir, f. 18. apríl
1883 í Kjós, Árnes-
hreppi, d. 23. nóv-
ember 1956.
Börn Maríu og
Jóns:
1) Jóhanna
Fjóla, f. 10. nóv-
ember 1947, maki
Þór Arason, f. 21.
október 1946, þau
eiga þrjá syni; a)
Ara Jón, f. 11. júlí
1966, hann á fjögur börn og
þrjú barnabörn, b) Þórarin
Kára, f. 20. maí 1967, kvæntur
Ann Þórsson, þau eiga tvo syni,
c) Atla Þór, f. 1. nóvember 1974,
í sambúð með Maríu K. Gunn-
arsdóttur, hann á tvær dætur.
2) Magnús Björn, f. 14. apríl
1952, kvæntur Guðbjörgu Vig-
gósdóttur, f. 1. apríl 1954, þau
eiga þrjá syni; a) Viggó, f. 14.
ágúst 1971, kvæntur Magneu I.
Harðardóttur, þau eiga þrjár
dætur, b) Baldur, f. 3. ágúst
1974, kvæntur Þórunni Valdísi
Rúnarsdóttur, þau eiga fjögur
börn, c) Jón Atli, f. 29. júlí 1988,
í sambúð með Birtu Rán Björg-
vinsdóttur.
3) Gunnar Jón, f. 23. desem-
Móðir okkar, María Magn-
úsdóttir, er látin í hárri elli.
Hún kvaddi á hæglátan hátt,
fannst ævin orðin nógu löng en
lét þess þó reglulega getið að
hún hefði það ágætt en væri
bara orðin alltof gömul. Hún
var alla tíð eins og klettur í lífi
okkar því til hennar var ætíð
hægt að sækja hlýju, styrk,
visku og glaðværð. Hún var al-
in upp á Syðra-Hóli, góðu
sveitaheimili þar sem íslenskt
mál, bæði bundið og óbundið,
var í hávegum haft. Þar voru
bækur og bókmenntir mikils
metnar og lögð áhersla á gildi
sagna, sögu, menningar og
ræktunar lands og lýðs. Þessi
gildi einkenndu hana og viðhorf
hennar, ásamt þeim persónu-
leika sem hún hafði fengið í arf
og gætti svo vel alla tíð.
Við systkinin höfum lært að
meta það betur og betur hve
mikils virði það er að fá að
alast upp við kné og síðar hlið
svo ágætrar móður. Æskudag-
ar okkar einkenndust af já-
kvæðu viðhorfi hennar ásamt
því umburðarlyndi sem hún
sýndi okkur og reyndar flestum
öðrum. Þótt efalaust hafi komið
áhyggjudagar þá urðum við
þeirra aldrei vör enda tókst
hún á við allt slíkt af æðruleysi
og festu.
Það var oft gestkvæmt á
heimili foreldra okkar þar sem
fólk úr heimasveitum beggja
kom gjarnan við, sem og kunn-
ingjar og vinir í þorpinu. Í eld-
húskróknum sátu því oft sögu-
menn og hagyrðingar sem supu
úr kaffibolla og vísurnar sem
flugu voru gripnar á lofti og
lærðar strax eða skrifaðar til
minnis. Á milli systkinanna frá
Syðra-Hóli var sérstakt sam-
band.
Þegar þau hittust skapaðist
stemning þar sem æskuminn-
ingar, ættfræði, sagnir og kveð-
skapur réðu ríkjum. Árin sem
hún var kennari voru henni líka
dýrmæt því tengslin sem sköp-
uðust við nemendur voru sterk
og sum urðu að ævilangri vin-
áttu.
Sem börn nutum við bæði
ástúðar og frelsis. Þegar ekki
viðraði til útileikja gátum við
endalaust komið inn með hópa
af krökkum og fengum að
breyta húsinu í stóran leikvöll.
Allt í sátt og samlyndi ef við
tókum til á eftir.
Hún kenndi okkur að bera
virðingu hvert fyrir öðru og
sjálfum okkur og að vera við
sjálf. Hún kenndi okkur líka
margt fleira sem hún var alin
upp við og hafði í heiðri, bæði
manngildi og menningarverð-
mæti. Lestur góðra ævisagna,
skáldsagna og þjóðlegra fræða
var áhugamál og tómstunda-
gaman og fylgdi henni á meðan
sjónin og andlegt þrek leyfði.
Bókin var jólagjöfin hennar og
iðulega, þegar við hittumst
milli jóla og nýárs, sagði hún
frá bókunum sem hún var byrj-
uð að lesa. Þá var eftir-
væntingin eftir efni þeirra svo
mikil að hún byrjaði gjarnan á
þremur til fjórum „jólabókum“
og las þær síðan jöfnum hönd-
um.
Þegar barnabörnin komu í
heiminn nutu hún og pabbi
hverrar stundar með þeim.
Húsið fylltist á ný af börnum í
leik og ærslum sem kölluðu
hana Maju ömmu, hverra
manna sem þau voru og hún
elskaði þau öll og hvert augna-
blik sem hún átti með þeim.
Hún stóð við pönnukökubakst-
ur með þrjár pönnur undir og
húsið fullt af börnum og þeim
ilmi sem bauð þau velkomin og
skapaði bæði þeim og henni
ógleymanlegar og ljúfar minn-
ingar.
Við ferðalok er efst í huga
okkar þakklæti, ást og sökn-
uður.
Fjóla, Magnús, Gunnar
og Ragnar.
Elsku amma, ömmustelpan
þín á dálítið erfitt núna. Dag-
urinn sem ég hef kviðið fyrir
svo lengi rann upp. Þú fékkst
að losa þig við lúna líkamann
sem þú varst orðin svo þreytt á
að dröslast með.
Efst í huga mér þessa dag-
ana, þegar ég rifja upp allar
minningarnar, er þakklæti. Ég
er svo þakklát og stolt af að
hafa verið ömmustelpan þín og
fá að kalla þig, hjartahlýju og
yndislegu konuna, ömmu. Því-
lík gjöf að fá að hafa þig svona
lengi hjá mér.
Á milli okkar hefur alltaf
verið fallegt og einlægt sam-
band. Þú minntist þess oft að
þegar þú sást mig fyrst ný-
fædda hefði þú litið í augun
mín og sagt: „Þig hef ég hitt
áður.“
Það vantaði aldrei upp á
hlýjuna, kærleikann, ráðin og
væntumþykjuna frá þér. Ég
var svo heppin að fá að eyða
stórum parti barnæsku minnar
hjá þér og afa og alltaf var tek-
ið á móti mér opnum örmum.
Það voru ófá skiptin sem lítil
hnáta kom köld og blaut til
ömmu. Hlýju hendurnar þínar
voru fljótar að ylja köldum
fingrum og bauðst svo upp á
pönnukökur og kakó. Ég á svo
margar fallegar og yndislegar
minningar um allar samveru-
stundirnar okkar.
Eftir að við fluttum suður er
mér minnisstæð tilhlökkunin að
koma norður til þín, aldrei
brást það, þú varst tilbúin með
uppáhalds-ömmubrauðið handa
mér. Þegar ég svo birtist
stökkstu á fætur og mættir
mér með yndislegu ömmuknús-
unum þínum. Mikið sakna ég
þeirra, elsku amma.
Þú talaðir svo oft um það
hvað ég væri rík að eiga hana
Örnu Maríu okkar. Hún hefur
alltaf litið upp til þín og á milli
ykkar var falleg og hlý ást.
Þegar hún var yngri montaði
hún sig oft af því að eiga ömmu
sem gæti bakað pönnukökur
með þrem pönnum. Hún passar
vel upp á hringinn sem þú gafst
áfram til hennar, hún er svo
stolt af honum. Ég er svo þakk-
lát fyrir að hún hafi fengið að
vera ömmustelpan þín líka, rétt
eins og ég.
Þú misstir mikið þegar afi
kvaddi okkur en það var svo
gott hvað þú talaðir opinskátt
um hann og hversu mikið þú
saknaðir hans. Þú fannst oft
fyrir honum hjá þér og er ég
alveg sannfærð um að hann
hafi komið að sækja þig þegar
þú sofnaðir í hinsta sinn.
Í huga mér eruð þið afi sam-
an. Saman í brekkunum á
Syðra-Hóli, þar sem þú sagðist
ætla að hlaupa um þegar þú
færir. Þar ert þú með afa,
manninum sem þú elskaðir og
saknaðir svo mikið.
Alltaf þegar við hittumst eða
töluðum saman í síma var stutt
í hláturinn, eins og þú minntist
svo oft á. Við gerum nóg af því
þegar við hittumst aftur, hlæj-
um saman og knúsumst. Þang-
að til hugga ég mig við það sem
þú sagðir við mig fyrir nokkr-
um árum; alveg sama hvar við
erum, þá eigum við alltaf hvor
aðra.
Ljóðið sem ég orti til þín, níu
ára gömul, segir svo margt um
okkar samband og hvað mér
hefur alltaf þótt ofboðslega
vænt um þig:
Elsku besta amma
ósköp er ég rík
að eiga þig elsku amma
og einnig að vera þér lík.
Ég minnist þess
er ósköp lítil snót
flýtti sér í fang þitt
að fá yl í kaldan fót.
Frá þér ávallt streymir
orka, hlýja og ást
ömmur hér í heimi
ekki betri fást.
Ég elska þig og sakna þín.
Þín
Elva Ösp.
Það er með tár í augum og
gleði í hjarta sem ég sest niður
og rifja upp allar yndislegu
stundirnar með þér, elsku
amma. Ég er sorgmædd yfir að
komið sé að kveðjustund en
jafnframt glöð og þakklát fyrir
að hafa fengið að hafa þig
svona lengi sem stóran part af
lífi mínu. Að þú hafir verið til
staðar þegar ég fann ástina,
giftist og eignaðist börnin mín
og hvað þú samgladdist mér
innilega yfir öllum þessum
gæfusporum.
Samverustundirnar okkar
voru alltaf yndislegar. Stundum
sátum við langtímum saman og
rifjuðum upp gamlar og góðar
minningar og þá var nú þitt
minni yfirleitt betra en mitt og
oft grínuðumst við með það
hvor okkar væri nú í raun eldri.
Ekki var síður gefandi að hitta
þig þegar lífsins brekkur voru
örlítið brattari, þú hafðir ein-
stakt lag á því að láta mér líða
betur og var tilveran mun
bjartari eftir gott spjall við þig.
Þegar ég var lítil var ég
ótrúlega stolt af því að hafa
verið skírð í höfuðið á þér og
afa, þið voruð fólkið sem öllum
vinunum þótti svo ótrúlega
vænt um og ekki hefur stoltið
minnkað með árunum því
ósjaldan hef ég fengið bjartara
bros og hlýrra viðmót frá fólki
sem þekkti ykkur, þegar það
veit að þið eruð amma mín og
afi.
Ég verð þér ævinlega þakk-
lát fyrir að hafa komið því inn
hjá mér sem unglingi hvað
menntun er mikilvæg og
hversu eindregið þú hvattir mig
til þess að klára stúdentsprófið.
Ég segi oft að stúdentsprófið
hafi ég tekið fyrir þig en
reynslan hefur sýnt mér að
þarna veittir þú mér ómetan-
legan innblástur eins og í svo
ótal mörg önnur skipti. Með
þetta og svo margt annað hefur
þú kennt mér lífssýn sem ég
mun svo sannarlega miðla
áfram til minna afkomenda.
Elsku amma, það segir meira
en þúsund orð um þig og þína
persónu þegar ég var að koma í
heimsókn til þín á Sæborg, þú
orðin lúin og mátturinn tak-
markaður, að þér var ofar í
huga hvernig ég hefði það og
hvað mér væri kalt á hönd-
unum og tókst þá gjarnan
hendur mínar í þínar sem ávallt
voru hlýjar og notalegar, alveg
eins og þú. Oft kom ég til þín,
hafandi áhyggjur af þér, elsku
amma, því ég vissi hversu erfitt
og leiðinlegt þér þótti að drus-
last með þessa gömlu kerlingu
eins og þú sagðir svo oft sjálf
því í anda varstu alltaf bara
stelpan frá Syðra-Hóli, en
ávallt tókst þér að minnka
áhyggjurnar og láta mér líða
betur með þínu jákvæða hug-
arfari og æðruleysi.
Elsku amma, þín er sárt
saknað en ég ætla að hugga
mig við það að þú varst löngu
tilbúin í þetta ferðalag. Ég ætla
að trúa því að nú séuð þið sam-
einuð á ný, þú og afi, maðurinn
sem þú elskaðir svo innilega. Í
mínum huga voruð þið eitt og
einstök.
Knús og kossar frá mér og
mínum.
Þín ömmustelpa,
María Jóna.
Elsku dásamlega, fallega
Maja amma okkar. Við kveðj-
um þig í dag með mikla sorg í
hjarta en yljum okkur á móti
með fullt af fallegum minning-
um um þig. Að hafa átt þig sem
ömmu var dásemdin ein. Alltaf
ljúf, alltaf hlý, alltaf glöð, alltaf
fín, svo vissir þú allt og varst
svo dugleg að fræða okkur hin
sem vorum í kringum þig. Þær
eru ófáar góðu pönnukökurnar
sem við erum búin að borða hjá
þér.
Þú áttir engan þinn líka í
þeirri list. Bakandi ofan í fólkið
þitt á öllum hellum og við tók-
um bara endalaust við. Að hafa
búið á efri hæðinni í rúm fimm
ár finnst okkur vera forréttindi.
Okkur leið svo vel hjá þér enda
ekki annað hægt. Það mynd-
aðist afar fallegt samband, sem
varði alla tíð, á milli þín og Ív-
ans Árna, sem var nánast dag-
lega hjá þér meðan við bjugg-
um hjá þér. Við vitum og trúum
því að Jón afi hafi tekið þér
fagnandi með opinn faðm. Sam-
einuð á ný skottist þið nú um,
sæl og glöð.
Hvíldu í friði, elsku Maja
amma okkar.
Við elskum þig endalaust,
Róbert, Aðalheiður,
Ívan Árni, Dagur
Freyr og Patrik Máni.
Maja systir var búin að lifa
langa ævi og kom því ekki á
óvart er hún kvaddi þennan
heim að kvöldi 2. febrúar í frið-
sæld.
Minni sínu hélt hún nær
óskertu ævina á enda. Sérstak-
lega var hún minnug á vísur og
kunni ótalmargar sem hún var
óspör á að hafa yfir ef svo bar
við.
Þegar við töluðum saman í
síma um gamla daga hafði hún
oft yfir vísur um eða eftir fólk-
inu okkar. Vísur sem ég kunni
ekki, en skrifaði upp eftir henni
og eru mér dýrmætar nú. Hún
gætti mín þegar ég var lítil og í
raun sleppti hún aldrei af mér
hendinni. Gaf mér góð ráð og
leiðbeindi mér, ef ég þurfti á að
halda.
Ég var 14 ára þegar hún tók
mig með sér á ball. Ég fann að
hún fylgdist með mér í laumi,
en ég vissi að það var af um-
hyggju fyrir litlu systur.
Ég saknaði þess oft hve
langt var á milli okkar, en á
sumrin fórum við fjölskyldan
norður á Ströndina. Gisting var
sjálfsögð, ef á þurfti að halda.
Þar var gestrisni og heimilis-
hlýja í hávegum höfð. Þau voru
samtaka í því Maja og Jonni og
hallaðist ekki á.
Ekki var farið í manngrein-
arálit og skipti þá ekki máli
hvort um einstæðing eða ráð-
herra var að ræða, allir voru
velkomnir.
Það var henni mikið áfall
þegar sjón og heyrn fóru að
daprast. Hún hafði yndi af
lestri og mundi það sem hún
las.
Börnin hennar voru vakin og
sofin yfir velferð hennar, færðu
henni hljóðbækur og fleira til
dægrastyttingar.
Fjóla dóttir hennar bjó í
næsta húsi og aðstoðaði hana
sem best hún gat. Eitt sinn
þegar ég talaði við hana í síma,
sagði hún að Fjóla væri sem
augun sín.
Með þakklæti í huga kveð ég
og fjölskylda mín systur mína
og enda á vísu sem hún sendi
mér á sextugsafmæli mínu.
Þó að fenni í farin spor
og fjúki margt úr skorðum.
Við áttum saman sólrík vor
á Syðri-Hóli forðum
Við sendum börnum hennar
og afkomendum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Ásdís Magnúsdóttir
og fjölskylda.
Nú er hún Mæja mín búin að
kveðja þetta jarðneska líf og
mikið sakna ég hennar. Í gegn-
um árin, svo langt sem ég man,
hefur hún verið mér sem eldri
systir og vinkona og fyrir það
er ég henni ævinlega þakklát.
Hún hafði svo mikið að gefa og
var alltaf tilbúin að ræða og
fræða. Ég fékk að taka þátt í
90 ára afmæli hennar í Fells-
borg 1. maí 2009 og sendi henni
þá eftirfarandi afmælisljóð sem
ennþá túlkar hug minn til
hennar.
Mæja,veistu að ég vakti í nótt,
í vökuna hafa myndir sótt
í ljóma liðinna daga.
Við vorum svo ungar að árum þá,
með æskuvonir og heita þrá,
en gengin er gömul saga.
En lifið gefur oss marga mynd,
við miðuðum stefnu í beitivind
sem bar okkur yfir brotið.
Við stigum öldu í strangri önn,
í starfinu varst þú ætið sönn,
við átt höfðum, misst og notið.
Nú lítum við aftur æsku vor
– en óðum fennir í gömul spor
sem minningar margar geyma.
Við gröfum úr jörðu gefin pund,
og gleðjumst hér saman aftanstund
og ljúft er að láta sig dreyma.
Og afmælisbarninu bið ég klökk,
að blessi þig guð, og hjartans þökk.
Fyrir vináttu á okkar vegi.
Til hamingju, elsku Mæja mín,
mér er alltaf svo hlýtt til þín.
Nú gleðjumst á góðum degi.
Með innilegum samúðar-
kveðjum til fjölskyldu hennar
og guðsblessun.
Elísabet (Bebbý).
María
Magnúsdóttir
HINSTA KVEÐJA
Nú er komið að kveðju-
stund, elsku amma. Þú
varst orðin þreytt og farin
að bíða eftir þessu.
Takk fyrir að gera lífið
svo miklu fallegra og
skemmtilegra og allt sem
þú kenndir okkur. Alltaf
hafðir þú tíma og endalausa
þolinmæði fyrir okkur.
Söknum þín alltaf, elsku
amma
Sveinþór Ari, Lýður
Ragnar, Þórey Fjóla,
Guðjón Örn
og fjölskyldur.