Morgunblaðið - 04.11.2016, Side 44
44 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. NÓVEMBER 2016
ekki jafngóðum stökkum, hið lengsta
13,38 og varð 22. í röðinni.
Kepptu fyrir framan
100.000 áhorfendur
Íslendingarnir voru viðvaningar í
keppni á erlendri grund og því voru
það mikil viðbrigði fyrir þá að standa
á hinum mikla leikvangi umkringdir
að staðaldri af um 100.000 áhorf-
endum. Riðu Sveinn Ingvarsson og
Sigurður á vaðið, Sveinn í sjötta riðli
100 metra hlaupsins og Sigurður í
hástökki. Viðbragðið var jafnan
veika hlið Sveins en ekki að þessu
sinni. Rauk hann jafnt af stað með
hinum og var jafnhliða þeim í fyrstu.
Svo fór mismunurinn á flýti að segja
til sín og smátogna úr bilinu milli
keppinautanna. Varð Sveinn fimmti
af sex keppendum. Tveir fyrstu
menn fengu 10,7 sekúndur og var
Sveinn um fjóra metra á eftir þeim í
mark. Tími var aðeins tekinn á
fyrstu þremur, en áætlað var að tími
Sveins hefði verið 11,1 til 11,2 sek-
úndur. Hans riðill reyndist einn sá
sterkasti á leikunum.
Sigurður Sigurðsson stökk fyrstur
í öðrum tveggja stökkhópanna í há-
stökkinu. Fór hann strax í fyrsta
stökki yfir byrjunarhæðina, 1,60 m
og sömuleiðis næstu hæð, 1,70 m, en
þá hæð feldu ýmsir í fyrsta stökki í
báðum hópum. Milli stökka hélt Sig-
urður á sér hita undir ábreiðu sem
hann deildi með kanadískum keppi-
naut. Nokkrir keppendur voru falln-
ir úr leik er hann reyndi fyrst við
1,80 metra. Atrennan passaði ekki
og hann felldi rána. Hann lagðist
niður aftur og beið næsta stökks.
Kanadamaðurinn sá að Sigurður
hafði nóga hæð í stökkinu en stykki
upp of langt frá ránni. Ráðlagði hon-
um að stytta atrennuna og var ekki
að því að spyrja, yfir fór hann í
þriðju og síðustu tilraun yfir. Allar
tilraunir hans til að stökkva yfir
næstu hæð, 1,85 metra, sem var lág-
markshæðin inn í úrslitin, mistókust
hins vegar. Tók Sigurður fjölda
keppenda fram, meðal annarra frá
stórþjóðum, en þrístökkið var þó að-
algrein hans.
Hryssingslegt og hvasst
Skömmu fyrir leikana hafði Krist-
ján Vattnes bætt Íslandsmetið í
spjótkasti í 57,63 metra. Til að kom-
ast í aðalkeppnina í Berlín þurfti
hann að kasta 60 metra. Hvasst var
og hryssingslegt var í veðri, en ekki
kalt, er keppni hans og Sigurðar í
þrístökkinu fór fram fimmtudaginn
6. ágúst. Leikvangurinn var fullskip-
aður áhorfendum strax um morg-
uninn. Eftir að þeir höfðu fengið
nudd byrjuðu þeir Kristján og Sig-
urður að liðka sig undir kappleikana,
spjótkastararnir með smáköstum og
þrístökkvararnir með smásprettum
og hoppum.
Á miðjum vellinum voru kast-
lengdirnar sýndar með línum frá 60
metrum, sem var lágmarkskast til
aðalkeppi. Styttri kastlengdir sáust
ógerla. Kristján náði ekki lágmark-
inu í köstum sínum, en hann var ekki
einn um það, því tíu aðrir spjótkast-
arar náðu því ekki heldur, þar á með-
al margir mjög góðir. Var hann í
miðjum hópi þeirra og áætlað að
lengsta kast hans hafi verið um 55
metrar. Köst sem náðu ekki yfir 60
metra lágmarkslínuna voru ekki
mæld en þeir sem köstuðu yfir 60 m
fengu að keppa í aðalkeppninni síðar
um daginn.
Sigurður í úrslit í þrístökki
Í undankeppni þrístökksins var
sömuleiðis aðeins keppt um hvort
menn næðu 14 m stökklengd. Þeir
sem það gátu áttu að keppa í úrslit-
um síðar um daginn, hinir voru úr
leik. Þetta var sú grein sem mestir
möguleikar voru taldir á að ná langt í
því Sigurður hafði stokkið um 14 m á
æfingum heima og eins í þorpinu fyr-
ir keppni. Þetta tókst. Fyrsta stökk
Sigurðar var talsvert yfir 14 metrum
en dæmt ógilt. Annað stökkið var
fullgilt og líka yfir 14 metrum. Hon-
um var því sagt að hætta og koma til
úrslitakeppninnar síðar um daginn.
Eftir hvíld heima í ólympíuþorpinu
lá leiðin út á leikvang aftur. Sigurður
var í nokkrum vafa um að honum
hefði heyrst rétt um þátttöku sína í
aðalkeppninni. Nafn hans hafði ekki
verið kallað upp meðal hinna er í að-
alkeppnina komust. Ólafur Sveins-
son þjálfari brá hratt við og spurðist
fyrir um þetta hjá dómurunum, sem
staðfestu að Sigurður væri meðal
keppenda í úrslitunum. Gekk Vest-
mannaeyingurinn til keppninnar en
tókst nú verr en um morguninn.
Náði hann aldrei aftur 14 metra
stökklengd og var svo um fleiri. Að-
almarkmiðinu hafði þá verið náð, að
stökkva yfir 14 metra og komast í úr-
slitin. „Þegar því var náð kom aftur-
kippurinn sem er svo alþekkt fyrir-
brigði undir líkum kringumstæðum.
Með þessum tveimur ágætu afrek-
um sínum hefir Sigurður unnið sér
ágætan orðstír,“ sagði Ólafur á sín-
um tíma í Morgunblaðinu.
Heyrði ekki nafnið
Daginn eftir, 7. ágúst, keppti Karl
Vilmundarson í tugþraut. Heyrði
hann ekki nafn sitt við nafnakall og
þurfti því að hlaupa einn er öllum
öðrum riðlum var lokið og kepp-
endur byrjaðir á næstu grein, lang-
stökkinu. „Auðvitað varð Karli svo
bilt við þetta, að allt fór út um þúfur
hjá honum og hann fékk versta tíma,
sem hann hefir fengið á sprettinum í
mörg ár, 12,6 sek. Í fyrra hljóp hann
100 metra á 11,5 sek. Er ekki að
undra að svo færi, því sterkar taugar
þarf til að manni fatist ekki undir
slíkum kringumstæðum,“ segir Ólaf-
ur.
Langstökkið fór fram strax á eftir
og gætti þar áhrifanna frá hugróti
því er Karl varð fyrir. Tvö af þremur
stökkum hans urðu ógild en hið eina
gilda mældist aðeins 5,62 metrar. Í
miðdegishléinu álitu Karl og aðstoð-
armenn hans ástæðulaust að hann
héldi keppninni áfram er svo ógiftu-
samlega hafði til tekist í byrjun.
Gekk hann því úr leik eftir þessar
tvær greinar ásamt tveimur öðrum
keppendum.
Owens gerir Hitler grikk
Berlínarleikanna er minnst í
íþróttasögunni fyrst og fremst fyrir
sigur bandaríska blökkumannsins
Jesse Owens í fjórum greinum.
Hlaut hann gull í 100 og 200 metra
hlaupi, 4x100 metrum og í lang-
stökki. Með því mistókst sú ætlan
Hitlers að nota leikana til að sýna
fram á yfirburði hins hvíta kyn-
stofns, aríans.
Leikarnir í Berlín voru þeir fyrstu
í sögunni sem sjónvarpað var frá.
Voru 25 sjónvarpsherbergi sett upp
á Stór-Berlínarsvæðinu svo almenn-
ingur sem ekki komst á völlinn gæti
notið þeirra.
Þrettán ára bandarísk stúlka að
nafni Marjorie Gestring sigraði í
dýfingum af bretti í Berlín. Er hún
enn þann dag í dag yngsti gull-
verðlaunahafi á Ólympíuleikum frá
upphafi. Hún var þó ekki yngst verð-
launahafa því 12 ára dönsk stúlka að
nafni Inge Sörensen vann brons-
verðlaun í 200 metra bringusundi.
Er hún enn yngsti verðlaunahafi
sögunnar í einstaklingsgrein.
Greinar sem í fyrsta sinn komust á
dagskrá Ólympíuleika voru körfu-
bolti, húðkeipasiglingar og handbolti
utanhúss. Alls voru þátttökuþjóðir
49 og keppendur 3.936, þar af 3.632
karlar og 331 kona. Skýrslur sýna,
að á þremur vikum í ólympíuþorpinu
neyttu íþróttamenn og fylgismenn
þeirra kjöts af 100 kúm, 91 svíni og
650 lömbum.
Sem áður segir notuðu nasistar
leikana til að halda úti gríðarlegum
áróðri um land allt meðan á leik-
unum stóð. Eftir seinna stríðið og
skiptingu Berlínar á yfirráðatíð
kommúnista féll ólympíusvæðið að
hluta í óhirðu. Lagði sovéskt setulið
svæðið undir sig og hafði þar meðal
annars miðstöð yfirheyrslna og
pyntinga.
Til Berlínar Frjálsíþróttahópurinn um borð í Dettifossi. Á myndinni eru Ólafur Sveinsson
þjálfari, Karl Vilmundarson, Sveinn Ingvarsson, Kristján Vattnes og Sigurður Sigurðsson.
Ljósmynd birt með leyfi ÍSÍ
Setningarathöfn Íslendingar ganga inn á leikvanginn í Berlín. Fánaberi er Kristján Vattnes.
Afreksmaður Með fernum gullverðlaunum í frjálsíþróttakeppninni gerði
Jesse Owens Hitler og áróðursmeisturum nasista mikinn grikk.
Lágmúli 5, 108 Reykjavík | Sími 571 5800 | gudrun@garun.is | garun.is
Ertu í sölu hugleiðingum?
Guðrún Antonsdóttir
Lögg.fasteignasali
Sími 697 3629
Viltu kraftmikinn fasteignasala sem
vinnur fyrir þig, er heiðarlegur og
traustur.
Bjóddu mér í heimsókn og fáðu frítt
söluverðmat og tilboð í söluferlið
þitt.