Morgunblaðið - 28.11.2016, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 28.11.2016, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 28. NÓVEMBER 2016 geri eitthvert gagn. Við eigum að lifa sterk í núinu, njóta líðandi stundar. Við eigum að rífa ill- gresið upp og leggja það undir sólarljós þar sem það visnar á einum sólarhring. Þannig fjölgar það sér ekki. Með þessu sköpum við meira næði í okkar innri garði til þess að rækta allt það jákvæða sem við höfum fengið í vöggu- gjöf. Í mínum huga er tilgangur lífsins sá að rísa undir þeirri ábyrgð að vera maður sem er trúað fyrir gersemum sem hann kann ekki að búa til en á svo auð- velt með að eyðileggja…. Fegurstu augnablikin í mínu lífi voru þegar dætur mínar, Þor- gerður og Karítas, fæddust, að vera trúað fyrir einstaklingum sem eru bara erfðir og áhrif eins og við öll. Það þarf mikið áræði til að rísa undir þeirri ábyrgð að vera trúað fyrir gersemum, trúað fyrir nýfæddum börnum og ala þau þannig upp að þau þurfi ekki að kvíða framtíðinni. Ég sæki friðsæld í þögnina og þegar maður gleymir sér í henni getur verið erfitt að koma til baka. Tíminn er það dýrmætasta í lífinu og sumir spyrja, sem hafa ekki kynnst friðsæld þagnarinn- ar, ætlastu til að við gerum ekk- ert í þrjár mínútur? Ég svara þá ævinlega: ekki prútta, bara anda og lifa. Engin spenna í sál, eng- inn kvíði, aðeins samhljómur á milli líkama og sálar, dásamleg vitund. Í þögninni skapast þægi- leg tilfinning í öllum líkamanum, við finnum hvergi til og allt er í jafnvægi. Lífið er krefjandi því það er sótt að okkur úr öllum áttum með svo ömurlegum áróðri og nei- kvæðni að eini griðastaðurinn er þögnin. Það eru algjör forréttindi að geta horfið inn í hana þegar manni hentar. … Fólk sem gengur orkunni skil- yrðislaust á vald á eftir að upp- skera ríkulega. Tilgangur lífsins er að ná því markmiði sem heil- brigð manneskja hefur sett sér því heilbrigð manneskja velur rétt og þarf þar af leiðandi ekk- ert að óttast.“ Gunnar Eyjólfsson kenndi mér að anda rétt. Ég naut þess að vera með honum í chi-gong ár- um saman, í þögn og nærandi æf- ingum. Ég mun sakna Gunnars og votta hans nánustu samúð mína. Blessuð sé minning hans. Þorgrímur Þráinsson. Síminn hringir. Gunnar svar- ar. Hann byrjar að tala um mál- efni líðandi stundar og brátt berst talið að stjórnmálum. Ég hægri maður og hann krati. Eftir að hafa rifist í nokkurn tíma seg- ist hann þurfa að hætta, en segir að lokum: „Þetta var flott hjá þér, en þú þarft að dýpka rödd- ina.“ Ég hafði verið í framsögn hjá Gunnari Eyjólfssyni og hann notaði hvert tækifæri til að prófa mig. Ég kynntist Gunnari fyrir um tíu árum, þegar mér var vísað til hans af sameiginlegum vini. Þá var hann að verða áttræður og enn í fullu fjöri að leika og kenna. Hann kenndi mér margt og ég á honum margt að þakka. Ég mun ávallt minnast hans með þakk- læti. Garðar Páll Gíslason. Það er svo um nokkra þá menn sem hafa lýst upp tilveru okkar með framlagi sínu til lista og bók- mennta að það er sem við eigum furðumörg okkar eigin sögu af samfylgd okkar með þeim. Víst er að við mörg eigum okkar Gunnarssögu Eyjólfssonar – og mín Gunnarssaga varð um margt furðu sterkur þáttur af sjálfum mér. Gunnar var að ljúka leiknámi hjá Lárusi Pálssyni þegar ég sá hann heima í Keflavík vorið 1945 leika á skátaskemmtun í einþátt- ungi sem byggður var á frægum kafla úr Vesalingunum eftir Vic- tor Hugo. Hann lék strokufang- ann Jean Valjean, sem góðvilj- aður biskup bjargar á flótta og er annar maður síðan. Ég var níu ára gamall og fannst að ég hefði aldrei séð leikið fyrr svo um munaði. Síðan fylgdist ég sem aðrir Keflvíkingar með því æv- intýri að Gunnar hélt til leiknáms í London og stóð sig með miklum ágætum – og þetta voru þeim mun meiri tíðindi fyrir okkur sem vorum að vaxa úr grasi vegna þess að á þeim dögum var okkar tilvera öll bundin sjó- mennsku og sjávarafla og ólík- legt að nokkur reyndi sig við sjaldgæfar námsbrautir á fram- andi slóðum. Enginn fór neitt. En Gunnar vann sína sigra, kom heim og lék Galdra-Loft og fleiri stór hlutverk í höfuðstaðnum, þeysti um landið með Sex í bíl, lék í kvikmynd. Hann var að sprengja ramm- ann eins og það heitir og það var gott fordæmi. Eins og það að hann var alla stund mjög hollur í huga heimahögum sínum. Hvort sem Keflvíkingar hrifust af frama hans og list skilmálalaust eða settu sína fyrirvara um þá hluti í anda þröngra kjara og hagsýni. Eins og ágæt móður- systir Gunnars gerði þegar hann kom til hennar í Keflavík og sagði mikil tíðindi úr leiklistinni: Já, það er ágætt, Gunnar minn, sagði hún, en hvenær ætlar þú að hætta þessu leikveseni og fá þér almennilega vinnu? Svo líður fram tíminn og nú fæ ég ekki aðeins að fylgjast með Gunnari á sviði þegar hann gerir orð Péturs Gauts og Hamlets og annarra frægra persóna að sín- um – svo vildi til að um sama leyti og sú gullöld hófst var ég að byrja í menningarblaðamennsku og fékk að fylgjast með æfingum og spyrja Gunnar í þaula um list og líf. Seinna lærði ég af honum Qigong mér til hugarheilla. Og þegar við svo vorum gamlir menn orðnir báðir tók ég að mér að skrifa ævisögu hans, sem út kom árið 2010 og kölluð var „Al- vara leiksins“. Það var lærdómsríkt starf og gleðigjafi. Á hverjum okkar fundi var það staðfest hve ágætur sögumaður Gunnar var, hve vel hann kunni með stórtíðindi æv- innar að fara og svo það hve rík- ur hann var af velvild til sam- ferðamanna sinna, þótt hann svo sjálfur léti upp efa um að hann væri „eins góður maður og marg- ir halda“. Við töluðum margt um listina langlífu, um glímuna við Guð og átökin um réttlæti í samfélaginu. Og eins víst að hvar sem við byrjuðum kæmum við fyrr en síðar að þeirri veröld sem var og við áttum saman í Kefla- vík með því fólki sem fyrst leið- beindi okkur um tilveruna og við stóðum ávallt í ljúfri þakkarskuld við. Verði honum moldin létt sem fiður. Árni J. Bergmann. Skákmót á Mallorca síðla árs 1989. Við vorum á gönguferð í gamla hluta Palma þegar við hittum Gunnar Eyjólfsson þar sem hann stóð við dómkirkjuna og það var ein af þessum tilvilj- unum lífsins þegar ný kynni tak- ast sem haldast alla tíð. Sögu- stundir voru margar á þessu ferðalagi. Gunnar jós úr sínum ótrúlega sagnabrunni og við hrif- umst af hæfileikum og góðri nær- veru þessa fræga leikara. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta væri líklega sá maður sem með agaðri og uppbyggjandi leið- sögn gæti þjappað liðinu saman þannig að úr hverjum manni næðist hið allra besta. Upp úr áramótum 1990 kom fram sú hugmynd að bjóða Gunn- ari með á Ólympíuskákmótið í Novi Sad í Júgóslavíu sem ein- hverskonar andlegum leiðtoga. Gunnar var þá niðursokkinn í austræna heimspeki, chi-gong, og vorum við meðal þeirra fyrstu sem nutu leiðsagnar hans. Chi- gong er blanda af öndunaræfing- um og leikfimi; „bogamaðurinn“ og „knapinn í ánni“ voru nöfn á tveim æfingum. Hann hafði stundum orð á því að það vantaði einhverja fegurð í þessar æfingar okkar en við tókum því vel. Á liðsfundi var byrjað á chi-gong, að því búnu las hann kannski upp úr verkum Einars Benediktsson- ar, skáldsins sem snaraði Pétri Gaut. Sjálfsagt hafa keppnislið ýmsar aðferðir við að koma sér í gírinn fyrir mikilvægar viður- eignir en að hlusta á Gunnar Eyj- ólfsson þruma yfir hópnum Útsæ Einars Benediktssonar er áreið- anlega óvenjuleg aðferð. Hann lagði á það áherslu að menn fyndu sér annað og æðra takmark en að svala persónuleg- um metnaði; á leiðinni út á völl í fyrstu ferðinni bað hann bílstjór- ann að stöðva bílinn í myrkrinu, gekk út og kom aftur með stein- völu: „Þetta er Ísland,“ sagði hann. „Við tökum það með“. Á ólympíumótinu höfðu kín- versku liðsmennirnir fullkominn skilning á hlutverki hans og ávörpuðu hann með hátíðlegum titli: Honorable psychological trainer. Á skákstað sat hann á sínum stól í „stjórnaðri stöðu“ og fylgdist vel með öllu sem þar fór fram. Í Manila á Filippseyjum árið 1992 náði íslenska sveitin sínum allra besta árangri með hjálp Gunnars. Þar tóku tal saman snillingar tveir, Gunnar Eyjólfs- son og Garrí Kasparov, sem var óvenju kumpánlegur í það skiptið og kvaðst vita upp á hár hvaða hlutverki Gunnar gegndi. En svo varð heimsmeistarinn kjaftstopp þegar Gunnar gaf honum það ráð að „reisa nú fram makkann“, hann væri alltof lotlegur og setti síðan á svið smáleiksýningu um það hvernig færi fyrir mönnum sem bæru sig svona og komnir væru á efri ár. Þetta var gagn- rýni sem við vorum vanir og bú- um að. Á þessum ferðum ræddum við hvílík feikna áhrif trúin hlyti að hafa haft á lífsafstöðu Gunnars, ósérhlífni, ögun og vinnubrögð. Á hótelherbergi sínu hafði hann uppi mynd af Maríu guðsmóður og nokkur kerti í kring. Hann talaði stundum um það að þegar kallið kæmi þá væri hann tilbú- inn. Við fráfall hans viljum við votta eiginkonu hans, Katrínu Arason, dætrum og fjölskyldu samúð okkar með þakklæti fyrir ógleymanlegar samverustundir. Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason og Margeir Pétursson. Um það bil sjö ára vorum við krakkarnir og Gunnar 14 ára þegar hann hélt magnaða jarð- arfararræðu yfir vængbrotnum hrafni í fjörunni í Keflavík. Við hágrétum öll. Þetta voru mín fyrstu kynni af Gunnari. Gunnar var sannarlega mögur Keflavík- ur. Allur bærinn fylgdist með öllu sem hann tók sér fyrir hend- ur. Ungur hóf hann að leika hvert hlutverkið af öðru, fyrst hjá barnastúkunni, hjá Framnes- systrum, þeim Guðlaugu og Jón- ínu, og svo hjá skátaforingjanum Helga S. Jónssyni. Það var mikið um leiklist í Ungó í Keflavík í þá daga. Og öllum var ljóst að leik- listarbrautin lægi fyrir Gunnari. Hann stundaði alltaf skátafélagið sitt, Heiðabúa, þegar hann kom heim í fríum frá námi í Reykjavík og London. Bæjarbúar fylgdust náið með honum. Og Keflvíkingar urðu ekki fyr- ir vonbrigðum því Gunnar reynd- ist afbragðsleikari. Þegar maður hugsar um hinn stórbrotna feril hans kemur Pétur Gautur fyrst í hug. Það er eins og Ibsen hafi samið þetta verk beint fyrir hann. Gunnar var stórleikari. Öll- um þeim ótalmörgu hlutverkum sem hann lék skilaði hann alltaf á stórbrotinn og eftirminnilegan hátt. Og ég tel að enginn íslesnk- ur leikari hafi leikið fleiri hlut- verk en Gunnar. Hann lék mörg af stærstu og veigamestu hlut- verkum leikbókmenntanna, æv- inlega á ógleymanlegan máta. Hann lagði mikla áherslu á fram- sögn og jafnvel þegar hann þurfti að tala lágum rómi, heyrðist hvert einasta orð á aftasta bekk. Gunnar var ekki aðeins stór- brotnasti leikari landsins, hann var líka stórbrotinn maður. Hann var skátahöfðingi í fjölda ára, sat í mörgum ráðum og nefndum, rak Talskólann sinn í mörg ár og kenndi í Þjóðleikhússkólanum. Hann fór fyrir móttöku Jóhann- esar Páls páfa þegar hann kom til landsins, lét smíða krossinn stóra í Póllandi af því tilefni, en hann gnæfir nú yfir Úlfljótsvatni. Hann stundaði og kenndi qi-gong og einnig stundaði hann hesta- mennsku um langt árabil. Og þó er margt ótalið sem hann stóð fyrir og lét af sér leiða. Ég er honum ævinlega þakk- látur fyrir að hafa átt vináttu hans allt frá barnsaldri til dags- ins í dag. Blessuð sé minning hans. Ég vil votta Katrínu og fjöl- skyldu þeirra allri innilega sam- úð mína. Gísli Alfreðsson. 1960 voru vegir landsins mjóir og seinfærir malarvegir og slóð- ar. Þá kynntist maður vel sam- ferðafólki sínu við það að hossast með því í bíl heilt sumar um land- ið þvert og endilangt til að skemmta fólki á meira en 30 hér- aðsmótum. Þetta gerðum við Gunnar Eyjólfsson og hann varð fyrsti og eini maðurinn í lífi mínu sem ávarpaði mig: „Ommi minn.“ Það varð tákn um einlæga vin- áttu sem entist meðan báðir lifðu. Gunnar var maður stórbrotinnar og fjölbreytilegrar listsköpunar, djúphygli, hjartahlýju og lífs- kúnstar, og að leiðarlokum finnst mér það skylda mín að halda því til haga hvernig hann í samstarfi við Bessa Bjarnason ruddi nýja braut í skemmtiatriðum hér á landi eftir að hafa dvalið og starf- að í Bandaríkjunum um árabil. Gunnar hafði kynnst því nýjasta og besta hjá heimsþekktum skemmtikröftum vestra og með samvinnu við handritshöfund hér heima útbjuggu þeir Bessi tíma- móta skemmtiþátt, sem þeir fluttu á skemmtunum veturinn 1958-59. Þetta var tveggja manna uppistand í stíl Abbotts og Costello og Dean Martins og Jerry Lewis og snerist um inn- lögn bresks sjómanns á sjúkra- húsið á Patreksfirði í nýbyrjuðu þorskastríði. Óborganleg skemmtun. Kynni mín af Gunn- ari og Bessa hófust þennan vet- ur, því að ég braust á sama tíma inn í skemmtanalífið með nýstár- legri blöndu 18 ára unglings af uppistandi, eftirhermum og grín- og ádeilusöngvum við vinsælustu rokklögin. Í þessari innrás okkar þriggja inn í dansk-íslenska rev- íuumhverfið, sem hafði sett mark sitt á skemmtiatriði hér á landi, hittumst við kannski oftar en einu sinni á kvöldi sem nokkurs konar byltingarmenn. Ári síðar rugluðum við Gunnar síðan sam- an reytum okkar á héraðsmótum sjálfstæðismanna um allt land. Síðar fetuðu aðrir leikarar eins og Árni og Klemenz og Róbert og Rúrik í fótspor Gunnars og Bessa, og enn síðar Radíusbræð- ur og Fóstbræður. Nú er þessi hjartkæri vinur minn allur og ég bið aðstandendum hans blessun- ar. Þegar höfðingi kveður er höfði drúpt og honum að þakka er skylt og ljúft. Ómar Ragnarsson. Kynni okkar Gunnars Eyjólfs- sonar hófust fyrir tæpum 30 ár- um, við þekktum báðir qi gong, kínverskar lífsorkukæfingar. Í nóvember 1992 skipaði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra okkur í nefnd um skipulag og rekstrarform stofnunar er veitti æðri menntun í listum. Vorið 1993 lagði nefndin grunn að Listaháskóla Íslands. Á þessum árum tókst vinátta okkar. Hann bauð mér í Karmelklaustrið í Hafnarfirði, í messur og að hitta nunnurnar, vinkonur sínar sem hann mat og virti af öllu hjarta. Við hófum síðan að stunda qi gong-æfingar saman og Gunnar þróaði kerfið sem kynnt var síð- an í bókinni Gunnarsæfingarnar árið 2013. Hann vildi að Aflinn, félag qi gong-iðkenda, yrði stofn- að árið 2002 og tók loforð af mér að gegna þar formennsku á með- an hann lifði. „Við höfum mikið á samviskunni, Björn,“ sagði hann oft og vísaði til þess hve margir hefðu tekið að stunda qi gong. Ég svaraði jafnan að væri ekkert al- varlegra en þetta á samvisku okkar, þyrftum við engu að kvíða. Síðast skiptumst við á þessum orðum 7. nóvember 2015 þegar við ókum saman í Skálholt til að minnast aftöku Jóns Ara- sonar og sona hans. Skálholt var mesti helgistaður landsins í augum Gunnars. Í Skálholti hefði píslarvotturinn Jón Arason úthellt blóði sínu. Það var opinberun að kynnast Gunnari vegna qi gong og tengsl- anna við Karmel-nunnur. Hann gætti þess jafnan að gæta trúar- legs hlutleysis við qi gong-æfing- arnar en undir niðri bjó jafnan trúarhitinn. Hann sagði: „Í hugleiðslu gerum við okkur aðgengileg, opnum okkur fyrir hinum mikla krafti sem ber ýmis nöfn: lífskraftur, orka, Guð. Hug- leiðsla er ræktun – að gera sig aðgengilegan án þess að biðja um eitthvað. Við biðjum um mikið en við hlustum ekki nóg. Þyljum bænir í sífellu í stað þess að njóta þagnarinnar með opinn huga.“ Hann hreifst af John Main sem sagði skilið við bresku utan- ríkisþjónustuna og gerðist prest- ur í Benediktína-reglunni og stofnaði hugleiðsluhópa í stór- borgum með möntruna mara- þana að leiðarljósi, eina fyrstu bæn kristinna manna. Gunnar sagði stundum: „Ég dái mest hljóðfæraleikara og tré- smiði. Jú, sjáið til. Hvers virði væri 9. sinfónía Beethovens ef hún væri ekki annað en nótur á stórum handritaörkum meistar- ans? Við þurfum að heyra hana flutta til að kynnast henni, hrí- fast af hverjum tóni, hverri stroku fiðluleikarans, hverjum hljómi blásarans og hverju bjölluslagi. Hvers virði er upp- dráttur arkitektsins, ef enginn er til að smíða húsið?“ Gunnar blés lífi í margan text- ann með flutningi sínum. Mér eru þó minnisstæðari stundirnar með honum í móttökustofu Kar- mel-nunna eða setustofunni í Skálholtsskóla þar sem hann fór á slíkt flug með orðkynngi sinni og frásagnarlist að við hin sátum agndofa. Qi gong-iðkendur njóta með þökk ávaxta af starfi Gunnars. Við eigum minningar um ógleymanlegan mann og vin. Gunnar var sannfærður um að Jesús tæki sér opnum örmum, hafði dreymt það. Við Rut færum Katrínu, Karit- as, Þorgerði Katrínu og fjöl- skyldum þeirra innilegar samúð- arkveðjur. Blessuð sé minning Gunnars Eyjólfssonar. Björn Bjarnason. Góður drengur er fallinn frá. Gunnar Eyjólfsson leikari kom oft í kaffi til mín að spjalla, þar sem ég var með fyrirtækið mitt Hljóð og mynd kvikmynda- gerð ehf. á þriðju hæð Skúlagötu 61, Reykjavík. En þar vann ég m.a. við að talsetja teiknimyndir fyrir Stöð 2. Gunnari var umhug- að um íslenska tungu, og var með Morgunblaðið/Ómar Gunnar Eyjólfsson var heiðraður fyrir ævistarf í þágu sviðslista á Grímunni árið 2013.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.