Dagblaðið Vísir - DV - 22.05.2015, Side 26
Helgarblað 22.–26. maí 201526 Umræða
F
lugfarþegi (F): „Ég ætla að
fá bjór.“ Tollafgreiðslumaður
(T): „Gjörðu svo vel, ertu
flugmaður?“ F: „Nei.“ T: „Þá
hlýturðu að vera sjómaður.“
F: „Nei.“ T: „Þá ertu í utanríkisþjón-
ustunni.“ F: „Nei, af hverju spyrðu
maður?“ T: „Nú þá færðu engan
bjór!“
Þetta samtal úr áramótaskaupi
ríkissjónvarpsins 1979 er lýsandi
fyrir það ástand sem ríkti í bjórinn-
flutningsmálum þess tíma. Á þeim
árum var öll sala áfengs öls bönnuð,
en áhöfnum skipa og flugvéla var
aftur á móti heimilt að taka með sér
bjór inn í landið. Mál þessi komust
í hámæli skömmu áður þegar borg-
ari nokkur, sem ekki tilheyrði áð-
urnefndum stéttum, reyndi að fara
með kassa af bjór í gegnum tollinn á
Keflavíkurflugvelli og það án leynd-
ar. Umræddur borgari var þjóð-
kunnur iðnrekandi, Davíð Scheving
Thorsteinsson.
Hvert mannsbarn á Íslandi
þekkti Davíð á þeim tíma. Hann
hafði þá um áratugaskeið rekið iðn-
fyrirtækin Smjörlíki og Sól og allir
þekkja framleiðsluvörurnar Ljóma,
Svala, Trópí og Ís-Cola, en Davíð var
einnig áberandi í forystustörfum
fyrir íslenska iðnrekendur.
Davíð kaupir ölið
Davíð sagði svo frá þessu í viðtali við
Vísi: „Ég kom heim frá útlöndum 15.
desember síðastliðinn og keypti þá
einn kassa af bjór í fríhöfninni, alls 12
flöskur. Ég var búinn að hugleiða það
í mörg ár hversu miklum rangindum
menn væru þarna beittir og allt í einu
sauð þarna upp úr og ég keypti bjór-
inn.“
Davíð var á leiðinni heim frá
Lúxem borg. Hann lagði flöskurnar
ofan á ferðatöskurnar og gekk að toll-
hliðinu. Honum var boðin dómsátt í
„smyglmáli“ og var sagður hafa „gert
tilraun til að smygla bjór inn í landið“.
Grípum niður í frásögn Davíðs: „Ég
sagði tollvörðunum að ég væri engu
að smygla, allir gætu séð að ég ætlaði
að hafa með mér bjór eins og flug-
liðarnir gerðu og ég ætlaði að njóta
sömu réttinda og þeir.“ Bjórinn var
gerður upptækur og honum tjáð
hann yrði kærður í framhaldinu.
Samkvæmt þágildandi reglugerð
frá árinu 1975 máttu allir ferðamenn
hafa meðferðis tiltekið magn áfengis
inn í landið. Áfengt öl var þó undan-
skilið. Áhafnir skipa sem voru 20
daga eða lengur utan íslenskrar lög-
sögu máttu hafa með sér 48 flöskur af
bjór inn í landið. Ef skip væru skem-
ur í ferð minnkaði skammturinn í
24 flöskur. Flugliðar máttu svo hafa
meðferðis 12 flöskur. Samkvæmt
fréttum Vísis fluttu flugliðar um 80
þúsund flöskur af bjór inn í landið á
ári hverju.
Brot á stjórnarskrá
Davíð Scheving taldi umrædda mis-
munun ekki standast stjórnarskrá.
Allir borgarar landsins ættu rétt á
að hafa meðferðis bjór inn í landið,
óháð því hvort þeir skrýddust ein-
kennisbúningi eða ekki. Hann
sagði svo frá að sér hafi gramist að
dóttir hans sem var flugfreyja mætti
hafa með sér bjór inn í landið „í
krafti þess að hún væri starfsmaður
ákveðins fyrirtækis, en ekki ég af
því ég starfaði annars staðar“. Davíð
sagði svo: „Mér fannst að með þessu
væri fólk ekki jafnt fyrir lögunum,
enda voru engin ákvæði um slíkt í
stjórnarskrá þegar ég fór að athuga
málið.“
Davíð hélt baráttu sinni áfram
og fleiri lögðust á árarnar. Í umræð-
um um málið var því meðal annars
velt upp að banna með öllu að flug-
áhafnir og farmenn fengju að hafa
bjór með sér inn í landið. Sjómenn
mótmæltu því og töldu tollfríð-
indin hluta af starfskjörum sínum.
Um þetta fórust Davíð svo orð: „Sú
röksemdafærsla að þetta sé í kjara-
samningum þykir mér tómt píp, ef
hún er notuð. Þá gætum við Guð-
mundur J. [formaður verkamanna-
félagsins Dagsbrúnar] alveg eins
sest niður og samið í einum hvelli
um bjórinn til handa öllum laun-
þegum.“
Stjórnvöld gefa eftir
Mál Davíðs Scheving fór aldrei fyrir
dómstóla. Þegar það var kannað af
yfirvöldum kom í ljós að forsendur
þess að leyfa aðeins flugáhöfnum
að flytja bjór til landsins voru í
meira lagi hæpnar. Þá sat að völd-
um minnihlutastjórn Alþýðuflokks-
ins og hinn 31. janúar 1980 setti
Sighvatur Björgvinsson fjármála-
ráðherra reglugerð þess efnis að eft-
irleiðis yrði ferðamönnum heimilt
að flytja með sér bjór inn í landið.
Gátu þeir þá valið milli þess að taka
með sér eina flösku af sterku víni og
eina af léttu, eða þess að taka með
sér eina flösku af sterku víni og tólf
flöskur af bjór. Sighvatur kvaðst telja
rétt að allir landsmenn sætu við
sama borð í þessum efnum og sjó-
menn og flugáhafnir nytu ekki for-
réttinda. Blaðamaður spurði Sig-
hvat hvort bjórinn væri með þessu
ekki kominn með annan fótinn
inn í landið. Ráðherrann taldi svo
ekki vera. Um væri að ræða mjög
takmarkað magn sem kæmi inn í
landið með þessum hætti.
Morgunblaðið ræddi við Davíð
af þessu tilefni og hann sagði: „Að
mínu mati á Sighvatur Björgvins-
son fjármálaráðherra heiður skilinn
fyrir að taka svo rösklega og réttilega
á málinu eins og raun ber vitni.“
Blaðamaður innti Davíð álits á því
hvort hann teldi að samt sem áður
væri ekki verið að mismuna borgur-
unum, því aðeins þeir sem ferðuð-
ust til útlanda ættu rétt til að kaupa
bjór. Um það fórust Davíð svo orð:
„Jú, það er alveg rétt og það má segja
að þeir sem oft ferðast til útlanda
njóti enn frekari réttinda heldur en
þeir sem sjaldan fara, og svo þeir
sem heima sitja fá engan bjór. Það
er næsta skrefið í málinu að berjast
gegn því óréttlæti.“
Bjórbannið „barbarismi“
Fjölmargir þökkuðu Davíð framtak-
ið í þessu réttlætismáli og fyrstu flug-
farþegarnir sem kaupa máttu bjór
mættu með flugi 801 Flugleiða frá
Lúxemborg eldsnemma að morgni
1. febrúar 1980, en vélin var á leið til
Chicago. Fyrsti farþeginn sem hélt
inn í Fríhöfnina skundaði þegar að
léttvínstegundunum. Blaðamaður
vatt sér að honum og spurði hvort
hann ætlaði ekki að nýta sér heim-
ildir hinnar nýju reglugerðar. Far-
þeginn svaraði: „Hvað ertu að segja,
er búið að breyta þessu? Þetta kem-
ur mér sannarlega á óvart – en ég
er himinlifandi.“ Og bætti við: „Er
ég sá fyrsti? Þetta er heilmikil upp-
lifun.“
Annar flugfarþegi mælti fyrir
munn margra þegar hann sagðist
vera á móti forréttindum og bætti
því við að nú eftir reglugerðar-
breytinguna mætti með sömu rök-
um selja bjór í Áfengisverslun
ríkisins og á veitingahúsum. Ferða-
menn, farmenn og flugliðar ættu
ekki að sitja einir að krásunum. Er-
lendur farþegi úr sama flugi kvaðst
í sannleika sagt aldrei hafa skilið
bjórbannið á Íslandi á sama tíma og
sala sterkari tegunda væri leyfileg.
Fulltrúi í tollgæslunni á Keflavíkur-
flugvelli sagði að útlendingar hafi
átt erfitt með að skilja bannið „og
kallað þetta hreinan barbarisma“.
Alls liðu rúm átta ár þar til bjór-
frumvarpið svonefnda var sam-
þykkt eftir langar og strangar um-
ræður á Alþingi. Borgaraleg óhlýðni
Davíðs Scheving átti sinn þátt í að
hreyfa við málinu, sem leiddi til
þess að bjórbannið var endanlega
afnumið. n
Björn Jón Bragason
bjornjon@dv.is
Fréttir úr fortíð
Bjórinn aðeins
fyrir flugáhafnir
n Forréttindi flugliða og farmanna n Reglugerð breytt í kjölfar borgaralegrar óhlýðni
Davíð vildi kaupa ölið Davíð Scheving
Thorsteinsson taldi sanngjarnt að geta
keypt öl.
„Ég sagði
tollvörðunum að
ég væri engu að smygla,
allir gætu séð að ég ætl-
aði að hafa með mér bjór
eins og flugliðarnir gerðu
og ég ætlaði að njóta
sömu réttinda og þeir. Þakklát Fjölmargir þökkuðu Davíð framtakið í þessu réttlætismáli.
Borgaraleg óhlýðni Alls liðu rúm átta ár
þar til bjórfrumvarpið svonefnda var sam-
þykkt eftir langar og strangar umræður á
Alþingi. Borgaraleg óhlýðni Davíðs Scheving
átti sinn þátt í að hreyfa við málinu.
Hótel Saga, Hagatorgi • 107 Reykjavík • Sími: 511 2111 og 862 0822 (utan opnunartíma)
Láttu þér líða vel
meccaspa.is
Opnunartími
Virka daga frá kl. 7.00 - 20.00
Laugardaga frá kl. 9.00 - 18.00
Sunnudaga frá kl. 10.00 - 14.00
Tökum vel á móti hópum af öllum stærðum, einnig utan hefðbundins opnunartíma. Dekur í boði.