Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.09.2016, Blaðsíða 46

Læknablaðið - 01.09.2016, Blaðsíða 46
414 LÆKNAblaðið 2016/102 O R Ð A N E F N D Jóhann Heiðar Jóhannsson formaður orðanefndar johannhj@landspitali.is Fyrsta íslenska orðasafnið í læknisfræði, Íslenzk læknisfræðiheiti (Nomina Clinica Islandica), var gefið út í bókarformi árið 1954. Höfundur var prófessor Guðmundur Hannesson, sem áður hafði gefið út Íslensk líffæraheiti (Nomina Anatomica Islandica). Margir læknar lögðu hönd á plóginn í nýyrðasmíð á 20. öldinni, en segja má að almenn og skipulögð íðorðastarfsemi í íslenskri læknisfræði hafi ekki hafist fyrr en með stofnun Orðanefndar læknafélag- anna árið 1983. Nefndin starfaði af mikl- um krafti í rúman áratug og með þátttöku margra áhugasamra lækna. Á árunum 1985-1989 gaf hún út „Íðorðasafn lækna“ í 14 litlum heftum (stafkaflana A-VWXYZ) og síðan á árunum 1995-1996 latnesk-ís- lensk líffæra-, vefja- og fósturfræðiheiti og ensk-íslensk sjúkdómaheiti (ICD-10). Haldið var áfram útgáfu á afmörkuðum sviðum með bæklingunum „Norræn flokkun slysa og annarra óhappa“ (1996) og „Handbók um geðraskanir og skyld heilbrigðisvandamál“ (1999). Eftir það lá útgáfustarfsemin niðri um langt skeið. Íðorðasafn lækna, sem nú telur rúm- lega 33.000 læknisfræðileg heiti, var gert aðgengilegt í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar árið 1998. Frá þeim tíma hefur fagfólk og allur almenningur getað flett upp í safninu og fundið íslensk, ensk og latnesk læknisfræðiheiti á einfaldan hátt (ordabanki.hi.is/wordbank/search). Frá upphafi var augljóst að íðorða- starfsemi snerist ekki um það eitt að gefa út tiltekin rit með tímabundnu átaki, heldur yrði hún að vera stöðugt lifandi og í sífelldri endurskoðun. Með því mark- miði hóf undirritaður ritun íðorðapistla í Fréttabréf lækna árið 1989 og hélt því áfram í Læknablaðinu fram til ársins 2008 er ritstjórn blaðsins tók þá óskiljanlegu ákvörðun að hætta stuðningi sínum við íðorðastarfsemina. Þá höfðu verið birtir 207 pistlar. Tímaritið Lyfjatíðindi tók þá við kyndlinum að beiðni undirritaðs og eru íðorðapistlarnir nú orðnir nærri 240 frá upphafi. Sá er þó hængurinn á að það tímarit hefur verið gefið út í mjög fáum tölublöðum á hverju ári og hafa pistlarnir því ekki getað orðið nógu margir. Markmiðið með pistlaskrifunum var alltaf að halda umræðunni vakandi og taka við fyrirspurnum og tillögum lækna og annarra um ný íslensk orð í læknis- fræði og endurbætur á þeim eldri. Þróun á öllum sviðum heilbrigðisfræða krefst þess að íðorðaforðinn sé alltaf í vinnslu og endurskoðun. Ný þekking, tækni, tæki og tól, kalla stöðugt á ný fræðileg heiti. Íslenska íðorðastarfsemin hefur síðan það viðbótarmarkmið að notuð séu íslensk orð og heiti í daglegum, fræðilegum samskipt- um. Metnaðurinn fyrir hönd íðorðastarf- seminnar er sá að við sættum okkur ekki við hraðsoðnar erlendar slettur, heldur búum alltaf til og reynum að nota góð íslensk heiti á fræðilegum og faglegum fyrirbærum, sérstaklega þegar rætt er við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Læknar hafa oft sett fram gagnrýni á einstök íslensk orð og fræðiheiti sem varð- veitt eru í Íðorðasafni lækna. Sum heitin byggjast á þeirri aðferð, sem oft er notuð við íðorðasmíð, að taka upp orð úr fornu máli til nýrra nota. Oft tekst þetta vel, einkum þegar orðin eru stutt og lipur, en séu gömlu orðin nútímamönnum algerlega framandi getur farið svo að þau nái aldrei fótfestu. Annað vandamál eru löng og margsamsett erlend fræðiheiti, sem sett hafa verið saman til að lýsa tilteknu fyrir- bæri eða hugtaki mjög nákvæmlega. Bein þýðing getur gefið jafn nákvæmt íslenskt heiti, sem er þá oftast eins stirðlegt og erlenda heitið og getur orðið læknum til enn meiri ama en það erlenda. Mjög erfitt er oft að búa til eða finna með hraði stutt og lipurt íslenskt orð sem öllum hugnast og lýsir hugtakinu vel, en því meiri er þá ástæðan til að hlúa að og viðhalda fræði- legri íðorðastarfsemi á hverjum tíma. Oft var hugsað til þess að endurvekja orðanefnd lækna, en af því varð þó ekki fyrr en eftir að undirritaður hóf, að eigin frumkvæði og í sjálfboðavinnu, endur- skoðun á Íðorðasafni lækna í Orðabankan- um haustið 2010. Fékk hann vinnuaðstöðu sem gestafræðimaður á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stuðning starfsmanna þar. Þegar ljóst var orðið að verkefnið væri framkvæmanlegt með þessum hætti var orðanefnd Læknafélags Íslands endur- vakin í mars 2012 og margreyndir íð- orðasmiðir úr hópi lækna skipaðir í hana, þeir Eyjólfur Þ. Haraldsson, Magnús Jóhannsson og Jóhann Heiðar Jóhannsson. Læknafélag Íslands lagði til nauðsynlegan tölvubúnað og fé til kaupa á viðurkennd- um læknisfræðiorðabókum. Nefndin hefur síðan haldið mánaðarlega starfsfundi og unnið af krafti undir leiðsögn Ágústu Þorbergsdóttur, málfræðings og orða- bankastjóra (sjá lis.is/ordanefnd-li/Idorda- starfid). Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 6000 færslur í safninu verið endurskoðaðar og um 1700 nýjar settar inn. Gefið hefur verið út 56 blaðsíðna hefti, „Orðasafn í líffærafræði“ með heitum úr stoðkerfinu (bein, liðamót og vöðvar). Nú í haust kem- ur út annað „Orðasafn í líffærafræði“ með heitum úr líffærakerfum mannsins. Frá Orðanefnd Læknafélags Íslands HEKLA · Laugavegi 170-174 / Audi.is

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.