FLE blaðið - 01.01.2010, Blaðsíða 15
einnig ábyrgð á þeirri túlkun á stöðlum sem þeir nota í vinnu
sinni. Lesandi ársreikninga í Evrópu getur því séð á árituninni
hvaða endurskoðandi er ábyrgur fyrir vinnunni.
Regluverkið
Gagnsæi er mjög mikilvægt og áberandi í IFRS stöðlunum.
Grunnhugsunin er einföld en hún gengur út á það að lesandi
ársreiknings eigi að fá skv. þeim fullnægjandi upplýsingar til
þess að geta tekið ákvörðun t.d. um kaup í félagi. Bandaríkin
miða við sérsniðna staðla í meira mæli en IFRS sem er til
komið að því að of flóknir staðlar og regluverk eru ekki alltaf til
þess fallnir að koma að skýrari upplýsingum. Bandaríkjamenn
hafa lært í gegnum tíðina að fullkomnari reikningsskilareglur
finnast frekar í vel hugsuðum og túlkuðum markmiðum frekar
en í flóknum og óskiljanlegum reglum þar sem alltaf finnast
göt í regluverkinu. Ef reikningsskil eru skoðuð hér á landi þá
gengur innleiðing gagnsæis frekar hægt. Endurskoðendur og
stjórnendur halda oft að lesandi hér skilji meira en hann gerir.
Menn eru líka hræddir við að gefa of miklar upplýsingar sem
samkeppnisaðilar geti svo nýtt sér. Það er þó mikilvægt að
lesandi geti fengið sem gleggsta mynd af stöðu fyrirtækisins
frá skýringum skrifuðum á mannamáli svo hægt sé að meta
betur áhættuna sem felst í fjárfestingum. Sem dæmi má sjá
að í Bandaríkjunum eru menn oft búnir að meta áhættuna
frá mörgum hliðum og taka tillit til óvissu í umhverfinu þar
sem fyrirtæki starfa. En þrátt fyrir það kemur alltaf eitthvað
upp sem ekki var búið að útskýra nógu vel fyrir þeim sem
höfðu hagsmuna að gæta í rekstrinum. Ef skýringar gagnvart
áhættu og óvissu eru ekki góðar, skiljanlegar, gildar og
gagnsæjar þá rýrir það traust bæði fyrir viðskiptavininn og
endurskoðunarfyrirtækið og það er slæmt.
Hlutverk endurskoðenda
Það fyrsta sem ég rak augun í þegar ég kom hingað heim er
að hlutverk endurskoðenda er annað en í Bandaríkjunum. Mikil
virðing er borin fyrir endurskoðendum þar og menn jafnvel
hræðast þá svolítið. Það sýnir sig t.d. í því að þar ytra eru menn
alveg tilbúnir með öll gögn sem endurskoðandinn þarf aðgang
að en hér heima þarf meira að toga upplýsingar og gögn út
úr viðskiptavininum. Endurskoðendur eyða því allt of miklum
tíma í gagnaöflun hér heima. Viðskiptavinir hér á Islandi vilja að
endurskoðendur aðstoði við gerð skýringa í reikningsskilum og
vinni jafnvel líka hluta af reikningsskilunum sjálfum. Það er gott
að sjá að stjórnendur virðist yfirleitt treysta endurskoðendum
mjög vel hérna. Kannski líta sumir stjórnendur á okkur sem
mikilvægan hluta af þeirra innri eftirliti og eru því ekki með
eins virkt innra eftirlit og tíðkast í Bandaríkjunum. Þar er það
yfirleitt miklu skilvirkara og innbyggt í starfsemi fyrirtækjanna
í Bandaríkjunum. Endurskoðendur gefa fyrst og fremst álit á
reikningsskilum en þeir byggja mun meira á úrtaksskoðunum
á innra eftirliti til þess að meta það, samkvæmt þremur
flokkum. Enginn vill lenda í versta flokknum en veikleiki þar
getur haft áhrif á sjálft reikningshaldið. Þessir flokkar eru gerðir
með gagnsæi og lesanda ársreikninga í huga. Það má segja
að umræðan um innra eftirlit hafi verið dálítið langt á eftir
hér á landi, en það er kannski líka ekki svo slæmt því innra
eftirlit í Bandaríkjunum hefur reynst allt of kostnaðarsamt fyrir
fyrirtækin, þegar Sarbanes Oxley (SOX) reglurnar tóku fyrst
gildi. Þar en nú unnið að því að einfalda eftirlitið. Mikilvægast
er þó að endurskoðendur kanni hvort að stjórn er að viðhalda
innra eftirliti allt árið um kring.
Sérhæfing
í Bandaríkjunum hefur verið borin mikil virðing fyrir stéttinni
sem byggð er á trausti í sérhæfingu. Þar er orðin mikil
sérhæfing enda endurskoðunarstofurnar stórar, en þetta hefur
líka sína galla. Flér heima finnst mér þetta að mörgu leyti vera
betra. Það má líkja íslenskum endurskoðendum við svissneskan
vasahníf - þeir geta gert svo margt enda látnir vinna með
mörgum viðskiptavinum og að alls konar verkefnum fyrstu árin.
Endurskoðandi þarf að geta sett upp marga hatta og horft á
málin frá sjónarhóli lögfræði, bókarans, eftirlitsmanns og fleiri
aðila. í Bandaríkjunum verða menn sérhæfðir mjög fljótt en
vantar þá yfirsýn og reynslu til að ráða við önnur mál.
Símenntun
Löggiltir endurskoðendur þurfa ekki að skila inn
endurmenntunareiningum fyrstu tvö árin eftir að þeir fá
löggildingu. Menntunareiningar kallast CPE (Continuing
Professional Education) og eru svipaðar og hér á landi. Fyrir
utan ráðstefnur og námskeið í endurmenntun eins og má
finna hér á landi þá eru í Bandaríkjunum umræðuhópar sem
endurskoðendur geta skráð sig í og fengið einingar fyrir.
Hóparnir eru yfirleitt fámennar eða 25 manns að hámarki.
Þeir hittast reglulega og þar fer fram fagleg umræða. Þessir
hópar geta stundum haft áhrif á nýjar endurskoðunar- og
reikningsskilareglur með því að undirbúa sameiginlega skoðun
á einhverjum tæknilegum málum sem er svo samþykkt af
AICPA eða NYSSCPA (New York State Society of Certified
Public Accountants) og skila til IFAC, SEC, PCAOB, o.s.frv.
í New York svæðinu eru sem dæmi um það þil 20 hópar
starfandi. Menn eru hvattir til þess að vera virkir í nefnd eða
einhverjum hópi en þar öðlast menn reynslu, kynnast innbyrðis
og mynda sambönd og tengsl.
Almennt má segja að hvort heldur sem er í Bandaríkjunum eða
hér heima á íslandi, þá eru þetta spennandi tímar að vinna við
endurskoðun og framtíðin á þessu sviði er björt.
Guðmundur Páll Atlason
FLE blaðið janúar 2010 • 15