FLE blaðið - 01.01.2010, Blaðsíða 27

FLE blaðið - 01.01.2010, Blaðsíða 27
endurmenntun sé í samræmi við þörf, stöðu, hæfni, ábyrgð og eðlilega faglega þróun hvers og eins starfsmanns sem leiðir til þess að starfsmenn sæki námskeið og lesi bækur sem nýtast þeim í starfi og miðast við faglega getu þeirra, Áætlun um fagþróun þarf að vera viðeigandi. Viðeigandi fagleg þróun er mismunandi eftir endurskoðendum, hlutverki þeirra, ábyrgð og sérhæfingu. Endurskoðandi sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði skattamála sækir önnur námskeið eða les aðrar bækur og greinar en endurskoðandi sem er fjármálastjóri félags og ber ábyrgð á gerð reikningsskila þess. Á sama hátt væri áætlun um faglega þróun endurskoðanda sem nýlega hefur lokið löggildingu og er verkstjóri í endurskoðun hjá endurskoðunarfyrirtæki önnur en hjá endurskoðanda sem áritar ársreikning skráðs félags á markaði. Við skipulagningu á fagþróun þarf hver og einn að gera sér grein fyrir núverandi faglegri getu, færni og hæfileikum og greina þörf fyrir aukna færni og þekkingu í framtíðinni. í framhaldi af því þarf að velja viðeigandi endurmenntun til að ná þeim markmiðum sem hann/hún setur sér. Á íslandi verður áætlun og fagleg þróun hvers og eins endurskoðanda að vera í samræmi við kröfur laga um lágmarks fagþróun á ákveðnum sviðum, það er endurskoðun, reikningsskilum og fjármálum, skatta- og félagarétti og siðareglum og faglegum gildum. Þrátt fyrir kröfur um að endurskoðendur sæki lágmarks endurmenntun á ákveðnum sviðum þá er hægt að stýra fagþróuninni þannig að endurmenntun á hverju sviði sé viðeigandi fyrir það starf, ábyrgð og hlutverk sem endurskoðandinn gegnir. Skattasérfræðingurinn færi t.d. ekki að sækja námskeið um skattaleg málefni sem hann hefur þegar sérhæft sig í. Fjármálastjórinn mundi aftur á móti kjósa að sækja það svo hann hefði næga þekkingu á skattamálum til að geta stundað starf sitt sem fjármálastjóri. Verkstjórinn í endurskoðun færi ekki á grunnnámskeið í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem hins vegar gæti verið viðeigandi fyrir skattasérfræðinginn að sækja, til að vera hæfari í sínu starfi. Til að skipulag faglegrar þróunar verði sem best er mikilvægt að félagsmenn og vinnuveitendur hafi góðar fyrirmyndir að því hvernig skipuleggja eigi faglega þróun. Mörg fagfélög víða um heim hafa sett upp slíkar fyrirmyndir fyrir félagsmenn sína, útbúið form fyrir áætlunargerðina og leiðbeiningar, ásamt dæmum um faglega þróun eftir ábyrgð og hlutverkum félagsmanna. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðum margra fagfélaga og má vænta þess að FLE bjóði félagsmönnum sínum uppá sambærilegar fyrirmyndir. Góð áætlun um fagþróun þarf að vera unnin tímanlega og af nákvæmni. Hún þarf að vera skiljanleg, raunhæf, viðeigandi, mælanleg og bjóða uppá að hún sé uppfærð og aðlöguð. Leiðbeiningar eða reglur um faglega þróun félagasmanna við sérstakar aðstæður eins og í veikindum, þegar félagsmenn eru í fæðingarorlofi, í hlutastarfi eða komnir á eftirlaun eru til staðar hjá mörgum fagfélögum. Endurmenntun verður alltaf sambland af fyrirfram gerðri áætlun og endurmenntun sem upp kemur jafnóðum í starfi hvers og eins. Skráning fagþróunar Flest fagþróunarkerfi eiga það sameiginlegt að gerð er krafa um skipulega skráningu. Skráning á endurmenntun getur verið skráning atvinnuveitanda á sóttum námskeiðum, kerfi vinnuveitanda sem heldur utan um markmið starfsmanna og frammistöðumat, kerfi fagfélaga sem heldur utan um endurmenntun hvers og eins félagsmanns ásamt markmiðum og mati eða skrá sem fagmenn sjálfir halda. FLE ber samkvæmt lögum að halda skrá yfir endurmenntun endurskoðenda ásamt því sem endurskoðendum ber að halda skrá um endurmenntun sína. Dæmi um innihald skráningar á endurmenntun hjá fagfélögum er lýsing á endurmenntuninni sem getur verið; námskeið, grein sem var lesin, verkefni sem var unnið, ritgerð eða grein sem var skrifuð o.s.frv. í lýsingunni kæmi fram útskýring á faglega efninu, hvernig það nýttist í faglegri þróun, hvers vegna það var viðeigandi, hvaða þekkingar eða færni var aflað og vísun í þann sem getur staðfest að; endurmenntunin var stunduð, námskeið hafi verið sótt, grein hafi verið skrifuð, verkefni hafi verið unnið eða vfsun í umsagnaraðila um staðfestingu á faglegri getu eða frammistöðu viðkomandi. Dæmi um skráningu á endurmenntun má finna á www. accaglobal.com/members/cpd/evidence/examples. Mæling fagþróunar Lykillinn að árangursríkri fagþróun er að hún sé mæld og árangur metinn. Mæling á fagþróun víða um heim er að færast frá „input based" mæliaðferð í „output based" mæliaðferð, þar sem „input based" aðferðin mælir sótta endurmenntun, t.d. klst. á námskeiði, fjöldi bóka eða greina sem voru lesnar. „Output based" aðferðin mælir árangur af sóttri endurmenntun eins og viðbót við faglega getu og færni. Dæmi um það er umsögn vinnuveitanda, frammistöðumat, umsögn viðskiptavina eða niðurstaða úr prófi. Dæmi um skráningu og mat á endurmenntun skv. „output based" mæliaðferð má finna á www.charteredaccountants.ie/CPD/Requirements/ Recording-Your-CPD/. Fagfélög geta beitt „output based" aðferð við mat á árangri í fagþróun með því að yfirfara þróunarferli viðkomandi, taka út verkefni sem viðkomandi vann og leggja fyrir munnlegt próf til að kanna fagþekkingu. Úttekt á verkefni gæti verið svipað og þegar doktorsritgerð er varin þar sem verkefni er lagt fram og sérfræðingar bæta við spurningum. „Output based" er mun umfangsmeiri og flóknari í framkvæmd en „input based" aðferðin en „output based" aðferðin er betur til þess fallin að mæla raunverulegan árangur. Lög á íslandi gera kröfur um að endurmenntun endur- skoðenda skuli að lágmarki svara til 20 klst. á ári og samtals 120 klst. á hverju þriggja ára tímabili. Þrátt fyrir þetta ákvæði þá er ekkert sem segir að mæling á endurmenntun gæti ekki verið á öðru formi sem síðan væri varpað yfir á klukkustunda mælieiningu. Annað form mælinga gæti verið efni fræðigreinar sem var skrifuð, frammistaða í verkefni sem var unnið, efni bókar sem var lesin o.s.frv. Jafnframt kemur fram í sömu lögum að a.m.k. 60 klst. FLE blaðið janúar 2010 *27

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.