FLE blaðið - 01.01.2010, Side 25
gutla ég aðeins í golfinu eins og fleiri endurskoðendur, þótt
árangurinn láti á sér standa" bætir hann við.
Ólafur kvæntist um tvítugt, skólasystur sinni frá 7 ára aldri
að norðan, Guðrúnu Ólafsdóttur en þau voru líka samferða í
Versló. Þau eiga þrjár dætur en engin þeirra hefur fetað í
fótspor föður síns í starfsvali. Reyndar vinnur ein þeirra á
endurskoðunarstofu um þessar mundir. „Þeim leist ekki á
starfið því ég var svo lítið heima. Þá var unnið miklu meira og
myrkranna á milli á álagstímum" segir hann og hristir höfuðið.
Konan varð því heimavinnandi fyrstu árin eftir að dæturnar
fæddust.
Skemmtilegustu verkefnin
„Mér fannst gaman að vera í hasar og nýjum hlutum" segir
Ólafur og hlær við. „Meðal annars vinna við umbreytingar
á fyrirtækjum, sameiningu og skiptingu eða hvers konar
breytingar sem urðu til þess að bæta reksturinn og efla þau.
Fyrsta sameiningin sem ég kom að var á árinu 1961 en þá
var lítið um sameiningu fyrirtækja. Sú eftirminnilegasta er
sennilega sameining Bæjarútgerðar Reykjavíkur og ísbjarnarins
hf sem varð Grandi hf." bætir hann við. Síðan þá var hann mikið
við endurskoðun og hlutfallslega mikið í sérverkefnum eins og
sameiningu fyrirtækja. Þá vann hann mikið í skattamálum og
var meðal annars skattrannsóknarstjóri í 8 ár.
Skattamál
„Það var dálítið sérstakt að koma í opinbera stofnun en góð
reynsla í sjálfu sér" segir hann og rifjar upp að hann hafi mikið
unnið að skattamálum fyrir fjármálaráðuneytið, verið ráðgefandi
og í nefndum vegna undirbúnings frumvarpa um skattamál
og slíkt. „Skattrannsóknarstjóraembættið var erilsamt m.a.
vegna ágangs fjölmiðla sem stöðugt leituðu upplýsinga um
gang mála, en skattamál og endurskoðunarmál voru mikið í
deiglunni á þessum tíma" segir hann hálfafsakandi. Fljótlega
eftir að hann hætti hjá skattinum varð hann formaður FLE eða á
árunum 1977 - 1979. Svo í kringum 1980 urðu miklar breytingar
á skattalöggjöfinni sem hann vann að. Verðbólga hafði verið
mikil og þá voru verðbólgumælingar tekin inn í reikningsskil
og skattalög í fyrsta sinn auk annarra grundvallarbreytinga á
lögum um tekjuskatt og eingarskatt. Svo kom staðgreiðslan og
virðisaukaskatturinn nokkrum árum síðar. Ólafur var iðinn við
uppfræðslu á þessum tíma, hélt erindi á ráðstefnum bæði hjá
endurskoðendum og ýmsum félagasamtökum.
Lífið ein tilviljun
Árið 1975 stofnaði hann Endurskoðun hf. sem síðar varð KPMG
hf. ásamt Guðna Gústafssyni og Flelga V. Jónssyni. „Við
höfðum þekkst þrír, Guðni vann með mér hjá Birni og Ara en
var kominn með eigin stofu en Helgi var borgarendurskoðandi
og hafði ákveðið að hætta svo það varð úr að við ákváðum
að stofna fyrirtæki saman" útskýrir hann. Fyrirtækið þróaðist
býsna hratt og örugglega en þeir félagar voru heppnir með
kúnnahóp. Til þeirra var leitað með stórt verkefni á þess tíma
mælikvarða þegar flugfélögin voru sameinuð í Flugleiðum sem
varð viðskiptavinur þeirra. „Á þeim tíma máttu endurskoðendur
Ólafur Nilsson á fljúgandi ferð.
ekki auglýsa, eingöngu setja litla tilkynningu um opnun á
endurskoðunarstofum í blöðin. Ég veit ekki af hverju það var, en
þá máttu margar stéttir ekki auglýsa. Þá var það fyrst og fremst
orðsporið sem skapaði verkefni og það traust sem menn áunnu
sér virkaði best á þessum markaði. Menn báru mikla virðingu
fyrir hver öðrum og voru ekki að sækja mikið á verkefni annarra
á þessum tíma. Þá voru endurskoðunarstofurnar líka að stækka
mikið og gátu því tekist á við stærri verkefni sem einyrkjar áttu
erfiðara með að sinna" segir hann að lokum.
Vel metin og virðuleg stétt
„Viðhorf samfélagsins til endurskoðenda á þessum
upphafsárum var jákvætt. Þá voru nokkrar stórar stofur sem
að stóðu vel metnir og virðulegir menn sem fólk hafði traust
á. Þá var lagður grunnur að þessu trausti sem síðan hefur fylgt
stéttinni" segir hann hugsi. „Umræðan um endurskoðendur
var á þessum tíma ekki í þeim mæli sem hún er í dag. Þá voru
ársreikningar ekki lagðir fram opinberlega og stundum ekki
heldur á aðalfundum félaganna heldur voru þeir voru aðeins
lesnir upp. Ársreikningar þóttu helst til mikil trúnaðarmál á
þeim tíma" segir hann og brosir við. „Eftirlit var fyrst og fremst
af hálfu skattsins og ekkert fjármálaeftirlit og heldur enginn
fjármálamarkaður."
Stéttin beitti sér fyrir því að reikningsskil væru gerð meira
opinber en áður. „Við sóttum hugmyndir og fyrirmyndir
erlendis frá og reyndum að breyta málum hér heima í þá átt
sem gerðist á erlendum mörkuðum" segir hann ákafur. Ólafur
var lengi formaður reikningsskilanefndar FLE og á þeim tíma
sem verðbólgureikningsskilin voru innleidd gaf félagið út
heilmikla handbók sem ætluð var félagsmönnum til að ná meira
samræmi í gerð reikningsskila hér á landi, en áður hafði verið.
Ekki nógu háværir
Talið berst að þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á
síðustu áratugum. Vinnubrögðin hafa gjörbreyst og tæknin bæði
í reikningshaldi og endurskoðun hefur breyst. Reikningsskil
voru almennt ekki birt opinberlega eins og áður segir, þau voru
FLE blaðið janúar 2010 *25