Morgunblaðið - 06.06.2017, Síða 23
MINNINGAR 23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. JÚNÍ 2017
✝ Sigríður Ragn-heiður Ólafs-
dóttir hjúkrunar-
fræðingur fæddist
að Strandgötu 17 í
Hafnarfirði 23.
ágúst 1923. Hún
lést á Hjúkrunar-
heimilinu Ísafold
15. maí 2017.
Foreldrar henn-
ar voru Hendrikka
Jónína Hendriks-
dóttir húsmóðir og Ólafur Run-
ólfsson búfræðingur. Systir
Sigríðar er Guðný Ólafsdóttir,
f. 25. janúar 1932. Sigríður
giftist Alfred Eugen Anderson
árið 1957. Börn þeirra eru:
1. Hendrikka Jónína, gift
Pétri Ásgeirssyni, börn þeirra
eru Ásgeir, Alfreð Ingvar, Pét-
ur Óli og Linda Þórey.
2. Ólöf Petrína, börn hennar
eru Sveinn Einar, Sigríður
Ásta, Jóhanna María, Hend-
rikka Ólöf, Friðrik Hilmar og
Ingibjörg Lóreley.
3. Sveinn,
kvæntur Valdísi
Ólöfu Jónsdóttur.
Börn þeirra eru
Sigurður Jón, Ólöf
Birna og Sara
Lind.
Barnabarnabörn
Sigríðar eru
Naomí, Embla Dís,
Ísak Nói, Aron,
Rakel María, Vikt-
or Orri, Davíð og Neema.
Sigríður útskrifaðist sem
hjúkrunarfræðingur frá
Hjúkrunarskóla Íslands árið
1952. Hún starfaði alla starfs-
ævi sína sem hjúkrunarfræð-
ingur á Heilsuverndarstöðinni,
Landspítalanum, Hjúkr-
unarheimilinu Sólvangi,
heimahjúkrun í Hafnarfirði og
Öldutúnsskóla.
Útförin hennar fer fram frá
Hafnarfjarðarkirkju í dag, 6.
júní 2017, klukkan 15.
Elsku mamma, sem mér
þótti svo vænt um, er búin að
kveðja þennan heim og er kom-
in til fyrrheitna landsins þar
sem henni líður vel og er um-
vafin englum Guðs. Þegar
mamma kvaddi þennan heim
var eins og hún andaði lífinu
sínu til okkar sem hún elskaði
svo heitt og úr augum hennar
skein þakklæti og kærleikur.
Mamma ól okkur systkinin
upp í trúnni á Jesú Krist og má
segja að við höfum fengið hana
í vöggugjöf. Þá vorum við ávallt
í hennar bænum og má segja að
hún hafi alltaf borið okkur á
bænarörmum allt okkar líf.
Trúin skipti mömmu mjög
miklu og ég man eftir því frá
unga aldri að mamma var vön
að krjúpa við ákveðinn stól í
stofunni þar sem hún bað á
morgnana og á kvöldin. Í seinni
tíð eyddi hún jafnframt stórum
hluta af deginum við eldhús-
borðið og las í Biblíunni sem
var henni svo mjög kær.
Mamma var mjög gjafmild
og hugsaði frekar um aðra en
sjálfa sig. Gestrisni einkenndi
hana og var hún þekkt fyrir það
að enginn mátti fara svangur
frá henni og allir urðu að fá
hressingu, að minnsta kosti
prins póló og gos. Vakti það
mikla gleði hjá barna- og lang-
ömmubörnum, enda bara leyfi-
legt að fá meira en eitt prins
póló hjá langömmu. Ekki má
heldur gleyma pönnukökustafl-
anum, sem hún bakaði sitjandi
við eldavélina. Hún var dugleg
húsmóðir og á hverjum jólum
var húsið þrifið hátt og lágt og
skreytt svo úr varð hálfgert
jólahús.
Á hverjum sunnudegi var
gott að vakna við ilmandi lykt-
ina af lambalærinu í ofninum. Í
eftirrétt var svo ávallt borinn
fram ís, ávextir eða hlaup.
Sunnudagsbíltúrarnir voru yf-
irleitt farnir, oft niður Lauga-
veginn og þá átti að keyra hægt
því mamma vildi sjá í búðar-
gluggana, þar sem hún fékk oft
hugmyndir til að sauma eftir.
Þær hugmyndir nýtti hún sér
óspart, en hún saumaði mikið af
fötum á okkur börnin, barna-
börnin og aðra fjölskyldumeð-
limi. Skipti þar engu hvort um
var að ræða blúndukjóla með
öllu tilheyrandi eða jakkaföt,
húfur o.fl.
Fjölskyldan skipti mömmu
ótrúlega miklu máli. Mamma
hélt fjölskyldunni saman og
vildi halda friðinn. Hún lagði
mikið upp úr kærleikanum og
fyrirgefningunni. Hennar mottó
var að aldrei væri farið að sofa
án þess að sættast. Mamma
hvatti okkur börnin til dáða,
hún var dugleg og fórnfús kona
og alltaf boðin og búin þegar
hennar var þörf. Gott dæmi um
hversu vel hún hugsaði um okk-
ur börnin eru öll þau ófáu skipti
sem hún kom óvænt á síðdeg-
isvaktina til mín á heilsugæsl-
una, færandi hendi með eitt-
hvað gómsætt úr bakaríinu
og/eða ís til að gleðja mig.
Síðustu daga mömmu var
hún vön að lesa orðin í Jes.
41:10, sem segir:
Óttast þú eigi þjónn minn, ég hef út-
valið þig og eigi hafnað þér! Óttast
þú eigi því að ég er með þér: Lát
eigi hugfallast, því ég er þinn Guð;
ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð
þig með hægri hendi réttlætis míns.
Á grunni þessara orða sem
voru henni svo kær veit ég að
hún er komin í himnasali Guðs
sem tók á móti henni opnum
örmum.
Elsku mamma mín, ég kem
til með að sakna þín mjög mikið
en góðu minningarnar eru til
staðar og gleymast ekki.
Þín
Ólöf Petrína.
Elsku mamma mín, nú ert þú
ekki lengur samferða mér á
þessari lífsgöngu.
Þú sem gekkst með mig um
gólf allt frá því að ég dró fyrsta
andardráttinn. Þú hefur svo oft
sagt mér frá því hvernig þú
baðst Guð að lækna mig. Ég
var alla tíð bænabarnið þitt. Þú
fékkst mörg bænasvörin. Guð
var vinur þinn og frelsari.
Það er svo margt sem kemur
í hugann þegar ég hugsa til þín.
Stórt þakklæti. Þú ert og varst
besta mamma sem til er. Þú
vildir mér alltaf það besta í líf-
inu. Við börnin þín vorum alltaf
í fyrsta sæti. Það var ekkert
nógu gott fyrir okkur.
Það var svo gott að koma til
þín á Strandgötuna, þú tókst
alltaf vel á móti okkur. Með op-
inn faðminn. Þú elskaðir að
hafa okkur í kringum þig.
Börnin þín, barnabörnin og
barnabarnabörnin.
Það var enginn sem kunni að
búa til eins mikla jólastemningu
og þú. Þegar þú komst loksins í
jólafrí frá vinnunni í Öldutúns-
skólanum var húsið tekið í gegn
hátt og lágt. Þá var öllu pakkað
niður og húsinu var breytt í
jólahús. Kirkjan sem pabbi
smíðaði var alltaf í sérstöku
uppáhaldi hjá okkur. Þú bak-
aðir og fylltir öll kökuboxin af
smákökum og góðgæti til að
gera jólin eins gleðileg og hægt
var.
Þú varst mikil bænakona og
kenndir mér að biðja fyrir því
sem mætti mér í daglegu lífi
mínu. Biblían var þinn leiðar-
vísir. Þú fékkst styrk og leið-
sögn frá Guði til að takast á við
lífið. Þegar við ræddum saman
um eitthvað sem vakti áhyggjur
mínar léstu mig draga manna-
korn. Þá fékk ég Biblíuvers
sem gaf uppörvun og styrk. Þú
kenndir mér að þekkja veginn
sem liggur til eilífs lífs. Þú last
í Biblíunni þinni þó að sjónin
væri farin. Þá fékkstu lesvél, til
að margfalda stærð letursins til
að nærast af orði Guðs og
hlustaðir á norskar prédikanir.
Þú varst elskuð af öllum
börnunum í Öldutúnsskóla þar
sem þú varst skólahjúkrunar-
fræðingur. Þú varst mamma
þeirra og amma. Það elskuðu
þig allir. Þegar Haukur Helga-
son skólastjóri kvaddi þig sagði
hann að þú hefðir ekki bara
verið dugleg að láta plástur á
sárin heldur á sál barnanna.
Innri sárin.
Þú tókst alltaf virkan þátt í
lífi mínu. Þegar ég var með
Fjölgreinanám Lækjarskóla
elskuðu krakkarnir að koma í
heimsókn til þín. Ég kom með
stóran skara af unglingum í
pönnukökuveislu. Þú lagðir
mikið á þig til að gera stundina
hjá þér ógleymanlega. Það
komu margir ráðamenn úr
Hafnarfirði í þessar veislur. Þú
varst svo gestrisin og gott að
koma til þín. Eftir að ég fór að
vinna sem prestur á Sólheimum
elskaðir þú að fá mig í heim-
sókn með íbúa Sólheima.
Mamma mín, þú ert og verð-
ur mín fyrirmynd í lífinu.
Þú sagði svo oft við mig orð-
in sem mamma þín kenndi þér.
Þar sem þú sérð fátækan, veik-
an eða svangan, þá klæddu
hann, hjálpaðu honum en
grættu hann eigi. Þú varst allt-
af tilbúin að láta gott af þér
leiða.
Þú last þessi orð á hverjum
degi mamma mín enda var
blaðsíðan í Spádómsbók Jesaja
41 eiginlega snjáð burt úr Biblí-
unni þinni. Guð geymi þig,
elsku mamma mín. Ég veit að
þú bíður eftir mér á himnum
hjá Guði okkar og pabba mín-
um.
Takk fyrir allt, elsku besta
mamma mín.
Óttast eigi því að ég er með þér,
vertu ekki hræddur því að ég er þinn
Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég
styð þig með sigrandi hendi minni.
Þinn sárt syrgjandi sonur,
Sveinn Alfreðsson.
Ég var svo heppin að alast
upp nálægt heimili ömmu og
afa. Þar var alltaf einhver
heima til þess að taka á móti
manni eftir skóla, í hádegis-
hléum eða um helgar. Ansi oft
labbaði ég til ömmu í hádeg-
ishléum, vitandi það að amma
myndi senda mig með pening út
á Pylsubarinn að kaupa mér
hamborgara. Ég man eftir
ófáum stundum þar sem ég sat
við eldhúsborðið með ömmu,
þar sem hún var annaðhvort að
sauma eða að lesa í Biblíunni
sinni. Margoft fór hún yfir með
mér öll bænarefnin sín og las
fyrir mig ritningarvers. Trú
hennar á Guð var sterk og það
var henni mjög mikilvægt að
geta miðlað trú sinni til allra
sem urðu á vegi hennar.
Amma saumaði allt sem við
barnabörnin óskuðum eftir. Í
mörg ár saumaði hún öskudags-
búninga eftir pöntunum ásamt
öskupokum og öllu tilheyrandi.
Það var ekkert of flókið fyrir
hana.
Við amma röltum ósjaldan
saman niður í bæ þar sem við
löbbuðum í búðir, skoðuðum
föt, dót og saumablöð.
Amma var einstaklega gjaf-
mild og hún dekraði við okkur
barnabörnin, en það var fastur
liður að fara til ömmu á sum-
ardaginn fyrsta, fá sumargjöf
og leika. Amma notaði allt árið
til þess að safna dóti sem hún
gaf okkur í jólagjöf og vöktu
pakkarnir frá ömmu mikla
lukku hjá okkur börnunum.
Amma Sigga var ein sterk-
asta kona sem ég hef kynnst og
vildi allt fyrir alla gera.
Amma hafði mjög gaman af
því að fá barnabörnin í heim-
sókn og bauð alltaf upp á Prins
Póló og appelsín, sem gladdi
mikið litla munna.
Þín verður sárt saknað elsku
amma mín, en ég veit að núna
líður þér vel og þú ert komin á
þinn stað í himnaríki.
Þín
Jóhanna María.
Okkur langar að minnast
móður og tengdamóður okkar,
Sigríðar Ragnheiðar Ólafsdótt-
ur hjúkrunarfræðings, með ör-
fáum orðum. Sigríður var mjög
trúuð kona sem lagði allt sitt
traust á frelsara sinn Jesú
Krist og fór alls ekki leynt með
það og óhætt er að segja að hún
hafi haft áhrif á fólk í þeim efn-
um hvar sem hún fór. Hún var
mikil fjölskyldumanneskja og
vildi helst hafa alla fjölskylduna
sem mest í kringum sig, barna-
börnin og langömmubörnin
voru líf hennar og yndi og hún
vildi allt fyrir þau gera. Hún
var dugleg að sauma á barna-
börnin föt af öllu tagi, þegar
þau voru lítil. Einu sinni saum-
aði hún öskudagsbúning á elsta
drenginn okkar sem fékk síðan
verðlaun niðri á Lækjartorgi
sem flottasti öskudagsbúning-
urinn það árið, þannig lék
saumaskapurinn í höndunum á
Sigríði. Barnabörnin og lang-
ömmubörnin elskuðu ömmu
sína og langömmu af öllu
hjarta, það sáum við greinilega.
Okkur langar á þessari kveðju-
stund að þakka Sigríði fyrir all-
ar góðar stundir sem við áttum
saman í gegnum árin og við
trúum því að við munum hittast
síðar á himnum hjá Drottni
okkar og skapara.
Þökkum við þann fagra fund
sem við fengum notið.
Komið er að kveðjustund
kallið hefurðu hlotið.
(P.Á.)
Hendrikka Jónína
Alfreðsdóttir og Pétur
Ásgeirsson.
Þegar við hugsum um ömmu
koma margar skemmtilegar
sögur upp í hugann. Amma var
einstök kona sem sýndi okkur
alltaf kærleika og hlýju. Hún
elskaði að gleðja aðra. Þegar
við komum í heimsókn fórum
við aldrei tómhent heim. Um
leið og við löbbuðum inn um
útidyrahurðina beið okkar kók
og prins á borðinu ásamt
skemmtilegu spjalli og svo aft-
ur þegar við fórum. Amma
elskaði að gefa gjafir. Á jól-
unum gaf hún hverri fjölskyldu
þrjá stóra poka fulla af jólagjöf-
um sem hún var búin að vera
að undirbúa allt árið. Pakkarnir
fylltu stofuna svo varla var
hægt að ganga um. Ekki er
hægt að minnast ömmu án þess
að minnast á pönnukökufjöllin.
Hún lét ekki eitt fjall nægja
heldur að minnsta kosti tvö sem
voru vafin inn í handklæði til að
halda heitum. Svo hringdi hún í
alla fjölskylduna og bauð í
pönnsur. Áður en hún vissi af
voru allir mættir og byrjaðir að
gæða sér á þessu lostæti af
bestu lyst.
Amma kom oft í mat á
sunnudagskvöldum. Hún kom
aldrei tómhent heldur með fullt
veski af hlauphamborgurum,
Kinder-eggjum og sleikjóum.
Þegar við vorum orðin svo upp-
full af sykri og fjörið að ná há-
marki var komið að því að
svæfa okkur systkinin. Þá dó
amma ekki ráðalaus heldur sat
frammi á gangi með opið inn í
barnaherbergin og sagði allar
ævisögur sínar og náði þannig
að svæfa okkur.
Ömmu þótti fátt skemmti-
legra en að skella sér í versl-
unarleiðangur. Þar voru flóa-
markaðir og Kringlan í miklu
uppáhaldi en komust þeir þó
ekki með tærnar þar sem
IKEA hafði hælana. Því amma
elskaði fátt meira en að fara í
IKEA. Eftir langan og góðan
IKEA-hring byrjaði fjörið því
amma átti sér uppáhaldshorn í
IKEA sem var gallaða hornið.
Þar skoðaði hún sig vel um,
fann hluti sem henni leist á,
byrjaði að prútta um verð og
oftast fékk hún þá á ótrúlegum
afslætti.
Það var alltaf mikil spenna
hjá okkur barnabörnunum fyrir
páskana því við vissum að þá
mundum við fara til ömmu í
páskaeggjaleit. Amma var búin
að fela páskaegg fyrir alla í
ættinni í húsinu sínu og beið
þar til allir voru komnir. Þá
voru allir ræstir af stað á sama
tíma til að finna páskaeggið
sitt. Sum eggin voru falin á
misheppilegum stöðum og feng-
um við því stundum bráðið egg
því það hafði verið falið bak við
heitan ofn.
Þetta eru bara brotabrot af
ævintýrunum sem við áttum
með þér og getum yljað okkur
við komandi ár þegar við hugs-
um til þín. Takk fyrir allar
gæðastundirnar saman, amma
okkar, við erum óendanlega
þakklát fyrir öll árin sem við
höfum fengið að eiga með þér.
Hvíldu í friði.
Þín barnabörn,
Sigurður Jón
Sveinsson og Sara
Lind Sveinsdóttir.
Elsku amma mín.
Ég finn til mikils söknuðar.
Þegar ég fór að hugsa út í allar
góðu stundirnar sem við áttum
saman, ævisögurnar, pönnu-
kökustaflana, föndrið, prins
pólóið, pítsupartíin á Strand-
götunni, prútthornið í IKEA,
Sléttuhlíðina og svo mætti lengi
telja. Húsið þitt var alltaf opið
og þú tókst alltaf vel á móti
manni opnum örmum.
Þegar ég kom og þreif hjá
þér og keypti rúnstykki. Við
sátum saman og spjölluðum. Ég
mun aldrei gleyma þessum
góðu stundum og góðu umræð-
unum sem við áttum.
Núna hefur þú kvatt þennan
heim og ert á himnum hjá afa
og Guði. Ég mun sakna þín
mikið og þeirrar visku sem þú
hafðir. Þú nýttir hvern tíma
sem þér gafst til að boða Guðs
orð. Eins og þú sagðir að bæta
demöntum í kórónu Guðs. Þú
leyfðir öllum sem komu í heim-
sókn til þín að draga mannkorn.
Þegar við systkinin vorum lítil
og þú komst að passa okkur
komstu oftast með eitthvert
góðgæti fyrir okkur. Svo báðum
við þig um að segja okkur ævi-
sögur. Þá sagðirðu okkur alls
konar skondnar sögur úr Hafn-
arfirðinum. Það sem við höfðum
gaman af því að hlusta á þig
segja þessar sögur.
Heimsóknir til þín á Strand-
götuna þar sem þú hafðir bakað
háan stafla af pönnukökum, það
skipti ekki máli hversu margir
voru að koma. Staflinn var allt-
af jafnhár. Það var mikið fjör
þegar öll fjölskyldan kom sam-
an og þá leið þér best. Þegar þú
varst með öll börnin og barna-
börnin kringum þig enda var
alltaf mikil veisla í kringum
Strandgötuna.
Síðustu árin þín á Ísafold eru
mér minnisstæð. Þá kom ég oft
við í bakaríinu og kippti einu
rúnstykki með mér. Þú varst
svo ánægð og baðst mig um að
setja það inn í ísskáp svo þú
gætir geymt það. Alveg fram á
síðasta dag hugsaðir þú alltaf
vel um okkur, bauðst mér gos
og prins póló. Það var mjög erf-
itt að segja nei við þig.
Elsku amma mín, ég mun
sakna heimsóknanna til þín, alls
fróðleiksins og gæðastundanna
sem við áttum saman. Ég veit
að þú ert í góðum höndum hjá
Guði á himnum laus við alla
þjáningu. Elsku amma, hvíldu í
friði. Þitt barnabarn,
Ólöf Birna Sveinsdóttir.
Sigga mín Ólafs var einstök
kona. Ég kynntist henni fyrst
árið 1978 er dætur hennar voru
um það bil að hefja nám í
Hjúkrunarskóla Íslands. Þarna
sat hún með sitt hvíta fallega
hár og sagði mér hvernig væri
að vera skólahjúkrunarkona í
Hafnarfirði. Sigga var þeim er
minna máttu sín og höfðu það
erfitt skjól. Ef svo bar undir fór
hún heim til barnanna, vakti
þau, eldaði hafragraut, gaf
þeim að borða og sá til þess að
þau færu síðan í skólann. Já
hún sagði mér að við ættum
von á báðum dætrum hennar í
Hjúkrunarskólann, þær ætluðu
að feta í fótspor hennar. Og það
hafa þær svo sannarlega gert
með sóma. Leiðir okkar lágu
síðan saman þegar móðir mín
kom sem heimilismaður á Sól-
vang í Hafnarfirði. Sigga var
farin að taka þar vaktir stund-
um um helgar, jafnframt því að
starfa sem skólahjúkrunarkona
í Öldutúnsskóla. Það ríkti til-
hlökkun á allri deildinni þegar
von var á Siggu. Hún veitti
ríkulega úr sínum gæðabrunni
og umvafði alla. Ekki spillti fyr-
ir að ís var veittur en það var
ófrávíkjanleg krafa að öllum
skyldi boðið upp á ís. Systir
mín Þuríður var hjúkrunarfor-
stjóri á þessum tíma og stýrði
hjúkruninni ásamt Erlu M.
Helgadóttur. Þegar ég tók síð-
an við vildi Sigga fylgja okkur
Erlu áfram. Þegar skólahjúkr-
unarstarfinu lauk um sjötugt
tók Sigga fastar vaktir hjá okk-
ur, eitthvað sem hjúkrunar-
fræðingar á eftirlaunum hafa
gert. Tímakaupið var lágt en
Sigga sagði alltaf að ánægjan
bætti það upp. Það er ómet-
anlegt fyrir hjúkrunarheimili að
fá slíkar konur inn til starfa.
Konur sem hafa þekkingu og
reynslu af hjúkrunarstörfum
jafnvel í 50 ár, ásamt þroska úr
lífsins skóla. Á þessum árum
sagði Sigga oft við mig bæði í
gríni og alvöru „ætlar þú ekki
að fara að segja mér upp Sig-
þrúður mín?“ Ég svaraði á móti
og meinti það af heilum hug:
„Þú veist Sigga mín að þér segi
ég aldrei upp.“ Og þannig stóðu
málin þar til Sigga varð áttræð.
En auðvitað kom að því að
Sigga mín ákvað að hætta, búin
að þjóna í áratugi sem íslensk-
ur hjúkrunarfræðingur. Hend-
riks hús, fallega litla húsið
hennar við Strandgötuna vekur
ávallt upp minningar um Siggu
þegar ég fer þar hjá.
Guð geymi þig elsku Sigga
mín og hafðu hjartans þökk fyr-
ir allt.
Samúð sendi ég til barna og
allra í fjölskyldunni.
Sigþrúður
Ingimundardóttir.
Sigríður Ragnheið-
ur Ólafsdóttir
Morgunblaðið birtir minn-
ingargreinar endurgjalds-
laust alla útgáfudaga.
Skil | Þeir sem vilja senda Morg-
unblaðinu greinar eru vinsam-
lega beðnir að nota innsendikerfi
blaðsins. Smellt á Morgunblaðs-
lógóið í hægra horninu efst og
viðeigandi liður, „Senda inn
minningargrein,“ valinn úr felli-
glugganum. Einnig er hægt að
slá inn slóðina www.mbl.is/
sendagrein
Skilafrestur | Ef óskað er eftir
birtingu á útfarardegi verður
greinin að hafa borist eigi síðar
en á hádegi tveimur virkum dög-
um fyrr (á föstudegi ef útför er á
mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað get-
ur birting dregist, enda þótt
grein berist áður en skilafrestur
rennur út.
Minningargreinar