Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.12.2017, Side 30
STJÓRNMÁL
30 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31.12. 2017
Lýðræðið átti undir högg að sækja árið 2017. Blikur eru álofti þegar leiðtogi hins svokallaða frjálsa heims beitirendurtekið rödd sinni og valdi til þess að grafa undan
grunnstoðum lýðræðisins. Á því tæpa ári sem Donald Trump
hefur gegnt embætti forseta Bandaríkjanna hefur hann skipað
dóttur sína og tengdason í mikilvæg embætti, rekið yfirmann
alríkslögreglunnar í miðri rannsókn á forsetanum sjálfum og
neitað að opinbera skattskýrslur sínar. Atburðarásin vestan-
hafs minnir oft á lygasögu frekar en raunveruleikann í vest-
rænu lýðræðisríki.
Á Íslandi hófst stjórnmálaárið 2017 á því að Bjarni Bene-
diktsson, þáverandi fjármálaráðherra, birti loksins tvær mik-
ilvægar skýrslur, sem þó voru löngu tilbúnar. Þetta voru
annars vegar skýrsla um leiðréttinguna svokölluðu og hins
vegar skýrsla um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Bjarni
gekkst við því að hafa ekki birt skýrslurnar fyrir alþingiskos-
ingarnar 2016 vegna þess að hann vildi ekki að þær yrðu til
umræðu í kosningabaráttunni. Þetta var þó ekki nóg til að
fæla fulltrúa Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá því að fara
í ríkisstjórn undir hans forsæti og Bjarni varð forsætisráð-
herra.
Aðför að sjálfstæði dómstóla
Í febrúar var dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, vanda-
samt og ábyrgðarmikið verk á höndum þegar auglýst var eftir
15 dómurum til að skipa nýtt dómstig, Landsrétt. Dómsmála-
ráðherra hafði það í hendi sér að efla traust á dómstólum á Ís-
landi líkt og stefnt var að í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnar-
innar.
Þess í stað kaus ráðherra að fara gegn faglegu mati hæfnis-
nefndar og handvelja fjögur dómaraefni, þröngva málinu í gegn
um þingið á allt of stuttum tíma og með aðferðafræði sem
margítrekað var lýst sem andstæðri stjórnsýslulögum og skýru
dómafordæmi hæstaréttar.
Þótt mánuður væri til stefnu greiddu allir stjórnarliðar,
sem í stjórnarsáttmála skreyttu sig með nýjum vinnubrögð-
um og eflingu trausts á Alþingi og dómstólum, atkvæði gegn
frávísunartillögu stjórnarandstöðunnar, sem miðaði að því að
vinna skipanirnar af vandvirkni og yfirvegun. Því lauk fyrsta
þingi í stjórnartíð ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar með
því sem varla verður kallað annað en gróf aðför fram-
kvæmdavaldsins og meirihluta löggjafarvaldsins að sjálfstæði
dómstóla.
Leyndarhyggja ráðherra
Snemma sumars bárust fréttir af því, að Róberti Árna Hreið-
arssyni hafði verið veitt uppreist æru vegna endurtekinna kyn-
ferðisbrota gegn ungum stúlkum. Þess var óskað að ráðherra
upplýsti hverjir hefðu mælt með því. Ráðherra neitaði, og braut
þar með upplýsingalög.
Það var vegna óþreytandi baráttu þeirra einstaklinga sem
sameinuðust undir myllumerkinu #höfumhátt að upplýsingar
fengust um þetta mál og önnur sama eðlis. Þá kom í ljós að faðir
forsætisráðherra hafði skrifað upp á meðmæli með því að Hjalti
Sigurjón Hauksson, annar ófyrirleitinn barnaníðingur, fengi
uppreist æru.
Þrátt fyrir að dómsmálaráðherra skýldi sér bak við þagnar-
skyldu, þegar hún neitaði fjölmiðlum og öðrum um þessar upp-
lýsingar, ákvað hún að upplýsa forsætisráðherra um aðkomu
föður hans að málinu. Í sameiningu ákváðu þau Sigríður Á.
Andersen og Bjarni Benediktsson að halda þessum upplýs-
ingum frá þolendum, fjölmiðlum, þingmönnum og samráðherr-
um sínum í ríkisstjórn að því er virðist til að verja persónulega
hagsmuni forsætisráðherra.
En þetta lak út og ríkisstjórnin sprakk í september vegna
trúnaðarbrests. Samdægurs felldi héraðsdómur Reykjavíkur
dóm yfir embættisfærslu dómsmálaráðherra er hún skipaði
dómara í Landsrétt: Ráðherra hafði gerst brotleg við stjórn-
sýslulög.
Árás á upplýsingafrelsið
Efnt var til óvæntra kosninga sem einkenndust af miklum og
ófyrirleitnum áróðri nafnlausra aðila gegn líklegum sigurveg-
ara kosninganna; Vinstri-grænum. Ómældum fjármunum var
varið í þessa ófrægingarherferð í aðdraganda kosninga.
Steininn tók þó úr þegar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu
samþykkti lögbannskröfu á umfjöllun Stundarinnar um fjármála-
gjörninga þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, í
aðdraganda bankahrunsins. Tveimur vikum fyrir kosningar.
Viðbrögð Pírata við þessum atburðum voru að benda á það
sem var að gerast og krefjast umræðu og viðeigandi viðbragða.
Við bentum á lögbrot dómsmálaráðherra í landsréttarmálinu
og kröfðumst umræðu þar um. Við stóðum að opnum nefndar-
fundum um uppreist æru, upplýsingagjöf ráðherra og brot
hennar á upplýsingalögum, og við gáfum þolendum rödd á
þinginu. Við stóðum líka að opnum fundi um lögbannið á frétta-
flutning Stundarinnar.
Ræktum lýðræðið
Nú hefur tekið við ný ríkisstjórn sem boðar ný vinnubrögð og
aukið traust á Alþingi og æðstu stofnanir ríkisins. Hún hafði ekki
starfað nema örfáar vikur þegar hæstiréttur staðfesti að dóms-
málaráðherra braut stjórnsýslulög við val sitt á dómurum í
Landsrétt. Ekkert útlit er þó fyrir að ríkisstjórn Katrínar Jak-
obsdóttur og þingmenn meirihlutans á bak við hana geri þá sjálf-
sögðu kröfu að dómsmálaráðherra axli ábyrgð á alvarlegu lög-
broti, sem hún framdi vísvitandi eftir að hafa margítrekað verið
vöruð við. Meðal annars af þingmönnum núverandi meirihluta.
Píratar brugðust við pólitískum skipunum dómsmálaráð-
herra í stöðu dómara við Landsrétt með því að standa að rann-
sókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á embættisathöfnum
ráðherra. Við féllumst á að bíða á meðan réttarhöld stóðu yfir í
málinu. Nú þegar þeim er lokið munum við halda rannsókn okk-
ar áfram og skoða m.a. hvort tilefni sé til að stefna ráðherra
fyrir Landsdóm.
Píratar hafa frá upphafi barist fyrir auknu lýðræði, þar sem
tjáningarfrelsi allra er tryggt, og munu gera það áfram. Píratar
brugðust við lögbanni á fréttaflutning frjáls og óháðs fjölmiðils
með því að leggja fram frumvarp sem færir ákvörðunarvaldið í
málum sem þessu frá sýslumanni í hendur dómara. Við munum
fylgja því frumvarpi eftir á komandi ári.
Við erum farin að taka lýðræðinu sem gefnu. Sem sjálfsögð-
um og óhagganlegum hluta af tilveru okkar. Það eru mistök.
Víða um heim er sótt að lýðræðinu, sumstaðar af mikilli hörku.
Ég hef þegar minnst á Bandaríkin í því sambandi. Það þarf ekki
að minnast á Kína, Rússland, Norður-Kóreu, Erítreu, Súdan
eða Sádi-Arabíu. En við sjáum það á því sem er að gerast í Suð-
ur-Afríku, í allt of mörgum ríkjum Suður-Ameríku, í Tyrklandi
og líka enn nær okkur; í Póllandi, Ungverjalandi og jafnvel
Austurríki, að það má ekki ganga að lýðræðinu sem gefnu. Að
það má aldrei hætta að hlúa að því, rækta það, næra og styrkja.
Því þá er voðinn vís.
Píratar berjast fyrir lýðræði og réttlátu samfélagi, þar sem
réttarríkið tryggir hlutleysi og sjálfstæði dómara. Við höfum
barist og munum áfram berjast fyrir samfélagi, þar sem kosn-
ingar byggjast á upplýstri ákvörðun almennings, laus við áróð-
ur fjársterkra afla sem gæta eigin hagsmuna frekar en almenn-
ings. Píratar eru stjórnmálahreyfing sem vinnur að eflingu
lýðræðis. Við trúum því nefnilega að lýðræðið og grunnstoðir
þess séu fótfesta og undirstaða siðaðs og manneskjulegs sam-
félags í síbreytilegum heimi.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
ÞÓRHILDUR SUNNA ÆVARSDÓTTIR, ÞINGMAÐUR PÍRATA
Dómsdagar lýðræðisins
’ Við erum farin að taka lýðræðinusem gefnu. Sem sjálfsögðum ogóhagganlegum hluta af tilveru okkar.Það eru mistök. Víða um heim er sótt að
lýðræðinu, sumstaðar af mikilli hörku.