Morgunblaðið - 12.01.2018, Blaðsíða 11
FRÉTTIR 11Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. JANÚAR 2018
40%
afsláttu
r
CARAT Haukur gullsmiður | Hátúni 6a | Sími 577 7740 | carat.is
Sendum frítt um allt land
OFURTILBOÐ
gull og demantar
Skoðaðu úrvalið á carat.is
VIÐTAL
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Magdalena Sigurðardóttir hefur
verið edrú í fimm ár. Þegar hún fór í
meðferðina sem virkaði haustið 2012
hafði hún sofið í ruslageymslu í þrjár
nætur, búin að missa allt sitt. Dvölin
í ruslageymslu í Stórholtinu með
rottu og ungunum hennar þremur
varð til þess að hún áttaði sig á því
að botninum var náð. Hún kom sér
heim til móður sinnar og hringdi í
meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot
þar sem hún var tekin inn daginn
eftir. Þar dvaldi Magdalena í sex og
hálfan mánuð og hefur verið edrú
síðan. Í dag starfar hún sem fíkni-
ráðgjafi og hjálpar konum sem eru í
sömu stöðu og hún var í fyrir fimm
árum.
„Ég var virkur áfengis- og fíkni-
efnafíkill í fjórtán ár,“ segir Magda-
lena. Hún kemur blaðamanni fyrir
sjónir sem afskaplega heilsteypt,
hraust og falleg manneskja og það
er erfitt að ímynda sér að hún hafi
eitt sinn búið á götunni. „Ég byrja
mjög seint í neyslu, upp úr skilnaði
við eiginmann minn. Þegar ég skil
brestur eitthvað inni í mér end-
anlega og áföll sem voru á undan
gengin brjótast fram. Þetta byrjar
voðalega saklaust hjá mér, bara á
rauðvínstári en á fjórtán árum missi
ég allt frá mér og enda á götunni.“
Magdalena segist hafa verið mjög
langt leidd í fíkninni og alkóhólism-
anum og ekki getað lifað daginn af
án þess að fá eitthvað. „Undir lokin
var ég farin að taka dauðaskammta,
sturtaði í mig heilu krukkunum á
dag og skolaði niður með brennivíni.
Ég tók mikið af rítalíni og róandi
töflum og blandaði öllu saman.“
Til að fjármagna neysluna lagði
Magdalena allt í sölurnar, hún
stundaði glæpi og vændi og var ein
af þeim fyrstu sem fóru að dansa
nektardans hér á landi. „Þá kynntist
ég algjörum viðbjóði, mansali og
vændi þar sem bæði konur og ungir
strákar voru gerð út. Það er svoleið-
is ennþá í dag.“
Ákvað að hjálpa öðrum í neyslu
Þrátt fyrir að vera nánast komin í
gröfina undir lokin blundaði alltaf
einhver lífsvilji í Magdalenu og hún
fór reglulega í meðferð á neyslutím-
anum. „Ég var alltaf að reyna að
bjarga lífi mínu en var í leiðinni í
mikilli afneitun á sjúkdómi mínum.
Ég fór inn og út af geðdeildum, að-
eins inn á Klepp og ég var endalaust
í afeitrunum á Vogi og í Hlaðgerðar-
koti. Núna síðast var ég í sex og hálf-
an mánuð í kristilegri meðferð í
Hlaðgerðarkoti og það virkaði. Ég
tók Jesú Krist inn í mitt líf og er bú-
in að vera edrú síðan,“ segir Magda-
lena sem er virk í starfi Fíladelfíu-
safnaðarins.
Kynni hennar af Jesú Kristi
hjálpa henni að rísa upp úr ösku-
stónni og í kjölfarið ákveður hún að
hjálpa fólki í sömu stöðu og hún var
í. „Í gegnum trúnaðarkonu mína í
Hlaðgerðarkoti fer ég í tólf spora
samtök og í gegnum þau fer ég að
hjálpa öðrum konum. Einn alkóhól-
isti kennir öðrum alkóhólista því við
eigum svo margt sameiginlegt;
reynsluna, styrkinn og vonina um að
þetta sé hægt. Ég hitti konurnar
innan meðferðar og á fundum og svo
fer ég mikið inn á stofnanir með
fyrirlestra. Þar kynnist ég konum
sem biðja mig um hjálp og ég segi
aldrei nei. Ég hef líka verið að hjálpa
ungum drengjum við að finna skyn-
samlegustu leiðina út úr neyslunni.
Að hjálpa öðrum hjálpar mér líka,
það minnir mig á hvaðan ég kem.“
Í kjölfarið á að aðstoða í gegnum
tólf spora samtök ákveður Magda-
lena að fara í Ráðgjafaskóla Íslands
og klárar þar fyrsta stig 2016 og
framhaldið í fyrra. Markmið hennar
er að vinna áfram við fíkniráðgjöf.
„Þegar ég var þarna úti öskraði ég á
hjálp inni í mér en vissi ekki hvað ég
átti að gera, ég var búin að brenna
allar brýr að baki mér og beið eftir
því að deyja úr þessum sjúkdómi,
því ég var löngu farin í höfðinu. En
sem betur fer var mér bjargað. Þeg-
ar ég kom út úr meðferð varð ég,
eins og flestir, svolítið týnd en fékk
þá trúnaðarkonu sem leiddi mig á
rétta braut. Hún sagði mér að muna
að ef ég gef þetta ekki áfram þá
verður það tekið af mér og ég hef
verið í að bjarga öðrum síðan ég
varð þrettán mánaða edrú og aldrei
tekið mér frí.“
Harðara og hraðara ástand
Hún segir ekki alltaf auðvelt að
bjarga fólki úr þessum aðstæðum og
ekki allir tilbúnir í það, hún sé fljót
að sjá fúsleikann í fólki. „Þeir sem ég
hef náð mestum árangri með eru
þeir sem eru nógu mikið búnir á því
og eiga ekkert eftir, eins og ég var
sjálf. Þá gefur maður allt í þetta og
er fús til að gera þessa hluti því mað-
ur veit að annars vinnur sjúkdóm-
urinn. Ég er yfirleitt að fást við fólk-
ið sem er á götunni því fólkið sem er
ekki búið að missa allt sitt er heima
að drekka og er oft ekki tilbúið til að
sjá sitt vandamál. Ég get ekki bjarg-
að öllum en ég geri mitt besta og er
alltaf til staðar ef eitthvað er.“
Það gefur Magdalenu mikið að sjá
fólk komast á beinu brautina og
verða að nýtum samfélagsþegnum.
„Ég hef verið með konur sem hafa
verið mjög langt leiddar og jafnvel
inni í fangelsum og allir búnir að gef-
ast upp á þeim. Ég hef líka verið
með konur sem hafa verið með
hættulegum glæpamönnum og nú
eru þær lausar úr þeim hlekkjum,
orðnar edrú og farnar að lifa lífinu
sjálfar. Konur eru oft sjálfum sér
verstar í þessum aðstæðum. Þær
fara í gegnum allskonar niðurlæg-
ingar og brjóta sig svo niður fyrir
það. Þær eiga erfitt með að fyrirgefa
sjálfum sér. Konur eru að gera svo
marga hluti til að lifa þetta af og eft-
ir því sem þær lifa þetta meira af,
því meiri skaði verður.“
Magdalena segir fíkniefnaheiminn
mjög harðan, mikið um vændi og
glæpi og verið að blanda saman efn-
um í miklum mæli. Neyslan á sér
ekki bara stað í jaðarhópum því
neysluhyggjan í dag hefur ýtt fólki í
krefjandi störfum og námsmönnum
undir miklu álagi út í neyslu örvandi
efna. Það fólk missir líka tökin á
endanum. Ekkert mál er að nálgast
fíkniefni að sögn Magdalenu, þau
streymi hér inn bæði landleiðina og
loftleiðina. „Ástandið á götunni er
miklu harðara en það var fyrir
nokkrum árum. Það er mikið af örv-
andi efnum og svo eru að koma ný
efni sem drepa fólk. Svo ég tali nú
ekki um kannabisið sem er búið að
stökkbreyta og blanda svo mikið að
ungir krakkar grilla í sér topp-
stykkið með nokkrum smókum. Ég
fer mikið inn á geðdeild og að sjá
krakkana þar; þau eru dottin inn í
nánast varanlegt geðrof af kannabis-
reykingum. Þetta er hræðilegt efni
og fólk lokar augunum fyrir skað-
semi kannabis því það er svo þægi-
legt að þurfa ekki að vita af unga
fólkinu okkar í dag sem er alltaf svo
stillt og rólegt í tölvunni, þar til allt
springur,“ segir Magdalena og hún
veit hvað hún er að tala um. „Það er
svo mikill hraði og ráðaleysi í öllu og
ég held að snjallsímar og samskipti í
netheimum hafi þar áhrif. Það skort-
ir á mannleg samskipti en það eru
þau sem þroska okkur, við erum
manneskjur, ekki tæki.“
„Í alvörunni, viljið þið fá mig?“
Magdalena segir mörg flott með-
ferðarúrræði í boði í dag en alltaf sé
hægt að gera betur. Hún vill sjá öfl-
ugri forvarnir og að kafað sé dýpra í
meðferðum, farið í rót vandans sem
má oft finna í barnæsku manneskj-
unnar. Eftirfylgni eftir meðferð þarf
líka að vera góð.
„Ég bjó í þrjá sólarhringa í rusla-
geymslu því ég var búin að missa allt
frá mér. Ég var búin að drekka út
húsnæðið, bílinn, börnin og fjöl-
skylduna, ég var búin að drekka út
arf föður míns og mamma gat ekki
haft mig lengur. Það var allt farið frá
mér nema ég átti níu bretta búslóð í
geymslu og þegar ég fékk það til
baka gaf ég fimm bretti til bág-
staddra því ég hafði ekkert með
þetta dót að gera. Í ruslageymslunni
er mín vakning, ég er með veskið
mitt og vínið mitt og dópið mitt, sím-
ann, sígarettur og peninga. Það
kemur mér til mömmu þar sem ég
hringi upp í Hlaðgerðarkot þar sem
mér er sagt að ég megi koma og ég
spyr: „Í alvörunni, viljið þið fá mig?“
Þarna er ég svo búin á því. Ég fór
uppeftir daginn eftir og þá tók við
heljarinnar vinna. Hér er ég í dag,
kona sem var á götunni og átti
hvergi heima. Það er til svo mikið af
kraftaverkum eins og mér þarna úti
og sem betur fer er fullt af fólki eins
og mér sem er að hjálpa.“
„Að hjálpa öðrum hjálpar mér“
Missti tökin eftir skilnað og var í fjórtán ár í vímuefna- og áfengisneyslu Svaf í ruslagámi með
rottu Hefur verið edrú í fimm ár Starfar sem fíkniráðgjafi í dag og hjálpar öðrum úr neyslu
Morgunblaðið/Hanna
Björgun Magdalena Sigurðardóttir hefur verið virk í starfi Fíladelfíukirkjunnar síðan hún kom úr meðferð.