Morgunblaðið - Sunnudagur - 20.05.2018, Side 17
Er ekkert þreytandi að standa uppi á sviði
kannski í sextugasta skipti? Eða finnur maður
alltaf einhvern neista?
„Er þreytandi að leggja flísar á enn eitt bað-
herbergið? Já, alveg örugglega. En ef þú reynir
að gera það betur en síðast, setur eitthvað af
sjálfum þér í verkið, þá hafa handtökin tilgang
og vægi og þá er þreyta aukaatriði. Þetta kemur
líka í bylgjum. Ég held ég hafi leikið í næstum
því fjögur hundruð sýningum af Rómeó og Júl-
íu. Í London vorum við að leika á hverjum virk-
um degi, og tvisvar á laugardegi og tvisvar á
sunnudegi. Stundum vissi maður ekkert hvar
maður var staddur; er ég búinn að leika þessa
senu eða er ég að fara að leika hana? Einu sinni
lenti ég í að fara bara í vitlausan búning því mér
fannst ég búinn að leika þetta og það væri kom-
ið eftir hlé. Þegar ég áttaði mig svo á mistök-
unum í sviðsvængnum var ekki um annað að
ræða en að rífa sig úr búningnum og ég lék sen-
una á brókinni,“ segir hann og skellihlær.
Var það allt í lagi?
„Já, hvað segir ekki í laginu, allt fyrir frægð-
ina nema að koma nakinn fram. Ég var ekki
nakinn, en næstum því. Þetta var dálítið
„panikk“. En það tók enginn eftir því, það komu
engin kvörtunarbréf. Ég var reyndar að leika
Jesú, þannig að það slapp alveg að vera á lenda-
skýlunni, þó þyrnikórónuna vantaði,“ segir
hann og brosir.
Skipulagði óvænt brúðkaup
Ólafur segir foreldrana vissulega vera fyrir-
myndir sínar í lífinu en aðrir hafa einnig haft
áhrif. „Ég á einstaklega góða vini úr leikhúsinu
og þeir eru mér stöðugur innblástur. Við erum
mjög samheldinn vinahópur. Kona mín er leik-
kona, hún er líka mín fyrirmynd. Þolinmóð og
skilningsrík, eins og ég er alltaf að reyna að
vera. Ég skildi hana til dæmis aleina eftir í
miðjum flutningum þegar ég fór til Cannes
núna um helgina og hún þurfti að klára að
pakka búslóðinni og gera og græja allt. Ætli ég
verði ekki að taka hana til fyrirmyndar og lofa
að gera þetta einn næst,“ segir hann og brosir.
Ólafur segist hafa kynnst konu sinni, Esther
Taliu Casey í bernsku.
„Við kynntumst fyrst um sjö ára aldurinn og
urðum par fimmtán ára. Við erum heppin að
mörgu leyti, sum svona sambönd ná ekki alla
leið og fólk vex sitt í hvora áttina og allt gott um
það segja. En við höfum verið sundur og saman
og upp og niður en alltaf náð í gegnum erfiðu
kaflana. Brot úr hjónabandi sem ég setti upp
með hjónunum Unni Ösp og Birni Thors, vinum
úr mínum innsta kjarna, var nokkurs konar út-
tekt og uppgjör á sambandi okkar, og sam-
böndum yfir höfuð. Og þegar það var frá fannst
mér vera kominn tími fyrir okkur að gifta okk-
ur, en það gerðum við síðasta vetur. Þá vorum
við búin að vera saman í tuttugu og fimm ár,“
segir hann.
„Við giftum okkur á Café París á fertugs-
afmælinu og partíið stóð fram undir morgun,“
segir Ólafur sem kom Esther á óvart því brúð-
urin tilvonandi vissi ekki að til stæði að gifta sig
þetta kvöld.
„Hún var búin að vera að tala um að ganga í
það heilaga, af mörgum praktískum ástæðum,
en hún er mjög praktísk. Hún vill hafa borð fyr-
ir báru og vaðið fyrir neðan sig og allt það. Ég
sá mér þarna leik á borði. Mig langaði alls ekki í
mikla serímóníu, kirkju og allt það, og ég vissi
svo sem að Esther var mér sammála svo ég
ákvað að koma henni dálítið á óvart í sameigin-
legu fertugsafmæli okkar, sem var yfirvofandi á
árinu. Þá tók eiginlega við lengsta leikrit sem ég
hef tekið þátt í. Leikritið: Æ nei, sleppum þessu
bara. Þannig að ég dró úr þessu við hvert tæki-
færi. Á endanum var hún farin að bjóða það sem
málamiðlun að við færum til borgardómara en
ég sagðist enn vera tvístígandi. En við vorum
búin að ákveða að halda þessa veislu, fertugs-
afmælin okkar, og buðum öllum vinum, vanda-
mönnum og velunnurum. Samtímis lagði ég á
ráðin með mínum nánustu, presturinn tók með
sér skrúðann, brúðarvöndur var falinn undir
borði og hringar með,“ segir Ólafur.
Enn vissi Esther ekkert hvað stæði til.
„Veislustjórinn, Hlynur Páll, stórvinur okkar og
lífskúnstner, var beðinn um að tilkynna að ef
fólk stæði í þeirri meiningu að þetta væri brúð-
kaup, þá væri það alls ekki tilfellið. Hér stæði til
að fagna fertugsafmæli og það væri nú aldeilis
nóg,“ segir Ólafur.
„Svo stigum við Esther á stokk og buðum fólk
velkomið en þegar ég fékk orðið bar ég upp bón-
orðið. Svipurinn á Esther var algjörlega óborg-
anlegur og alveg þess virði að hafa platað hana í
nokkra mánuði,“ segir Ólafur og hlær.
„Börnin okkar Eyja og Egill birtust svo með
hringana og Pjetur Maack, skáfaðir minn, kom-
inn í fullan skrúða, vöndurinn kom fljúgandi, tíu
mínútum seinna vorum við gift. Pabbi tók svo
fram gítarinn og spilaði fyrir okkur og hjóna-
bandið var þar með innsiglað.“
Leikarar í leynilegum hlutverkaleik
Hvernig er að komast á fimmtugsaldur, er að
færast yfir þig ró?
„Ég held að maður verði þakklátari með aldr-
inum. Lærir að nýta betur þann tíma sem
manni er gefinn til þess að fá að elska aðra. Ég
er að reyna að vanda mig í því,“ segir Ólafur.
„Það er yndislegur tími framundan. Börnin
okkar Ragnheiður Eyja og Egill eru algjörir
sólskinsgeislar,“ segir hann og segist reyna að
nýta frítímann sem best með fjölskyldu og vin-
um. En eftir nánari samtal kemur í ljós að Ólaf-
ur á sér fleiri áhugamál; leyndarmál sem hann
ákveður nú að ljóstra upp.
„Ég hef spilað hlutverkaspil síðan ég var ung-
lingur. Það er nú ekki fjarri leiklist; menn taka
að sér hlutverk og einn stýrir sögunni. Þetta eru
oft fantasíur eða eins konar vísindaskáldsögur.
Stundum leikur maður sömu persónuna mörg
kvöld og jafnvel heilu árin. Þetta þótti óskap-
lega lúðalegt einu sinni en er bæði mannbæt-
andi og skemmtilegt.“
Þannig að leikarar hittast sér til gamans og
fara í hlutverk?
„Já, þeir gera það reyndar!“ segir hann og
hlær.
„Spilahópurinn minn er bara skipaður fólki
úr leikhúsinu. Ég kem út úr skápnum með þetta
bara núna. Það getur verið ágætt að vera á
fimmtugsaldri og spila hlutverkaleik eins og
maður gerði þegar maður var tólf ára,“ segir
hann og brosir breitt.
Megi það byrja með mér
Hvaða lífsreynsla hefur þroskað þig mest í líf-
inu?
„Það er nú svo margt held ég. Ég er ósköp
seinþroska og hef alltaf tekið þetta út í síðbún-
um rykkjum finnst mér. En ég nefni kannski
tímabilið þegar ég ætlaði að bjarga systur minni
frá þeirri vegferð sem hún var á og stóð þá
skyndilega frammi fyrir mínum eigin vanmætti,
minni eigin stjórnsemi og kvíða. Ég þurfti svo-
lítið að gefast upp á því að gera hluti á hnef-
anum. Ég var svo heppinn að kynnast góðum
manni sem var í einum af þessum ágætu tólf
spora samtökum,“ segir Ólafur sem segir það
hafa hjálpað sér mikið.
„Hvort sem maður fer í einhver samtök, leit-
ar til sálfræðings eða fær góð ráð hjá vini, þá
ber það allt að sama brunni. Þetta er einhvers
konar endurnýjun sem maður kallar eftir sjálf-
ur, meðvitað eða ómeðvitað, og þá er um að gera
að leita eftir stuðningi eða hjálp til þess. Maður
þarf ekki að standa frammi fyrir sínum breysk-
leikum og vandamálum einn, eins og margur
heldur kannski. Ég held að allir líti á ein-
hverjum tímapunkti inn á við, fari að skoða hvað
sé að ganga upp og hvað ekki. Hvað við gerum
svo í því og hvenær er svo annað mál. Ég mæli
með fyrr frekar en seinna. Þetta var mikið
gæfuspor fyrir mig. Svo þurfti systir mín auð-
vitað að finna út úr sínum málum á eigin spýtur,
sem hún og gerði,“ segir hann.
„Ég hélt að ég þyrfti að hjálpa henni, en ég
þurfti að byrja á sjálfum mér, eins og oft er
raunin. Megi það byrja með mér, því minnsta
eða mesta sem ég get gert. Það er ákveðin hlið-
stæða í þeirri hugsun við ferðalag hetjunnar í
myndinni Kona fer í stríð; ég segi ekki meira því
þá fer ég að gefa of mikið upp, en ég held að ef
okkur á að takast að bjarga heiminum, þá er það
þannig sem það gerist, hver og einn mokandi
með sinni teskeið, eða skurðgröfu,“ segir hann
kíminn.
Spurður hvað hefði mátt betur fara í lífinu,
svarar Ólafur: „Eftirsjáin horfir afturábak,
áhyggjurnar horfa fram og hvorugt hefur nokk-
uð með hina líðandi stund að gera í rauninni. Og
þegar maður horfir of mikið aftur og of mikið
fram, þá veit maður ekkert hvar maður er að
setja fæturna. Þá getur oft farið verr en illa,
sérstaklega ef maður ætlar að gera betur en
vel.“
Ólafur Egill og Esther Talia eiga börnin
Ragnheiði Eyju og Egil. Nú styttist í að
fjölskyldan flytji inn í æskuheimili Ólafs.
Morgunblaðið/Ásdís
’Maður þarf ekki að standaframmi fyrir sínum breysk-leikum og vandamálum einn, einsog margur heldur kannski. Ég held
að allir líti á einhverjum tíma-
punkti inn á við, fari að skoða
hvað sé að ganga upp og hvað
ekki. Hvað við gerum svo í því og
hvenær er svo annað mál. Ég mæli
með fyrr frekar en seinna.
20.5. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17