Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.07.2018, Page 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.07.2018, Page 18
VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1.7. 2018 B eatriz Soares Ladeira er fyrir- myndarnemandi í alla staði en hún fékk A í samræmdu prófi í ís- lensku eftir að hafa búið á landinu í rúmt eitt og hálft ár. Hún fékk líka A í samræmdu prófi í stærðfræði og rað- töluna 100 sem þýðir að enginn var hærri en hún á landinu þó einhverjir geti hafa fengið sömu einkunn. En hvernig er það hægt að fá hæstu einkunn í umdeildu samræmdu prófi sem kvartað hefur verið mikið undan eftir að hafa verið svona stutt á Íslandi? Því getur Beatriz hæglega svarað, á íslensku að sjálf- sögðu, en fyrst; hvernig stendur á því að hún og fjölskylda hennar fluttu til landsins frá Brasilíu? Aline, móðir hennar, verður fyrir svörum. Hún er ekki eins góð í íslenskunni og dóttirin en segist vera búin að læra heilmikið í málinu eftir að hún fór að vinna í janúar og notast því við ensku í bland við íslenskuna. Fjölskyldan kom til landsins í tengslum við starfsemi kaþ- ólsku kirkjunnar á Íslandi. „Þrjár fjölskyldur komu á sama tíma hingað til lands til að hjálpa,“ segir Aline en hinar fjölskyldurnar tvær eru frá Ítalíu. Hún útskýrir að valið að fara til Íslands sé ekki þeirra heldur sé þeim úthlutað landi en dregið er um áfangastað. „En við fáum síðan auðvitað að ráða hvort við tökum þessu boði,“ segir Aline en úr varð að sjö manna fjöl- skyldan flutti hingað í júlí 2016. Aline og mað- ur hennar Gustavo eiga fimm börn, Beatriz, sem er fimmtán ára, er elst en yngst er Julia, tveggja ára. Þar á milli eru Pedro, Rafael og Clara. Ekkert um veturinn á netinu En hvernig leist þeim á að fara til Íslands? „Ég man þegar mamma mín sagði mér frá þessu. Ísland? Hvar er það? Ég var alveg til í að fara en hafði aldrei heyrt um Ísland áður. Ég byrjaði að leita á netinu að upplýsingum og sá að það væri miðnætursól þar,“ segir Beat- riz. „Og stundum bara rigning,“ leyfir blaða- maður sér að skjóta að og vísar til tíðarinnar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. „Og líka veturinn, það var ekkert um hann á netinu,“ segir Aline og hlær. Það var samt vel við hæfi að það var stund milli stríða, sólardagur þegar blaðamaður hitti mæðgurnar á hinu sólríka og blómlega kaffi- húsi Flóru í Laugardalnum. Staðurinn hæfði mæðgunum ákaflega vel en þær eins og flestir orðnar þreyttar á sólarleysinu. „Mér finnst mjög gaman að vera hér. Ég er mjög hrifin af náttúrunni. Ég held að Guð hafi valið rétta staðinn fyrir okkur. Það sem var erfitt fyrir mig og ég held börnin líka er vet- urinn. Út af myrkrinu, ekki út af kuldanum. Kuldinn er ekki vandamálið en myrkrið er erf- itt. Við höfum alltaf búið á sólríkum stöðum,“ segir Aline. Góðar móttökur í Seljaskóla „Það hefur verið tekið ótrúlega vel á móti okk- ur hérna, ég bjóst ekki við því fyrirfram. Þegar við komum hittum við svo margt indælt fólk, sérstaklega í gegnum skólann,“ segir Aline en fjögur af fimm börnum eru í Seljaskóla í Reykjavík en sú yngsta bíður þess að komast inn í leikskóla. „Við erum mjög þakklát öllum í skólanum. Ég er viss um að það hvað Beatriz gangi vel í íslensku sé að stórum hluta skólanum að þakka.“ Hvernig var fyrir þig, Beatriz, að byrja í ís- lenskum skóla? „Í byrjun voru allir mjög al- mennilegir og hjálpuðu mér mikið. Ég var í sérstökum íslenskutímum. Ég gerði allt á ís- lensku. Það var mjög erfitt því ég skildi eig- inlega ekkert fyrst.“ Hún segist þó hafa byrjað á því að tala ensku við vinkonur sínar en fannst eins og ef hún talaði alltaf bara ensku myndi hún ekki komast almennilega inn í hópinn. Hún fór svo smám saman að tala meiri íslensku en fór síð- an til frí til Brasilíu síðasta sumar. „Þá varð ég hrædd um að ég myndi bara gleyma öllu. Þeg- ar ég kom til baka sagði ég við sjálfa mig, ég ætla bara að tala íslensku, enga ensku.“ Það plan virðist aldeilis hafa gengið upp. En hvernig tókst henni að ganga svona vel á sam- ræmda prófinu? „Það var æðislegt, ég gat varla trúað þessu,“ segir Beatriz. Hún segist hafa farið vel yfir námsefnið og síðan tveimur dögum fyrir prófið hafi hún sökkt sér algjörlega ofan í það og einbeitt sér að föllum í íslensku. Hún segir það hafa verið erfitt og að hún sé nú að ná betri tökum á þeim í töluðu máli. „Mér finnst málfræði skemmtileg og ég hef gaman af því að skilja hvernig málið virkar.“ Mamma hennar segir að hún hafi skrifað málfræði á litla gula miða sem hún hengdi upp út um allt á heimilinu. „Það var allt gult,“ segir hún og hlær. Samdi lag um fornöfn „Ég gerði lag fyrir óákveðin fornöfn og var til dæmis að bursta tennur og syngja það um leið,“ segir Beatriz, sem er greinilega frumleg í lærdómsaðferðum sínum. Ertu eitthvað í tónlist? „Nei, en mér finnst gaman að tónlist en ég er að æfa ballett,“ segir Beatriz, sem er í Klassíska listdansskólanum og hefur æft frá þriggja ára aldri. Hún er ánægð með skólann og segir að það hjálpi að það sé eitt alþjóðlegt ballettmál, franska. Nemendur og kennarar hafi líka verið hjálplegir. Hvað frábæran árangur í stærðfræði varðar segist hún hafa fengið góða hjálp frá pabba sínum sem er verkfræðingur. „Pabbi minn er mjög góður í stærðfræði, í Brasilíu var ég alltaf að spyrja hann um stærð- fræði. Mér finnst stærðfræði skemmtileg. Kannski ekki alveg öll stærðfræði, ekki rúm- fræði, en ég hef til dæmis mjög gaman af al- gebru. Það sem ég skildi ekki vel í tímum spurði ég pabba minn um,“ segir Beatriz sem þakkar árangur sinn í stærðfræði að stórum hluta föður sínum. Það er eitt að kunna námsefnið og annað að koma því til skila í prófi. „Ég er alltaf ótrúlega stressuð fyrir próf. Get varla sofið, vakna fyrr en ég á að vakna því ég er að hugsa um að mæta ekki seint. Þegar það eru svona 20 mín- útur í próf verður mér kalt á höndum og ég svitna og verður illt í maganum,“ segir Beatriz en þrátt fyrir prófastressið gengur henni svona vel og segist loks geta slakað á þegar hún les prófið og sjái að hún kunni efnið sem spurt er um. Lærði ítölsku á Íslandi Íslenska, enska og portúgalska eru ekki einu tungumálin sem Beatriz talar. Hún talaði góða þýsku en fjölskyldan bjó í Þýskalandi árin 2007-2008 en tungumálið er að miklu leyti gleymt núna, að minnsta kosti í bili. En hún lærði ekki aðeins íslensku heldur líka ítölsku eftir að hún kom til landsins. „Það komu tvær fjölskyldur frá Ítalíu hing- að á sama tíma og við. Við ákváðum að læra ítölsku til að geta talað við þær,“ segir Beatriz en fjölskyldurnar eiga í miklum samskiptum sín á milli. „Ég lærði ítölsku bara á því að tala við þær og hlusta. Það hjálpar mér mjög mikið að hlusta vel á hvað fólk segir, fylgjast með hvað það gerir og hvaða orð það notar,“ segir Beatriz. „Öll börnin mín tala núna ítölsku. Þessi yngsta sem er tveggja ára talar góða ítölsku en núna er hún farin að tala íslensku. Ítalska er fyrsta tungumálið sem þau lærðu á Íslandi en þau lærðu hana mjög hratt, tók svona tvo mán- uði. Síðan kom íslenskan,“ segir Aline. Þær segja að tungumálið komi með því að vera í skóla en yngsta dóttirin byrjar í leik- skóla í ágúst og þá kemur tungumálið áreið- anlega hratt. „Ítalska er smá svipuð og portúgalska,“ seg- ir Beatriz. „Mér finnst það fallegt tungumál og mig langaði að læra það. Ég vildi líka læra ís- lensku en það var bara aðeins erfiðara.“ Líf þeirra í Brasilíu var öðruvísi en það er á Íslandi. Aline er læknir en starfar ekki sem slíkur hér á landi. „Ég kláraði námið 1999. Eftir það tók ég tvö ár þar sem ég sérhæfði mig í heimilislækn- ingum. Tíu fyrstu árin vann ég í háskóla- sjúkrahúsinu og kenndi þar nemendum og sá um sjúklinga. Eftir að ég eignaðist fjórða barnið breytti ég til og fór að vinna á lækna- stöð sem sérhæfði sig í sjúklingum með áhættusjúkdóma eins og sykursýki og of háan blóðþrýsting. Ég fylgdist með sjúklingum sem þurftu á því að halda eins og þeim sem voru oft inn og út úr spítalanum,“ segir hún en mark- miðið var að fækka sjúkrahúsheimsóknum. Starfið á læknastöðinni var hlutastarf en það var of annasamt fyrir hana að vera í meira en fullu starfi á háskólasjúkrahúsinu með svona mörg börn. „Þegar ég kláraði vinnuna fór ég að sækja krakkana í skólann. Þau fara ekki ein í og úr skólanum í Brasilíu, það er ekki hægt. Það er bara hættulegt. Ég var því með þeim seinnipartinn og ég þurfti líka að skutla þeim í ýmsar íþróttir,“ segir Aline. „Þegar ég kom hingað vissi ég að það yrði ekki auðvelt að fá vinnu sem læknir hér. Að fá öll leyfi og líka út af tungumálinu. Ég veit ekki enn hvernig þetta fer. Ég veit ekki hvernig er- indi mínu verður tekið; ég er búin að þýða öll skjölin mín og fara með til Embættis land- læknis og núna er búið að senda þetta til há- skólans sem er með þetta til meðferðar,“ segir Aline sem segist bíða þolinmóð. Vill hjálpa fólki Hún byrjaði því í öðru starfi í janúar, hjá Sjálfsbjörg í Hátúni 12. „Þar þurfa margir að- Tími til að læra og lifa Hin brasilíska Beatriz Soares Ladeira fékk A, hæstu einkunn, í samræmdu prófi í íslensku fyrr í vetur eftir að hafa búið aðeins í eitt og hálft ár á Íslandi. Aline, móðir hennar, er læknir en hefur ekki getað notað menntun sína á Íslandi. Lífið er ólíkt því sem sjö manna fjölskyld- an lifði í Brasilíu en hér hafa börnin meira frelsi. Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.