Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.07.2018, Side 14
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.7. 2018
H
jartað slær í skútunni Sjófugl-
inum þessa dagana hjá Agli og
Tinnu en þau eiga þó afdrep á
Íslandi þar sem þau hafa vet-
ursetu. Úr íbúðinni er að sjálf-
sögðu útsýni yfir hafið sem þau unna og hafa
kynnst rækilega síðustu fjögur árin, en þau hafa
siglt skútu sinni frá vori og fram á haust síðan
2015. Í stuttu stoppi á Íslandi nær blaðamaður í
skottið á sæförunum tveimur og fær að heyra
sögur af siglingum og hinum ævintýralega nýja
lífstíl sem þau njóta til hins ýtrasta.
Tímabært að yfirgefa sviðið
Gamlir munir og gömul falleg húsgögn prýða
annars nýtískulegu íbúðina í Skuggahverfinu
hjá Agli og Tinnu. Hjónin sitja í sófa með út-
skornu baki og eru komin í stellingar fyrir við-
tal. Það er óhætt er að segja að þau hjón hafi
skilað góðu dagsverki og lagt sitt á vogarskálar
menningar og listar og er nú kominn tími til að
njóta lífsins á annan hátt en áður.
„Þegar ég lauk mínum skipunartíma sem
þjóðleikhússtjóri eftir tíu ár, en þar áður hafði
ég starfað sem leikkona við Þjóðleikhúsið í 25
ár, fannst mér kominn tími til að yfirgefa þetta
magnaða hús. Mín ástríða hefur allar götur ver-
ið leiklistin, en á þessum tímapunkti fannst mér
ég geta litið yfir farinn veg og verið mjög sátt
við þau tækifæri sem ég fengið og það atlæti
sem ég hef notið í starfi mínu bæði sem leikari
og leikhússtjóri. Ég var að auki búin að ávinna
mér réttindi ríkisstarfsmanna til lífeyristöku,
samkvæmt 95 ára reglunni, þannig að ég hafði í
raun frelsi til að ráðstafa tíma mínum og það var
einmitt það sem ég kaus að gera. Þjóðleikhúsið
var í góðum höndum og tímabært að yfirgefa
sviðið. Lífið heldur áfram og engin ástæða til
annars en að leggja sig fram um að lifa því til
fulls og takast á við nýjar áskoranir meðan orka
og aldur endast,“ segir Tinna.
Egill hefur að mestu skapað sér sín tækifæri
sjálfur og verið mikilvirkur í tónlistinni, auk
þess að koma við í leikhúsunum og kvikmyndum
eins og Tinna.
„Þetta eru að verða 44 ár sem ég hef í raun
verið á bólakafi í vinnu. Skemmtilegri vinnu
auðvitað, en það var oft ekki mikið staldrað við
heima og í raun gafst mér ekki tími til að hugsa
mikið annað. Það var þó ýmislegt sem hafði ver-
ið að gerjast með mér óskylt tónlistinni og ým-
islegt sem mig langaði að takast á við og gera í
þessu lífi, áður en það yrði of seint. Maður veit
aldrei hvað morgundagurinn ber með sér,“ seg-
ir Egill.
„Það var ekkert sem beinlínis njörvaði okkur
niður, ekkert nema vaninn og föstu skorðurnar.
Börnin öll farin að heiman og búin að skapa sér
sína eigin hamingju, barnabörnin bara ánægju-
auki þegar okkur hentar og mikið annað var í
raun ekki að halda í okkur,“ segir Tinna.
Hlekkjaður við stýrishúsið
„Ég er alinn upp við sjómennsku og umstang í
kringum báta, en faðir minn var með útgerð á
Skaganum og afi minn var stýrimaður og skip-
stjóri framan af ævinni. Þó að ég muni ekki eftir
því, þá var ég kominn til sjós tveggja ára gam-
all, það voru engir leikskólar á þeim tíma á
Akranesi, mamma vann á sjúkrahúsinu og því
var ekki um annað að ræða en pabbi tæki mig
með í róður. Þetta var lítill dekkbátur og ég var
hlekkjaður við stýrishúsið. Síðar fluttum við til
Reykjavíkur og pabbi hafði bát í höfninni í
Reykjavík. Afi reri með honum og stundum fór
ég með. Afi var ótrúlegur fróðleiksbrunnur um
allt sem viðkom sjómennsku,“ segir Egill.
Hefurðu alltaf kunnað vel við þig á sjó?
,,Já, mér líður vel til sjós. Í mínum draumum
sá ég mig á litlu fleyi og lengi vel fletti ég og las í
bátablöðum sjóferðasögur af öllu tagi og hafði á
einhverjum tímapunkti orðið mér út um skip-
stjórnarréttindi, eða pungaprófið. En það var
fyrir orð Tinnu að ég lét verða af þessu og við í
sameiningu réðumst í að kaupa bát. Það að eiga
bát af þeirri gerð sem við erum með kallar á
nýjan lífsstíl og felur í sér mikla ábyrgð. Að ann-
ast um trébát af þessari stærð er eiginlega fullt
starf, ef það á að vera eitthvert vit í þeirri
umönnun,“ segir Egill.
Aðeins einn bátur kom til greina
Þau rifja upp upphafið að ævintýrinu.
„Við vorum stödd í Amsterdam og eins og oft-
ast þegar við erum í erlendum borgum, röltum
við niður að höfninni til að skoða báta og skip. Í
Hollandi er úrvalið mikið, enda landið allt sund-
urskorið af síkjum og fljótum þar sem bátaum-
ferð hefur allan forgang. Ég stakk upp á því að
við könnuðum hvað þeir væru með á sölu, þó að
við værum á þeim tímapunkti ekki búin að ræða
þetta af mikilli alvöru, og við fórum á netið. En
úrvalið reyndist mun minna en ætla mætti enda
reyndist Egill hafa mjög ákveðnar hugmyndir
um nákvæmlega hvernig bát hann vildi eign-
ast,“ segir Tinna, og útskýrir að báturinn hafi
þurft að uppfylla ýmis skilyrði.
„Þetta þurfti að vera eikarbátur, hann átti að
vera tveggja mastra, bæði með mótor og segli
og á bilinu 40 til 50 fet,“ segir Tinna og Egill
bætir við að hann sé mikill áhugamaður um
gamla hluti, gömul hús og handverk og því hafi
aldrei komið til greina annað en tréskip.
„Það var í raun bara einn bátur sem uppfyllti
þessi skilyrði á sölulistunum og hann var uppi í
Fríslandi sem er nyrst í Hollandi,“ segir Tinna.
„Báturinn lá við bryggju í smábænum Lemmer,
í um hundrað kílómetra fjarlægð frá Amst-
erdam og við ákváðum að skreppa, taka bara
lest þangað, en þetta var aðeins flóknara,“ segir
hún og brosir.
„Það eru engar beinar lestarsamgöngur til
Lemmer, fengum við að vita á aðalbraut-
arstöðinni, en við gátum tekið lest að öðrum
smábæ og svo ferju og loks rútu. Þetta virtist
gerlegt, en þegar lestarferðinni var lokið, var
ferjan nýfarin og við þurftum að bíða í fleiri
klukkutíma eftir þeirri næstu og svo þegar
hún kom í höfn var síðasta rútan farin og ekk-
ert annað í stöðunni en að leita að gistingu
þar sem við vorum komin,“ segir Tinna.
Eftir langt ferðalag komust þau þó á leið-
arenda og fundu bátinn.
„Báturinn var búinn að liggja í höfninni í
Lemmer í tvö ár að sögn bátasalans. Núverandi
eigandi hafði tekið hann upp í skuld, en aldrei
komið því í verk að sigla honum sjálfur. Sá vissi
ekkert um bátinn og fyrri eigandi var gjald-
þrota og að því er virtist horfinn af yfirborði
jarðar. Bátasalinn sagði að við yrðum í raun
bara að meta þetta á staðnum,“ segir Egill og
útskýrir að reglan sé sú að sögulaus bátur sé
verðminni en sá sem á sér sögu.
Að kasta sér fram af brún
Báturinn heillaði Egil strax og raunar Tinnu
líka, en hún segir að sig hafi nánast sundlað við
þá tilhugsun að sigla þessum stóra báti, sem var
eiginlega lítið skip.
„Egill spurði mig með glampa í augunum
hvernig mér litist á og ég sagði að hann væri
mjög fallegur – ég held reyndar að ég hafi sagt
að mér fyndist hann sætur. En svo spurði ég
hann hvort hann héldi virkilega að við gætum
siglt þessu skipi, bara tvö! Þegar hann svaraði
ákveðið; já, ákvað ég bara að trúa því og
treysta.“
Blaðamaður nefnir að ef hann stæði frammi
fyrir stórri tréskútu, án neinnar siglinga-
reynslu, myndi hann ekki vita hvað sneri upp og
hvað niður.
„Það er það sem er svo skemmtilegt. Að
kasta sér fram af brúninni, láta slag standa.
Stundum er það eina leiðin,“ segir Egill og nefn-
ir að þá sé allt hik og hikst aðeins til þess að
manni fatast flugið.
„Mér finnst líka gaman að takast á við áskor-
anir og þarna stóðum við frammi fyrir stórri og
alveg nýrri áskorun og bara spurning um að
hrökkva eða stökkva,“ segir Tinna og Egill bæt-
ir við:
„Eins og í listinni, þar er maður sífellt að
kasta sér fram af óþekktum hömrum. Ekkert
öryggi er fyrir því að vel takist og að því verður
að spyrja eftir á. Það er ekki allra að lifa stöðugt
við þannig aðstæður, en við höfum þrifist ágæt-
lega í því andrúmslofti. Það eru ekki allir sem
átta sig á því. Fólk segir við mig að ég hafi átt
velgengni að fagna og vissulega er það satt og
rétt, en það eru líka óteljandi mörg verkefnin
sem hafa misfarist eða ekki lukkast sem skyldi,
þau gleymast gjarnan.“
Tinna segist hafa ákveðið að taka stökkið.
„Allt er þetta áhætta, en ég ákvað bara að
taka í styrka hönd Egils og trúa á þekkingu
hans, getu og innsæi. Ég kyngdi hræðslunni við
að verða sjóveik og e.t.v bara dauðhrædd og
ómöguleg þegar við yrðum komin út á opið haf í
mikinn velting. En þessar áhyggjur reyndust
sem betur fer óþarfar, ég hef ekki fundið fyrir
sjóveiki,“ segir Tinna.
„Og ekki heldur hræðslu.“
„Hún er miklu meiri sjómaður en ég,“ segir
Egill, sem segist sjálfur ekki hafa haft mikla
þekkingu á seglskipum. „En ég dreif mig á
segla-námskeið og svo er þetta bara spurning
um að læra af reynslunni og enginn verður
fullnuma í þessu fremur en í nokkru öðru fagi.
Það á við um okkur bæði, að við höfum sýnt þol-
inmæði og fikrað okkur áfam. Við náum sífellt
betri og betri tökum á því að sigla skipinu og
láta það hlýða okkar stjórn. Mér líður betur á
sjó en í landi. Ég er ekki landdýr. Enda er al-
gjör kyrrstaða að standa á landi miðað við að
vera á sjó þar sem allt er á hreyfingu og mögu-
leikarnir eru til allra átta. Þetta er eins og að
vera kominn aftur í jóðlífið,“ segir Egill.
,,Þar fór nú heldur betur vel um mann.“
Fljótandi sumarbústaður með sál
Tinna segir að þau hafi fengið mann til að taka
bátinn út og hann hafi gefið honum góða ein-
kunn. Það var skyndiskoðun, en allt sem sást
var í góðu lagi. Vélin var nýleg og í toppstandi
að því er virtist, sem og annar búnaður. Það var
þó ljóst að taka þyrfti bátinn upp og rannsaka
kjölinn og allt fyrir neðan sjólínu innan og utan
frá. Skoðunarmaðurinn sagði að það fylgdi
kaupunum ákveðin áhætta og því ákváðu þau að
gera nokkuð lágt tilboð, mun lægra en eigandi
vildi fá og voru vonlítil um árangur, enda heyrðu
þau ekkert frá bátasalanum fyrr en þremur
mánuðum síðar. Þá hringdi hann og spurði
hvort þau væru enn tilbúin til að standa við til-
boðið.
„Þá vorum við stödd á Húsavík, einmitt nýbú-
in að fara í hvalaskoðunarferð á Skjálfanda með
einum af þessum fallegu tréskipum þeirra í
Norðursiglingu. Við þurftum ekki annað en að
horfast í augu í nokkur augnablik og ákvörðunin
var í raun tekin á staðnum, þó að við tækjum
okkur sólahringsfrest til að svara,“ segir Egill.
Í mars vorið eftir fór Egill að sækja bátinn til
að sigla honum til Danmerkur og tókst að fá tvo
fíleflda og sjóvana Hollendinga til að sigla með
sér út í Norðursjóinn og gegnum Kílarskurðinn
til Egernsund á Jótlandi, þar sem hann hafði
Sjávarloftið eins
og kampavín
Það hefur aldrei ríkt lognmolla í kringum hjónin og listafólkið Egil Ólafsson og Tinnu Gunn-
laugsdóttur en nýlega ákváðu þau að láta drauminn um að sigla um höfin blá verða að veru-
leika. Þau fjárfestu í gamalli eikarskútu, seldu timburhúsið sitt í miðbænum og drifu sig út í
heim og út á ballarhaf. Þar takast þau á við náttúruöflin og sjálf sig á alveg nýjan hátt.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
’Við erum bæði ákveðin ogtiltölulega stjórnsöm og þaðhefur gerst í gegnum tíðina aðvið höfum verið ósammála eins
og gerist hjá öllum. En úti á sjó
treysti ég algjörlega á Egil, þó að
ég sé stundum pirruð á því að
hann sé að skipa mér fyrir. Þá
verður það að vera þannig að
það sé einn sem stjórnar. Hann
er skipstjórinn.