Morgunblaðið - 29.08.2018, Síða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. ÁGÚST 2018
Réttir frá öllum heimshornum Svonefndur Alþjóðadagur var í Háskólanum í Reykjavík í gær og áhersla var lögð á að kynna skiptinám, starfsnám, styrki og önnur alþjóðleg tækifæri fyrir nem-
endum skólans. Enginn fór svangur af kynningunni því að erlendir nemendur við háskólann buðu upp á rétti frá heimalandi sínu eins og venja hefur verið á Alþjóðadegi í skólanum síðustu ár.
Kristinn Magnússon
Við Íslendingar get-
um verið hreykin af
heilbrigðiskerfinu, sem
þrátt fyrir alla sína
galla er meðal þess
besta sem þekkist í
heiminum. Við höfum
byggt upp þjónustu
þar sem reynt er að
fremsta megni að
tryggja jafnan aðgang
landsmanna óháð efna-
hag. Tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar
sem hinir efnameiri geta keypt
betri og skjótari þjónustu hefur
verið eitur í beinum okkar.
Ég hef í ræðu og riti haldið því
fram að yfirgnæfandi meirihluti
okkar Íslendinga líti svo á að í gildi
sé sáttmáli – sáttmáli þjóðar sem
ekki megi brjóta: Við höfum sam-
mælst um að fjármagna sameigin-
lega öflugt heilbrigðiskerfi þar sem
allir geta notið nauðsynlegrar þjón-
ustu og aðstoðar án tillits til efna-
hags eða búsetu.
Ég óttast að það sé að molna
hratt undan sáttmálanum. Hægt en
örugglega er tvöfalt heilbrigðiskerfi
að verða til á Íslandi.
Öfugsnúið og bogið
Fréttastofa Ríkisútvarpsins
greindi frá því 23. júní síðastliðinn
að 600 manns séu á biðlista eftir lið-
skiptaaðgerð hjá Landspítalanum
og þar af hefðu 125 beðið lengur en
í eitt ár. Á síðasta ári fóru hins veg-
ar 60 einstaklingar í liðskiptaaðgerð
á Klíníkinni, sem er einkarekin.
Yfirvöld heilbrigðismála hafa komið
í veg fyrir að Sjúkratryggingar Ís-
lands geri samning Klíníkina og því
þurfa sjúklingar að greiða fyrir
þjónustuna sjálfir. Þeir sem ekki
hafa efni á því þurfa að
sætta sig við bíða mán-
uðum saman eftir að fá
nauðsynlega þjónustu.
Íslensk heilbrigðisyf-
irvöld hafa talið betra
að senda sjúklinga til
annarra landa í að-
gerðir á einkasjúkra-
húsum, en semja við
íslensk einkafyrirtæki
á sviði heilbrigðisþjón-
ustu.
Er nema furða þótt
Ísólfur Gylfi Pálmason,
fyrrverandi alþingismaður og sveit-
arstjóri, velti því fyrir sér hvort
eðlilegra sé „að skipta við einka-
sjúkrahús á EES-svæðinu en á Ís-
landi“. Hann fór í liðskiptaaðgerð
sem gerð var á einkasjúkrahúsi í
Halmstad í Svíþjóð. Í Morgunblaðs-
grein síðastliðinn laugardag segir
Ísólfur Gylfi tilgang skrifanna ekki
að gagnrýna heilbrigðiskerfið held-
ur vilji hann aðeins benda á „að á
meðan til er mannskapur, kunnátta,
tæki og tól til að gera aðgerðir hér
á landi á að vera óþarfi að leggja
það á sjúklinga að ferðast um lang-
an veg til að fá bót meina sinna“.
Hann bætir við:
„Fólk sem hefur alla tíð greitt
sína skatta hér á landi á heldur ekki
að þurfa að greiða aðgerðir úr eigin
vasa, þótt margir geri slíkt. Það er
eitthvað bogið við það að heilbrigð-
isráðherra og stjórnvöld skuli ekki
hlusta á nein rök í þessu sambandi.“
Auðvitað er eitthvað öfugsnúið
við þetta allt. Á sama tíma og
hundruð landsmanna bíða eftir lið-
skiptaaðgerðum neita yfirvöld heil-
brigðismála að nýta þjónustu einka-
aðila hér á landi og telja rétt, þrátt
fyrir mun hærri kostnað, að senda
fólk fremur úr landi til að gangast
undir nauðsynlega aðgerð. Í apríl
sagði Ragnar Hall hæstarétt-
arlögmaður í grein sem birtist í
Fréttablaðinu:
„Hver maður sér að ekki er vit-
glóra í svona kerfi.“
Þannig voru leikreglurnar þegar
núverandi heilbrigðisráðherra tók
við en ólíkt forverum sínum hefur
hann tækifæri til að rétta af kúrsinn
þannig að „vitglóra“ nái yfirhönd-
inni. Hið sama á við um þjónustu
sjálfstætt starfandi sérfræðilækna.
Tvöfalt kerfi og biðlistar
Þjónusta sjálfstætt starfandi sér-
fræðilækna byggist á rammasamn-
ingi Læknafélags Reykjavíkur við
Sjúkratryggingar Íslands en samn-
inginn má rekja allt aftur til ársins
1909 þegar fyrsta sjúkrasamlagið
var stofnað. Að óbreyttu rennur
samningurinn út um komandi ára-
mót. Án hans fellur greiðsluþátt-
taka ríkisins niður og þeir sem
þurfa á þjónustu sérfræðilæknanna
að halda verða að greiða fyrir hana
úr eigin vasa. Þeir sem ekki hafa
fjárhagslega burði til að nýta þjón-
ustuna neyðast til að leita á náðir
opinberra sjúkrahúsa og annarra
ríkisrekinna heilbrigðisstofnana.
Það er útilokað fyrir opinberar heil-
brigðisstofnanir að taka yfir þjón-
ustu sérfræðilækna sem sinna um
og yfir 500 þúsund heimsóknum á
ári. Eina leið „kerfisins“ verður að
búa til nýja biðlista og lengja þá
sem fyrir eru. Heilbrigðisþjónustan
versnar, kostnaðurinn eykst og lífs-
gæði landsmanna verða lakari.
Ágúst Kárason og Ragnar Jóns-
son, bæklunarlæknar, lýstu því
ágætlega í Morgunblaðinu síðasta
laugardag hvað gerist ef samningar
við sérfræðilækna verða ekki end-
urnýjaðir:
„Líklegast munu læknastöðvar
starfa áfram í svipaðri mynd en í
gjörbreyttu kerfi. Tvískipt kerfi
myndast. Þeirra sem hafa efni á
þjónustunni og hinna sem ekki hafa
ráð á henni. Þörf á einkatrygg-
ingum mun strax koma fram.“
Þeir Ágúst og Ragnar eru langt í
frá þeir einu sem vara við þeirri
vegferð sem við erum lögð af stað í.
Stjórn Læknafélags Íslands lýsti
fyrr á þessu ári þungum áhyggjum
af stöðu sérhæfðrar heilbrigðisþjón-
ustu utan sjúkrahúsa. Án samninga
við sérfræðilækna „er hætta á að á
Íslandi þróist tvöfalt heilbrigð-
iskerfi, þekking og þjónustustig dali
og upp komi viðvarandi læknaskort-
ur á mikilvægum sviðum nútíma
læknisfræði“.
Sviptir sjúkratryggingum
En jafnvel þótt rammasamningur
sé enn í gildi hafa yfirvöld heil-
brigðismála komið í veg fyrir nauð-
synlega nýliðun meðal sér-
fræðilækna, jafnvel á sviðum þar
sem þörfin er mikil. Sigurður
Björnsson, krabbameinslæknir, seg-
ir í Morgunblaðsgrein 4. ágúst að
verið sé að bregða fæti fyrir „unga
lækna sem lokið hafa sérnámi og
hyggjast koma til starfa á Íslandi
með nýjustu þekkingu og hefja
störf innan heilbrigðisþjónustunnar
með sama hætti og forverar þeirra
hafa gert til þessa“. Verið sé að
svipta sjúklinga sem þurfa á þjón-
ustu að halda, sjúkratryggingum
„sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir
frá unglingsaldri“:
„Með þessu eru yfirvöld að inn-
leiða mismunun þar eð trygging-
arnar taka þátt í greiðslu fyrir þjón-
ustu hjá sumum læknum en ekki
fyrir sömu þjónustu hjá öðrum
læknum. Þetta eru nýmæli, sem
ganga þvert á vinnureglur trygg-
inganna og yfirlýsta stefnu yf-
irvalda til þessa. Ég fæ mig ekki til
að rökræða þessa aðför yfirvalda að
heilbrigðisþjónustunni, ég trúi því
einfaldlega ekki að við þessa
ákvörðun verði staðið.“
Öll höfum við keypt sjúkratrygg-
ingu með sköttum og gjöldum til
ríkisins, en mörg okkar þurfa að
bíða vikum og mánuðum saman til
að fá bót meina okkar. Á sama tíma
er grafið undan einkarekstri –
rekstri sem er mikilvæg og nauð-
synleg stoð til að hægt sé að standa
við fyrirheit um að allir eigi jafnan
og greiðan aðgang að heilbrigð-
isþjónustu óháð efnahag.
Óskilgetið afkvæmi
Þingmenn og ráðherrar geta ekki
virt að vettugi þau varnaðarorð sem
óma, jafnt frá leikum sem lærðum.
Fjölbreytt rekstrarform, nýsköpun
og nýliðun er ekki aðeins spurning
um jafnræði og tryggan aðgang
allra að heilbrigðisþjónustu heldur
atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna
og öryggi sjúklinga.
Hugsjónin sem liggur að baki ís-
lenska heilbrigðiskerfinu um að-
gengi allra að góðri og nauðsynlegri
þjónustu verður merkingarlaus þeg-
ar almenningur situr fastur á bið-
listum ríkisins og horfir á þá efna-
meiri kaupa þjónustu einkaaðila.
Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar
allrar heilbrigðisþjónustu er tvöfalt
kerfi. Gegn því mun ég berjast.
Eftir Óla Björn
Kárason » Óskilgetið afkvæmi
ríkisvæðingar allrar
heilbrigðisþjónustu er
tvöfalt kerfi. Gegn því
mun ég berjast.
Óli Björn Kárason
Höfundur er alþingismaður
Sjálfstæðisflokksins.
Tvöfalt heilbrigðiskerfi verður til