Morgunblaðið - 29.08.2018, Síða 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. ÁGÚST 2018
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Jóhannes Haukur Jóhannesson er
einn þeirra íslensku leikara sem hafa
gert það gott í erlendum kvikmynd-
um og sjónvarpsþáttum en þeim hef-
ur farið fjölgandi með ári hverju.
Jóhannes er nýkominn heim frá Suð-
ur-Afríku þegar blaðamaður nær tali
af honum en þar var hann við tökur í
þrjár vikur á ofurhetjumyndinni
Bloodshot með Vin Diesel í aðalhlut-
verki.
Jóhannes fer með eitt af aðalhlut-
verkunum í kvikmyndinni Alpha
sem frumsýnd verður hér á landi í
dag og er hlutverkið það stærsta
sem hann hefur landað í erlendri
kvikmynd til þessa. Leikstjóri kvik-
myndarinnar er Albert Hughes og
er myndin sú fyrsta sem hann leik-
stýrir einn þar sem hann hefur til
þessa leikstýrt kvikmyndum með
bróður sínum, Allen og þá m.a. hinni
vinsælu Menace II Society.
Jóhannes var fyrr á þessu ári er-
lendis við tökur á sjónvarpsþátt-
unum Origin sem hann lýsir sem
„geimdrama sem gerist meðal ann-
ars um borð í geimskipi“. „Þetta er
tíu þátta sería sem YouTube er að
gera, þeir eru að fara að vera með
streymisþjónustu um allan heim eins
og Netflix,“ segir Jóhannes um Orig-
in. Bloodshot er aftur á móti byggð á
teiknimyndasögum Valiant Comics
um samnefnda ofurhetju sem Diesel
leikur. „Þetta er hermaður sem deyr
og fer í gegnum eitthvert ferli þar
sem hann er gerður að ofurher-
manni,“ segir Jóhannes sem leikur
Rússa sem Bloodshot er í nöp við.
Rússi í þriðja sinn
– Þú leikur ansi oft Rússa.
„Já, þetta er í þriðja sinn. Ég lék
Rússa í Atomic Blonde og The Good
Liar sem kemur út á næsta ári og er
með Ian McKellen og svo er þetta sá
þriðji,“ svarar Jóhannes kíminn.
– Og það er greinilega eitthvað
vondukallalegt við þig, ef marka má
hlutverkin sem þú hefur fengið?
„Já, ég er voða mikið í því og mað-
ur er nú þakklátur ef maður fær ein-
hverja rullu þar sem maður er ekki
vondur, eins og í þessari mynd sem á
að frumsýna núna, Alpha. Ég er allt
annað en vondur þar.“
Jóhannes segir Alpha fjalla um
hóp veiðimanna á ísöld, fyrir um 20
þúsund árum. „Af því að þetta er á
ísöld höfum við tveggja mánaða
glugga á ári til að fara og veiða fyrir
veturinn. Ég leik höfðingjann og við
erum nokkrir veiðimenn, karlar og
konur, að fara á veiðar fyrir ættbálk-
inn og tökum með nokkra unga
stráka, þeirra á meðal son minn sem
er að fara í sína fyrstu veiðiferð. Ég
er að kenna honum hvernig þetta
virkar allt saman en það tekst ekki
betur en svo að hann er talinn af og
skilinn eftir. En hann er ekki dáinn
og þarf að komast aftur heim.“
Þurfti að læra nýtt tungumál
Sonur höfðingjans, Keda, hittir
fyrir úlf sem orðið hefur viðskila við
hjörðina sína og hefst með þeim
„óvenjulegt samstarf“, eins og Jó-
hannes orðar það. Keda gefur úlf-
inum nafnið Alpha sem Jóhannes
segir að vísu hljóma öðruvísi á því
tungumáli sem talað sé í kvikmynd-
inni og hafi verið búið sérstaklega til
fyrir hana.
Jóhannes er spurður að því hvort
ekki hafi verið erfitt að læra þetta
tilbúna tungumál. „Jú, það var það
og sérstaklega í mínu tilfelli, ég er
með lengri setningar af því að ég er
að kenna stráknum svo mikið,“ segir
Jóhannes. Hann hafi því lagt mikla
vinnu í að læra textann sinn.
„Fyrst virkaði þetta eins og óyfir-
stíganlegt verkefni því þarna eru
hljóð sem maður hefur aldrei heyrt
áður,“ segir Jóhannes sposkur.
Talið berst að sjónrænum þætti
kvikmyndarinnar en gagnrýnendur
hafa farið fögrum orðum um hann og
sagt myndina tilkomumikla og fal-
lega á að líta.
Jóhannes segist vel trúa því enda
hafi miklum tíma verið eytt á töku-
stað í einstaka skot. „Hann heitir
Martin Gschlacht sem sá um kvik-
myndatökuna og hann og Albert,
leikstjórinn, eru rosalega sjónrænt
þenkjandi. Það er aldrei tilviljun
hvernig myndavélinni er stillt upp, í
hverjum einasta ramma,“ segir
Jóhannes. Hann hafi fundið fyrir
miklum metnaði hjá þeim félögum.
Eitthvað er um tölvuteiknað lands-
lag en þó ekki mikið þar sem myndin
var tekin upp í ægifögru landslagi,
m.a. Dinosaur Park í Kanada. „Það
er ekki mikið af fjöllum þar sem við
vorum en það eru íslensk fjöll þarna,
þeir splæsa landslagi saman. Þú ert
kannski með landslag í Kanada og í
fjarska eru íslensk fjöll,“ nefnir Jó-
hannes.
Umboðsmaður hafði samband
– Þetta útlandaævintýri þitt, hófst
það eftir að þú fórst með eitt af
aðalhlutverkunum í Svartur á leik?
„Já, það var upphafið á þessu, má
segja. Ég fékk í rauninni umboðs-
menn út á þá mynd,“ segir Jóhannes.
Erlendur umboðsmaður hafi séð
myndina, haft samband við hann og
spurt hvort hann mætti verða um-
boðsmaðurinn hans. „Mér fannst
það bara frábært því yfirleitt þurfa
leikarar að hafa fyrir því að finna sér
umboðsmenn. Ég datt í lukkupottinn
með það og svo fær maður leik-
prufur í gegnum þessa umboðs-
menn. Ég gerði það í næstum því
þrjú ár áður en fyrsta hlutverkið
datt inn.“
Jóhannes segir prufunum fjölga
eftir því sem hlutverkunum fjölgi í
kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
„Umboðsmennirnir leggja til við
„casting directora“ [þá sem hafa um-
sjón með vali á leikurum, innsk.blm.]
einhverja leikara og þeir segja
hverja þeir vilja sjá. Fyrst, þegar ég
var ekki með neitt á bakinu nema
Svartur á leik, var ég kannski að
gera eina prufu á tveggja eða
þriggja mánaða fresti en eftir að
Game of Thrones datt inn, sem var
að ég held þriðja verkefnið mitt,
voru „casting directorar“ allt í einu
miklu opnari fyrir því að sjá mig og
ég fór allt í einu að gera kannski
þrjár prufur á viku. Og þá fjölgar
hlutverkunum sem maður fær.“
Jóhannes segist frekar geta valið
og hafnað verkefnum nú en áður.
„Við veljum aðeins úr og höfnum, ég
og mitt teymi, eins og maður segir.
Það eru fjórir gæjar úti í heimi sem
fara með umboð fyrir mig,“ segir
hann kíminn.
Diesel ljúfur sem lamb
Jóhannes hefur leikið með mörg-
um heimskunnum leikurum og
blaðamanni leikur forvitni á að vita
hvort þessar stjörnur séu að blanda
geði við hina minna þekktu leikara,
hvort hann hafi mikið umgengist
stjörnurnar. „Það fer eftir því hvar
við erum. Ég var í tökum í Marokkó í
einhverjum smábæ og það voru allir
á sama hótelinu og voru þá mikið að
hittast. Í sjónvarpsseríum er fólk
líka að hittast meira og hanga saman
því allir eru í burtu frá fjölskyldum
sínum. Nema kannski þessar
stærstu stjörnur eins og Vin Diesel
og Charlize Theron, þær eru ekkert
að blanda mikið geði við liðið. Maður
hittir þau í vinnunni og í hádegismat
og þau eru voða góð og svona en eru
svo bara með sitt hús einhvers stað-
ar og sinn bissness.“
Hvað Diesel varðar segir Jóhann-
es að hann sé með sitt fólk í kringum
sig sem vinni alltaf með honum, í
hverri einustu mynd. „Hann er með
sinn staðgengil og kokk og en er svo
ljúfur sem lamb, spyr hvernig maður
hafi það og talar alltaf rólega og
mjúklega. Hann er alltaf að hrósa
manni, hann er svo sjarmerandi að
maður bráðnar alveg. Til dæmis
þegar ég lék í síðasta atriðinu með
honum kom hann til mín, tók létt ut-
an um mig og sagði: „You got some-
thing special, maaan, you’re amaz-
ing“. Maður veit að hann segir þetta
við annan hvern mann en finnst samt
rosalega vænt um það.“
Frí fram undan
– Hvað er svo framundan hjá þér?
„Í september kemur út The Sist-
ers Brothers, kúrekamynd sem ég
leik í með Joaquin Phoenix, John C.
Reilly og Jake Gyllenhaal og
Where’d You Go, Bernadette með
Cate Blanchett, ég held að hún verði
frumsýnd eftir áramót. Svo er ég að
bíða eftir því að sjá hvort gerð verði
önnur sería af Netflix-þáttum sem
ég leik í og voru að koma út í síðustu
viku og heita The Innocents og eru
með Guy Pearce í aðalhlutverki. Ef
önnur sería verður gerð verð ég í
henni,“ svarar Jóhannes. Næsta
mánuðinn eigi hann þó frí og ætli að
njóta þess í faðmi fjölskyldunnar.
Lengri útgáfu viðtalsins má finna
á mbl.is.
Morgunblaðið/Hari
Hraustur Jóhannes á leið í líkamsrækt. Hann tók upp nýja og betri lifnaðarhætti fyrir hlutverkið í Svartur á leik.
Ljósmynd/Albert Hughes
Veiðimenn Jóhannes Haukur með nokkrum ísaldarmönnum í Alpha.
Föðurlegur ísaldarmaður
Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með eitt af aðalhlutverkum kvikmyndarinnar Alpha Hefur
leikið í fjölda erlendra kvikmynda og sjónvarpsþátta eftir að Svartur á leik vakti athygli á honum
ICQC 2018-20
PÖNTUN AUGLÝSINGA:
fyrir mánudaginn 3. september
SÉRBLAÐ
–– Meira fyrir lesendur
Börn &
uppeldi
Víða verður komið við í uppeldi barna í
tómstundum, þroska og öllu því sem
viðkemur börnum frá fæðingu
til 12 ára aldurs.
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
fylgir Morgunblaðinu
föstudaginn 7. sept.