Skírnir - 01.09.2001, Page 43
SKÍRNIR
HIN FRJÓSAMA VELVILD
307
Hvað því viðvíkur að ég reyni að þýða Edduvísuna og Einar [svo] Bene-
diktssonar „Góða nótt“- þá held ég að ég treysti mér ekki til þess. Er ekki
Edduvísan brúkleg fyrir yður, eins og hún er í Thule-þýðingunni? Sú
þýðing er a.m.k. literert góð. Ég hef líka sannast sagt engan tíma til að fást
við svona nokkuð; það er seinlegt, og Guð veit, ég hefði svo margt ann-
að, sem rekur á eftir mér, ef ég gæti sint nokkru.39
Eins og áður sagði hafa lögin sem Jón gerði við ljóð Jóhanns not-
ið töluverðrar hylli, og eru meðal þeirra verka tónskáldsins sem
hvað lengst og mest hafa verið sungin. Vögguvísan var frumflutt
af Maríu Markan og Valborgu Einarsson á tónleikum í KR-húsinu
í Reykjavík 8. september 1930 (aðeins tæpu ári eftir að lagið varð
til), og þeir Eggert Stefánsson og Gunnar Sigurgeirsson frumfluttu
Mánakvæðið skömmu fyrir lát Jóhanns, á tónleikaferð sinni um
landsbyggðina í júnímánuði 1932.40 Vögguvísan virðist þar að
auki hafa skipað óvenjustóran sess í huga Jóns, sem gerði fleiri út-
setningar af laginu en hann átti vanda til. Haustið 1936, þegar
hann dvaldist að mestu í Viðey í trássi við Jónas Þorbergsson út-
varpsstjóra (sem þótti Jón sinna lítt skyldum sínum sem tónlistar-
stjóri Ríkisútvarpsins), útsetti hann bæði lögin fyrir rödd og
hljómsveit. Utsetning hans á Vögguvísunni fyrir karlakór birtist
árið 1944 í tímaritinu Tónlistinni og varð strax nokkuð vinsæl
meðal íslenskra karlakóra.41 Árið 1997 fannst svo útsetning Jóns á
39 Jóhann Jónsson til Jóns Leifs, Leipzig 30. desember 1931. Lögin sem um ræð-
ir eru Löng er nótt úr Ástarvísum úr Eddu op. 18b (sem Jón hafði lokið við að
semja aðeins hálfum mánuði áður), og Góða nótt úr Tveimur sönglögum op.
18a (sem Jón byrjaði að vinna að haustið 1931, en lauk ekki fyrr en í janúar
1933). Bæði komu út hjá Kistner og Siegel árið 1933, hið fyrra í áður útgefinni
þýðingu Felix Genzmers, hið síðara í þýðingu Wolfgangs Mohrs, sem þýddi
megnið af íslensku textunum fyrir útgáfuna á sönglögum Jóns.
40 Carl-Gunnar Áhlén fer með fleipur þegar hann segir frumflutning Vögguvís-
unnar hafa átt sér stað 4. september (Jón Leifs. Tónskáld í mótbyr, bls.
298-300). Umræddir tónleikar Maríu Markan áttu að fara fram 5. september, en
var frestað um þrjá daga að læknisráði (Vísir, 7. september 1930). Ekki virðist
hún hafa verið búin að ná sér að fullu við frumflutninginn. Þórey, systir Jóns,
skrifaði honum skömmu síðar að sér hefði fundist María vera „illa upplögð,
búin að vera lasin í 3 daga. Þar að auki var hún nervus svo mjer fannst hún ekki
syngja vögguvísuna þína rjett vel“ (Þórey Þorleifsdóttir til Jóns Leifs, Reykja-
vík án dagsetningar).
41 Tónlistin, tímarit Félags íslenskra tónlistarmanna, 5. árg. 1946, bls. 30-31.