Skírnir - 01.09.2001, Síða 60
324
AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR
SKÍRNIR
um um varúlfa og mannbirni og fornri trú á töframátt dýra-
felda.26
Eins og fyrr segir tók hugtakið hamrammur, sem upphaflega mun
hafa verið notað um hamhleypur og síðar berserki, breytingum og
var það sífellt oftar notað um sterka menn. Hið sama má reyndar
segja um hugtakið berserkur. Þegar á 13. öld virðist sem það hafi
verið tekið að fjarlægjast upphaflega merkingu sína, eins og t.d.
þegar baráttumenn kristinnar trúar eru kallaðir berserkir Guðs og
Jesú Krists.27 Dæmi um slíkt má t.d. sjá í AM 180 a fol., handriti
af Karlamagnús sögu frá 15. öld; þar segir frá því að þegar riddar-
inn Rollant, einn vaskasti kappi Karlamagnúsar, vaknar til meðvit-
undar á miðjum orrustuvelli, særður og óstöðugur eftir sigur á
heiðingjum, mælir hann svo til vinar síns, Túrpíns erkibiskups:
„Þú hefir nú verit lengi berserkr góðr í móti heiðnum mönn-
um“.28 Þegar svo er komið að orðið berserkur er haft um hrausta
biskupa er líklegt að eldri merking þess sé orðin óljós - eða merk-
ingarsvið þess a.m.k. vítt, enda verður það sífellt algengara í sög-
um frá 14. og 15. öld að kappar, víkingar og ránsmenn séu nefnd-
ir berserkir án sýnilegra tengsla við upphaflega merkingu. Hug-
tökin víkingur og berserkur hafa þó allar götur verið náskyld,
26 Áþreifanlegt dærai um trú fólks á töframátt dýrafelda er að finna í Eiríks sögu
rauða, 4. kafla, IFIV, þar sem búningur völvu er m.a. gerður af lambs-, kattar-
og kálfsskinni. Einnig voru skinnhanskar notaðir við galdraiðkanir og sums
staðar tíðkaðist að nota fjaðrir. Ekki var heldur óalgengt að spámenn og skáld
legðust (eða settu höfuð sitt) undir dýrafeld, sbr. Jón Hnefil Aðalsteinsson
1978:113-114. Þessi heiðni siður var einkum viðhafður þegar mennleituðu spá-
fregna og mætti jafnvel heimfæra hann upp á Þorgeir Ljósvetningagoða, þar
sem hann lá undir feldi sínum í sólarhring og leitaði lausnar á trúmálum þjóð-
arinnar, sbr. íslendingabók, 7. kafla, ÍFI (bls. 16-17). Þessi trú á töframátt dýra-
felda er reyndar útbreidd víða um heim. Sjamanar (töfralæknar) Sama notuðu
skinn dýra í töfratrommur sínar og aðra töfragripi og ef þeir áttu í illdeilum
börðust þeir jafnan í dýrafeldum, sbr. Nesheim 1970:7-14. Á Sikiley trúðu
menn að þeim sem klæddist úlfsskinni ykist þróttur og hugrekki, svo að jaðr-
aði við ofdirfsku. Sjá Summers 1934:163.
27 Sbr. Barlaams ok Josaphats saga, bls. 46 og 185. Sjá ennfremur Dillmann
1986:447.
28 Karlamagnus saga ok kappa hans, VIII, 35. kafli (bls. 522). Um aldur handrita,
sjá formála C. R. Ungers, einkum bls. iii-iv.