Skírnir - 01.09.2001, Page 66
330
AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR
SKÍRNIR
ar/galdursins færst úr höndum Óðins í hendur þeirra sjálfra, því
að allmargar heimildir geta um berserki sem sagðir eru fjöl-
kunnugir.48 Elstu heimildir sem geta um eða gefa til kynna að ber-
serkir hafi verið álitnir fjölkunnugir eru líklega Danasaga Saxa
hins málspaka (um 1200), Kristni réttur hinn forni í Grágás
(12.-13. öld) og Hervarar saga (frá 13. öld í varðveittri mynd
sinni).49 Grágás felur í sér lagaákvæði sem kveður á um saknæmi
þess er gengur berserksgang, sem og þess sem viðstaddur er slíkt
athæfi án þess að stöðva það.50 Ákvæði þetta fellur undir kafla sem
nefnist heiðni og hindurvitni51 og fjallar um galdra og fjölkynngi,
en í því felst einmitt ótvíræð vísbending um meinta kunnáttu ber-
serkjanna og heiðna siði; berserksgangurinn er ólöglegur af því að
hann tilheyrir eða grundvallast á fjölkynngi. I Gunnars sögu
Keldugnúpsfífls segir að berserkurinn Svartur hafi „hamast sem
tröll“, en í miðaldatextum er nafnorðið tröll oftast nær í nánu sam-
hengi við sagnorðið trylla, þ.e.a.s. að galdra (tröll voru m.ö.o. fjöl-
kunnugt fólk). Heimildin bendir því, líkt og svo margar aðrar, til
þess að berserksgangurinn hafi jafnan - jafnvel í hinum yngstu
sögum - verið settur í samhengi við fjölkynngi.52 Að vera fjöl-
kunnugur er að kunna fyrir sér í göldrum, og þá m.a. að vera fróð-
ur um grös, jurtir og annað sem notað er til lækninga/galdra, auk
þess sem líklegt er að fjölkunnugt fólk hafi gengið í gegnum and-
lega og/eða líkamlega þjálfun.53 Svo sem fram kemur í nokkrum
48 Sbr. tilvitnanir hjá Kaiser 1998:294.
49 Saxonis Gesta Danorum 1931:185; Konungsbók (GKS 1157 fol.), elsta varð-
veitta handrit Grágásar og þar með Kristins réttar hins forna (Kristinna laga
þáttar), er frá síðari hluta 13. aldar, en gera má ráð fyrir að varðveitt gerð Krist-
ins réttar byggi á lögum sem rituð voru á 12. öld. Sjá Magnús Stefánsson
1975:66—68; Hervarar saga og Heiðreks konungs, 1. kafli, FN I (bls. 412).
50 „Ef maður gengur berserksgang, og varðar það fjörbaugsgarð, og varðar svo
karlmönnum þeim er hjá eru, nema þeir hefti hann að, þá varðar engum þeirra
ef þeir vinna stöðvað. Ef oftar kemur að, og varðar það fjörbaugsgarð." Grágás
1992:19. Sambærileg lög er ekki að finna í norskum lögbókum, sbr. Kværness
1996:149-150.
51 Sbr. fyrirsögn í Grágás 1883:330.
52 Gunnars saga Keldugnúpsfífls, 14. kafli, /FXIV (bls. 371).
53 Um ýmis afbrigði og hliðstæður hugtaksins, sjá Dillmann 1992:33. Sjá enn-
fremur Harneson 1994:2. kafla, þar sem talið er að berserkir hljóti að hafa geng-
ið í gegnum stranga þjálfun í hernaði og aga, jafnt sem andlegum iðkunum (sbr.
„hamskiptaeiginleika" þeirra).