Skírnir - 01.09.2001, Page 71
SKÍRNIR
UM BERSERKI
335
Enda þótt þær heimildir sem hér eru nefndar séu misgamlar gefa
þær engu að síður góða mynd af þeirri stöðluðu ímynd sem ber-
serkirnir höfðu; í þeim felst merking orðsins berserkur, samkvæmt
hugmyndum fólks á miðöldum. Það er því ekki úr vegi að velta
fyrir sér hvers konar fyrirmynd hafi getað legið að baki þessum
hugmyndum? Og hvað gæti hugsanlega hafa valdið slíku hátterni?
Amanita muscaria
Samkvæmt flestum heimildum virðist sem berserkirnir hafi kom-
ist í ham sinn eftir eigin geðþótta. Þó eru til frásagnir af mönnum
sem annaðhvort virðast vera berserkir að staðaldri og ganga ber-
serksgang þegar þeir reiðast eða þá að á þá rennur berserksgangur
þegar minnst varir (jafnvel á tilteknum tíma sólarhringsins). Slíkt
ástand er talið til vandræða og verður jafnvel líkt við mein eða
sjúkdóm,63 enda hefur því verið haldið fram að berserksgangurinn
hafi í raun orsakast af sjaldgæfum sjúkdómi.64 En hver svo sem or-
sök berserksgangsins kann að hafa verið er augljóst að æðið er eitt
megineinkenni hans, ásamt eftirköstunum sem felast í þreytu og
máttleysi. Eins og fram kom hér í upphafi hafa menn leitað skýr-
inga á þessu æði berserkjanna, og m.a. varpað fram þeirri hug-
mynd að berserksgangurinn kunni að hafa orsakast af neyslu á
amanita muscaria (berserkjasveppi, flugusveppi, e. fly-agaric).65
Þessar skemmtilegu vangaveltur verða nú skoðaðar nánar sam-
kvæmt rannsóknum fræðimanna og nýjum heimildum.
Sveppur sá sem um ræðir - berserkjasveppurinn - verður best
þekktur af hinum fagurrauða hatti sínum, sem jafnan er þakinn
63 Sjá Eyrbyggja sögu, 28. kafla, ÍFIV og Vatnsdæla sögu, 37. kafla, ÍF VIII.
64 Sjá Kaiser 1998:302 og ennfremur bls. 283-299, þar sem berserksganginum er
líkt við hundaæði og lykantrópíu. „Melancholic lycanthropy" er geðrænn sjúk-
dómur sem einkennist af ofskynjun og þráhyggju sjúklings sem er sannfærður
um að hann umbreytist í dýr og hagar sér þá samkvæmt því. Sjá ennfremur
Breen 1999:94-96.
65 Yfirlit yfir helstu kenningar manna um orsakir berserksgangs má finna hjá
Breen 1999:85-102. Þær eru: 1) flugusveppskenningin, 2) ölkveisa eða eitrun af
völdum alkóhóls, 3) flogaveiki, 4) hundaæði, 5) andseta (tengsl við djöfulinn),
6) sjamanismi og 8) geðræn vandamál, einkum m.t.t. glæpamanna (siðblindu).