Skírnir - 01.09.2001, Page 75
SKÍRNIR
UM BERSERKI
339
sókn sína renna stoðum undir kenningu 0dmans, en niðurstöður
hans voru þó gagnrýndar, m.a. af Benjamin Blaney, sem í doktors-
ritgerð sinni um berserki frá 1972 telur fráleitt að stríðsmenn hafi
sóst eftir áhrifum sveppsins, þar sem þau felist m.a. í aukinni hug-
arró og máttleysi eða sljóleika. Hann telur ekkert samræmi milli
samtímalýsinga af eitrunareinkennum búfóteníns og lýsinga á ber-
serkjum fornsagnanna, ef frá eru taldar breytingar á litarhafti og
ranghvelfing augna.78 Hér má benda á að oftast fylgir máttleysið í
kjölfar æðisins, en það getur þó verið háð skammtastærð og öðr-
um áhrifaþáttum hverju sinni. En hvernig svo sem litið er á gagn-
rýni Blaneys má til sanns vegar færa að rannsókn Fabings getur
varla talist marktæk, enda fráleitt að leggja að jöfnu búfótenín og
amanita muscaria\ hið fyrrnefnda er einungis eitt af efnasambönd-
um sveppsins og hlutfall þess í efnasamsetningu hans þar að auki
svo óverulegt að vísindamenn hafa margir hverjir efast um virkni
þess.79
Ymsir fleiri hafa orðið til að gagnrýna kenningar um tengsl
amanita muscaria og berserksgangs, en oftast nær er gagnrýnin þó
studd afar veigalitlum röksemdum, enda hvergi um að ræða eigin-
legar rannsóknir sem unnar hafa verið í þeim ákveðna tilgangi að
varpa skýrara ljósi á álitamálið. Stundum virðist sem fyrirfram-
ákveðnar hugmyndir manna um sveppinn (sem undursamlegan og
guðdómlegan) villi þeim sýn og því finnist þeim fráleitt að setja
78 Blaney 1972:11-13. Ekki verður sagt að nákvæm rannsókn á sveppnum og
heimildum um hann liggi á bak við viðhorf Blaneys, sem afgreiðir vandamálið
með stuttaralegri umfjöllun á rúmum tveimur blaðsíðum. Ályktanir hans virð-
ast eingöngu dregnar út frá rannsókn Fabings. Blaney segir m.a. „Nánast hverj-
um sem kunnugt er um sérkenni berserkja, ætti að vera ljóst hversu fátt er sam-
eiginlegt manni undir áhrifum búfóteníns og hinu fornnorræna fyrirbæri ...
Niðurstöður dr. Fabings leiða einungis í ljós vanþekkingu hans sjálfs á eðli ber-
serksins" (þýðing höfundar, sbr. bls. 12).
79 Efnasamsetning sveppsins er allflókin og þar að auki breytileg í einstökum sýn-
um, eftir árstíma, þroskastigi, staðsetningu o.fl. Auk fjölda grunnefna er magn
íbótensýru (C5H6N204) og múskímóls (C4H6N202) umtalsvert, þótt efni
þessi skýri ekki með öllu virkni sveppsins. Onnur efnasambönd, þ.á m.
múskazón, múskarín og búfótenín, hafa ennfremur verið greind, en oftast í litlu
magni. Sjá Ammirati 1985:167 og Nyberg 1992:72. Magn búfóteníns er ekki
alltaf mælanlegt, auk þess sem efnið er ekki talið virkt við munnlega inntöku,
sbr. t.d.: Festi (3. kafla a).